11.04.1957
Efri deild: 87. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (3097)

117. mál, umferðarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Hv. 1. landsk. hefur nú mælt fyrir till. á þskj. 430, og hafa hv. dm. því heyrt rök þau, sem með því sýnast mæla að taka ákvæðin, sem þar um ræðir, í umferðarlögin. Ég vil nú leitast við að sýna fram á, hvað mælir þessu í gegn. Það er viðurkennd réttarfarsregla í ríkjum hins vestræna heims, að sé maður grunaður um afbrot, skuli hann teljast sýkn, þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Það er skylda hins opinbera að færa sönnur á sekt sökunauts. Takist það ekki, verður hann ekki sakfelldur. Sökunaut ber hins vegar engin skylda til að hjálpa hinu opinbera við rannsóknina. Honum er meira að segja ekki skylt að svara spurningum, sem lögregla eða rannsóknardómari kann að leggja fyrir hann. Hann hefur fulla heimild til að neita að svara öllum spurningum, sem svör við gætu leitt til upplýsinga um brotið eða um sekt hans. Lögreglumanni og rannsóknardómara er beinlínis skylt að benda sökuðum manni á það, að honum sé óskylt að svara spurningum, er beinlínis varða brot það, sem hann er grunaður um, en jafnframt að þögn hans kunni að verða skýrð honum í óhag. Þá er og nánustu vandamönnum sökunauts óskylt að bera vitni gegn sökuðum manni.

Sökuðum manni er þannig óskylt að aðstoða með nokkrum hætti hið opinbera í rannsókn, sem að honum beinist. Þessi regla er almennt viðurkennd í Vesturlöndum og víða um heim. Á miðöldum var þessu á annan veg farið. Þá var það ekki óalgengt, að sakaður maður varð að sanna sakleysi sitt, ef hann vildi komast undan sakfellingu og refsingu. Þetta mun því miður tíðkast sums staðar í heiminum enn þá, en það er mjög fjarri réttarmeðvitund og sjónarmiðum þeirra þjóða, sem við þekkjum bezt.

Reglan, sem hjá okkur gildir um þetta, er í fullu samræmi við þá kennisetningu, sem allir kannast við, að betra er, að sekur maður gangi laus, en að saklaus sé dómfelldur.

Það er vissulega hægt að færa ýmis rök fyrir brtt. þeirra hv. þm., 1. landsk. og 2. þm. N-M., á þskj. 430, en verði þær samþ., erum við komnir inn á þá braut að létta af því opinbera sönnunarskyldu um afbrot þau, sem þar ræðir um. Út af fyrir sig er mjög varhugavert að ganga svo langt, og ég hef því að vandlega íhuguðu máli fallið frá þeirri hugmynd að fylgja þessum till. Norðurlandaþjóðirnar hinar hafa ekki treyst sér til að taka þessi ákvæði í sina löggjöf um þessi efni, og frv. er eftir þeim sniðið. Þær telja slíkt of langt gengið og varhugavert fráhvarf frá almennum reglum um sönnunarbyrði.

Á það má og benda í þessu sambandi, að eins og frv. er úr garði gert, er sakborningi skylt að hlíta þeirri meðferð, sem læknir telur nauðsynlega vegna rannsóknarinnar, þ. á m. að láta taka úr sér blóðsýnishorn. Synji sakborningur um að láta taka úr sér þetta blóðsýnishorn, þá brýtur hann þar með þetta lagaboð, fellir ef til vill á sig refsiábyrgð, auk þess sem slík synjun mundi óhjákvæmilega verða skoðuð sem líkur gegn honum, þegar önnur sönnunargögn koma einnig til skjalanna, svo sem vitnaskýrslur og álit sérfróðs manns eða læknis.

Í brtt. er hins vegar ráðgert, að það ákvæði verði fellt niður úr frv., að sökuðum manni sé skylt að láta taka úr sér blóðsýnishorn, en í stað þess er ætlazt til þess, að upp sé tekin sú regla, sem greinir á þskj. 430 og merkt er a.

Benedikt Sigurjónsson hrl., sem nefndin ræddi við um þessi mál og er þeim gerkunnugur, taldi brtt. á þskj. 430 viðsjárverða af þeim ástæðum, sem ég hef leitazt við að gera grein fyrir. Ég hef sannfærzt um, að skoðun hans er rétt, og mun því greiða atkv. gegn þessari till.

Þá vildi ég fara nokkrum orðum um brtt. þeirra hv. þm. Barð. og hv. þm. Vestm. á þskj. 431 um ökuhraðann.

Það er vissulega rétt hjá hv. þm. Barð., að það er matsatriði, hvað rétt er að leyfa mikinn hraða við akstur bifreiða, og um þetta gilda mismunandi reglur í ýmsum löndum. Í núgildandi lögum hér á landi er lögleyfður hámarkshraði í þéttbýli 30 km og utan þéttbýlis á þjóðvegum 60 km. Í frv. er gert ráð fyrir, að hámarkshraði í þéttbýli verði 45 km, en utan þéttbýlis 70 km. Þó er sú undantekning gerð, að almenningsvagnar, 10 farþega og stærri, og vörubifreiðar, sem heimilað er að flytja 31/2 smálestar þunga eða meira, megi aka hraðar en 60 km. Enn fremur er það ákvæði í frv., að dómsmrh. geti ákveðið lægri hámarkshraða og ákveða megi lægri hámarkshraða í lögreglusamþykktum.

Fyrir hækkun hámarkshraðans eru þau rök, eins og hv. þm. Barð. réttilega gerði grein fyrir, að síðan umferðar- og bifreiðalög voru sett hér á landi 1941, hefur tækniþróun í bifreiðaiðnaði stóraukizt og miklar umbætur hafa verið gerðar á vegakerfi landsins og götum í bæjum. Gildandi ákvæði um þessi efni eru því að margra dómi talin úrelt, og það er á allra vitorði, að þeim er ekki fylgt af almenningi, enda treystist framkvæmdavaldið ekki til að knýja slíkt fram.

Að sjálfsögðu hæfir 45 km aksturshraði í þéttbýli og 70 km hraði utan þéttbýlis ekki öllum götum og vegum. Eins og gerð hefur verið grein fyrir, eru þessi ákvæði takmörkuð af margvíslegum almennum ákvæðum í 49. gr. frv. og auk þess heimilað, eins og gerð hefur verið grein fyrir, að ákveða lægri hámarkshraða í lögreglusamþykktum, og í þriðja lagi hefur dómsmrh. heimild til að lækka þetta mark.

Það má nú geta þess til fróðleiks, að í Danmörku er ekki ákvæði um hámarkshraða bifreiða, nema vörubifreiða yfir ákveðna þyngd, hvorki í bæjum né dreifbýli. Í Svíþjóð er hámarkshraði í bæjum 50 km á klst., en enginn utan þéttbýlis, nema fyrir almenningsvagna og vörubifreiðar. Í Finnlandi er hámarkshraði fólksbifreiða enginn, en fyrir önnur ökutæki 70 km á klst. Í Noregi er samsvarandi ákvæði 70 km utan þéttbýlis og 40 km í þéttbýli.

Það má vafalaust deila um það endalaust, hvort þetta hámarkshraðamark sé sett of hátt eða ekki. En það er staðreynd, sem við allir vitum og þekkjum, að sá hámarkshraði, sem nú er lögákveðinn eða ákveðinn í lögreglusamþykkt, 25 km á klst., er almennt ekki viðhafður. Allar eða flestar bifreiðar, sem maður sér á götu, aka hraðar, mjög oft að minnsta kosti. Og lög, sem ekki er hægt að framkvæma, eru mjög varhugaverð, og þau ber að afnema. Séu slík lög í gildi, þá dregur það úr virðingu manna almennt fyrir lögum.

Hv. þm. Barð. vildi gefa þá skýringu á því fyrirbrigði, að allir aka hraðar, eða flestir, skulum við segja, en lögleyfður hámarkshraði er nú, að það væri ekki refsað fyrir þessa hluti. Jú, það má vel vera, að eitthvað sé til í þessu, en framkvæmdavaldið hjá okkur sé ekki það öflugt, að það megi sín neitt gegn þessu. Það virðist svo sem þarna séum við orðnir langt á eftir tímanum, að þessi lagaákvæði séu það, sem kalla megi „antikveruð“.

Ég mun nú ekki fara öllu fleiri orðum um þetta, en vil aðeins bæta nokkru við í sambandi við hugleiðingar hv. þm. um það, hvar yfirleitt væri hægt að aka í bæjum eða þéttbýli með þessum ökuhraða, sem frv. gerir ráð fyrir, 45 km á klst. Það er vissulega alveg rétt hjá honum, að það er æði víða og sennilega víðast, sem ógerningur væri og óforsvaranlegt væri að aka með þessum hraða. Hins vegar ber því ekki að neita, að það eru nokkrir staðir og það mikilvægir staðir, þar sem slíkur ökuhraði virðist ekki óeðlilegur, og ég á þar fyrst og fremst við breiðar götur og ekki sízt þær, sem skipt er í tvennt að endilöngu, þannig að bifreiðar, sem aka í sömu stefnu, fara hvorn helming vegar. Ég vil nefna t.d. Hringbraut og Snorrabraut. Þar háttar víða þannig, að þar eru engar byggingar hvorugum megin götunnar. Þar er ekkert, sem byrgir útsýn, og þar sér maður greinilega alla umferð og ekkert, sem veldur því, að háska geti borið að höndum, sem ekki á að geta sézt fyrir fram undir venjulegum kringumstæðum. Einmitt á þessum götum eða þegar maður fer þær, þá verður maður þess greinilega var, að þar er yfirleitt ekið miklu hraðar en löglegt er nú, og ég spái því, að jafnvel þótt till. hv. þm. verði samþ., muni ganga erfiðlega að framkvæma þau hraðaákvæði, sem þeir ráðgera í sinni till., alveg eins og þau hraðaákvæði, sem nú eru. Hins vegar ætla ég, að 40–45 km hraði sé sá hraði, sem flestir aka nú á þessum götum, þar sem yfirleitt er hægt og forsvaranlegt að aka með þessum hraða. Ég ætla, að það muni ekki fjarri sanni. Kann að vera, að það séu ýmsir, sem aka enn hraðar, en það breytir ekki því, eftir því sem manni virðist, þegar maður ekur eða gengur eftir þessum götum, að þetta muni vera sá hraði, sem tíðkanlegastur er.

Ég geri ekki ráð fyrir, að á þessu yrði nein breyting, þó að þessi nýju ákvæði yrðu lögfest. Það þýddi sem sagt það, að löggjafarvaldið væri þarna að koma til móts við þá þróun, sem orðið hefur í þessum efnum, bæði um vegagerðir og gerðir bifreiða, frá því að síðustu ákvæðin um þetta voru lögfest.