10.12.1956
Neðri deild: 29. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (3175)

78. mál, fræðsla barna

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. var flutt á Alþ. síðast af hálfu menntmrn., en náði ekki fram að ganga. Voru þó í Ed. gerðar á því breytingar, sem hefði mátt ætla að miðuðu í samkomulagsátt, en nægðu ekki til þess að bjarga málinu, þegar það í annað skipti kom til hv. Nd. Ég hygg, að ástæðan til þess, að frv. var fellt, hafi — fyrir utan e.t.v. einhverja pólitíska togstreitu — verið sú, að sumir þm. óttuðust, að með þessu væri stofnað til sérskólahalds, þess, að sértrúarflokkar kæmu upp sínum skólum, svipað því sem er erlendis, og gæti það orðið til þess að grafa undan hinni almennu skólalöggjöf landsins. Ég játa það, að ef á slíku væri raunveruleg hætta, þá mundi ég telja það varhugavert og ekki rétt að stefna í þá átt. Við vitum hins vegar, að skilyrði fyrir slíku eru ekki fyrir hendi á Íslandi. Hér má segja, að sértrúarflokkar hafi mjög litla þýðingu. Það eru aðeins tiltölulega örfáir menn kaþólskrar trúar, og sértrúarflokkar innan hinnar almennu evangelisk-lúthersku þjóðkirkju eru svo fáir og lítils megnugir, að ekki þarf að óttast, að þeir geti orðið hinu almenna skólakerfi til truflunar.

Hins vegar held ég, að hið almenna skólakerfi hafi gott af nokkurri samkeppni, að það sé hollt fyrir barnaskólana, þá sem ríkið sjálft heldur uppi, að vita, að til séu einhverjir aðrir barnaskólar í landinu, sem veiti þeim nokkurt aðhald með samkeppni, og verði til þess, að þeir leggi sig frekar fram en ella um að ná góðum árangri með starfi sinu. Eins er það vitað, að þó að t.d. kaþólski barnaskólinn hér í bænum hafi starfað um marga áratugi, þá hefur hann ekki starfað sem trúboðsskóli. Hann hefur ekki orðið til þess að útbreiða hina kaþólsku trú, og þarf því ekki að óttast skólahaldið að því leyti. En á þeim skóla hefur verið nokkur annar bragur en barnaskólunum, og ýmsir, sem sent hafa börn sín í þennan sérskóla, telja, að þau hafi haft gott af því að vera þar, og enginn vafi er á því, að hann hefur orðið barnaskólunum hér til nokkurrar vakningar einmitt sem hollur samkeppnisaðili.

Af þessum ástæðum tel ég, að það sé beinlínis til þess að örva hollt skólahald í landinu og til þess að styrkja skólakerfið að gera mögulegt, að slíkir sérskólar starfi. Kostnaðurinn við þá er svo mikill, að þrátt fyrir það, þótt hlaupið sé undir bagga með þeim á þann veg, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þá er engin hætta á því, að slíkt skólahald verði almennt. Það verður alltaf undantekning, það krefst svo mikilla fórna af þeim, sem standa fyrir skólunum, að útilokað er, að slíkt skólahald verði almennt. Ég vil því skora á menn að taka þetta mál til endurnýjaðrar athugunar.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, þá átti einhvern þátt í því, að það hindraðist framgangur þess í fyrra, það los, sem komið var á samstarf þáverandi stjórnarflokka, og mínir góðu fyrrverandi samstarfsmenn í Framsfl. höfðu ánægju af því að fella mál fyrir mér, ef þau voru ekki of veigamikil. Ég skil það, að þeir þurftu að bregða á leik, blessaðir karlarnir, öðru hverju, og tek það ekki illa upp, en vonast til þess, að þeim hafi vaxið vizka með aldri og styðji nú þetta góða málefni.