09.11.1956
Neðri deild: 13. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (3130)

37. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, er að efni til á þá lund, að undanþeginn verði frá tekjuskatti sá hluti af atvinnutekjum þeirra, sem vinna beint við framleiðsluna, sá hluti launa þeirra, sem þeir afla sér í eftir-, nætur- og helgidagavinnu, að svo miklu leyti sem laun fyrir þessa vinnu eru ekki orlofsskyld, en það þýðir, að þeir greiði einasta skatt af þeim eins og um venjulega dagvinnu væri að ræða, en það, sem borgað er umfram dagvinnuna, verði þeim skattfrjálsar tekjur.

Þá er gert ráð fyrir í frv., að ráðherra setji reglugerð um framkvæmd þessa atriðis og miði þá við það, að einungis bein störf við framleiðsluvöruna sjálfa heyri undir þetta ákvæði.

Það, sem hér er fyrst og fremst átt við, er það, þegar svo ber undir, að fólki í verstöðvum landsins berast svo mikil verkefni, að fullkominn ómöguleiki er að afkasta því á venjulegum vinnudegi og viðkomandi verkamenn og verkakonur bæta á sig kannske sem nemur öðrum vinnudegi í viðbót eða jafnvel meiru, eins og dæmi eru til. Það kemur iðulega fyrir í aflahrotum, t.d. í Vestmannaeyjum. Sömuleiðis kemur það fyrir, þegar mikið berst að af síld í Norðurlandshöfnum, að vinnudagur verkafólksins við þessi framleiðslustörf verður upp í 16 og jafnvel upp í 20 klst. á sólarhring.

Það verður að játa, að það er alls ekki æskilegt að þurfa að leggja svo mikla vinnu á menn. Það, sem bjargar, er það, að oftast nær er þetta mjög tímabundið. Þó kemur það fyrir í verstöðvunum, þar sem unnið er úr þorski og afurðum bátaflotans, að slíkar „tarnir“ standa kannske heilan mánuð eða jafnvel lengur, og eru menn þá í rauninni mjög lúnir og oft beinlínis illa farnir á heilsu eftir slíkar „vinnutarnir“.

Og ef það er athugað, hvað þeir svo bera úr býtum fyrir þetta, þá verður það í rauninni harla lítið, því að af þessum ástæðum komast þeir venjulega með sínar tekjur í það háan skattstiga, að meiri hluti teknanna rennur til allt annars aðila en viðkomandi verkamanna eða verkakvenna sjálfra, og er þessi umframáreynsla, sem menn af þegnskap leggja á sig til þess að gera framleiðslu þjóðarinnar sem mesta og bezta, þess vegna verr launuð en skyldi.

Í ýmsum löndum er það talinn fastur liður í heilsuvernd að ákveða með lögum, að ekki sé leyft, að einn einstaklingur vinni umfram ákveðinn vinnustundafjölda. Það væri að ýmsu leyti hollt, ef hægt væri að taka upp þann hátt hérlendis. En það er bersýnilegt, að slíkt er fullkominn ómöguleiki, nema þjóðin sé þá jafnframt undir það búin, að framleiðsla hennar minnki verulega. Nú er það greinilegt, að frá þjóðhagslegu sjónarmiði eru þær forsendur ekki fyrir hendi, eins og sakir standa. Það er þess vegna eðlilegast, að þjóðfélagið reyni að sjá í það við þegna sína á einhvern hátt, þegar þeir leggja hart að sér til þess að framkvæma þau störf, sem þjóðfélaginu eru allra nauðsynlegust, og þess vegna er frv. þetta fram komið, til þess að reyna að ganga svo frá í skattalöggjöfinni, að þjóðfélagið a.m.k. veiti þá viðurkenningu fyrir slíka áreynslu umfram það, sem venja er að heimta af mönnum, að ekki verði krafinn skattur af henni. Ég vil taka það fram, að ef svona væri að farið, eins og frv. gerir ráð fyrir, að telja tekjur við framleiðslustörfin sjálf einungis skattskyldar að sama skapi og skylt er að greiða orlof á þær, þá væri þar skapað samræmi á milli þeirra tveggja lagabálka, sem hér er um að ræða, orlofslaganna og skattalaganna.

Það er á allra vitorði, að það er ekki skylt, eins og nú standa sakir, að greiða orlof á þessa vinnu, nema eins og um dagvinnu væri að ræða og það væri þess vegna mjög til samræmis, að hið sama gilti um skattinn, að það væri ekki heldur skylt að greiða af þeim skatt nema til jafns við venjulegar dagvinnutekjur, og mundu þar vegast á réttindi og skyldur í sambandi við þessi störf.

Ég vil enn fremur taka fram, að það verður æ greinilegra, eftir því sem tímar líða lengra fram, að krafa verkafólksins, sem við þessi störf vinnur, verður æ háværari um það, að tekjur, sem þannig er aflað, séu ekki skattskyldar á sama hátt og hinar almennu tekjur.

Það er á allra vitorði og ekki sízt þeirra manna, sem hart leggja að sér við framleiðsluna, að ýmsir aðrir þegnar í þjóðfélaginu sleppa betur frá skatti en ástæða væri til. Þeir hafa aðstöðu til þess að telja fram með öðrum hætti en það fólk, sem hér um ræðir. Og það er raunar á allra vitorði, að þeir gera það og notfæra sér það, þeir sem sjálfir hafa með höndum einhvern rekstur. Það mun vera almennt viðurkennt í landinu, að þeirra tekjur komi ekki allar fram á skattframtölum. Hér gegnir öðru máli. Hér er um að ræða launþega, sem eru í annarra þjónustu, og þeirra skattframtöl eru í rauninni endurskoðuð af viðkomandi atvinnurekendum. Skattyfirvöldunum berast sem sagt tvöfaldar skýrslur um þessa vinnu, svo að það er ekki möguleiki fyrir viðkomandi aðila að draga þar neitt undan í skattframtölum, enda þótt tilhneiging væri fyrir hendi til þess. Ég vil ekki halda því fram sem rökum, að vegna þess að ákveðnar stéttir eða fólk með ákveðna aðstöðu í þjóðfélaginu fremji skattsvik, beri að losa aðra við skattgreiðslur. En þegar um svo almennt mál er að ræða, eins og allir vita að skattframtöl eru í okkar þjóðfélagi, eins og nú er komið, þá er ekki óeðlilegt, að þjóðfélagið reyni með lögum að gera ráðstafanir til þess, að ekki leggist óhóflega mikill skattþungi á einmitt það fólkið, sem þarfast er þjóðfélaginu sem slíku. Það væri líka illa komið okkar málum, ef einn góðan veðurdag, kannske mitt í stórfelldustu aflahrotu vertíðarinnar, gerðu verkalýðsfélögin samþykktir um það, að frá og með deginum í dag eða á morgun leyfði viðkomandi félag ekki yfirvinnu.

Þetta er hugsanlegur möguleiki, og ég sé ekki annað en hann ætti lagalegan rétt á sér. Það væri svo margfalt viturlegra af löggjafanum að koma til móts við sanngjarnar óskir manna í þessu efni, og þess vegna hygg ég, að það væri líka frá þjóðhagslegu sjónarmiði veruleg trygging og ávinningur í því fyrir þjóðarbúið sjálft að samþ. það frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vænti þess svo, að þegar þessari umr. lýkur, verði málinu vísað til hv. fjhn.