15.11.1956
Efri deild: 13. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (3276)

52. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég tel víst, að d. fallist á till. hv. flm. þessa frv. og vísi því til samgmn. Ég tel einnig víst, að það verði sami háttur á eins og ævinlega hefur verið undanfarin ár, þegar vegalög hafa verið borin fram hér, í hvorri deildinni sem það hefur verið, að það rigni brtt. við þetta frv. frá flestum þm. eða úr flestum kjördæmum, ef það fer til Nd. Hvort samgöngumálanefndir deildanna taka sig svo til og afgr. í sameiningu frv., meðmæli með sumum till., m.ö.o., hvort vegalögin verða opnuð á þessu þingi, um það skal ég ekki neinu spá.

Það er ekki hægt fyrir einstaka þm. að draga sig í hlé, þegar um vegalög er að ræða, ef þau eru opnuð á annað borð á sama grundvelli og verið hefur. Þess vegna er það, að ég mun á sínum tíma bera fram brtt. við þetta frv., eins og ég býst við að aðrir geri, en það er ekki tímabært að fara að ræða um það hér og nú. En ég vildi nota þetta tækifæri til þess að vekja máls á því sama sem ég vakti máls á, þegar vegalög voru borin hér fram síðast, þ.e. hvort hv. samgmn. sæi sér ekki fært og ef til vill í samráði við samgmn. hv. Nd. að taka vegamálin til athugunar alveg frá grunni.

Það er fyrir löngu búið að raska þeim grundvelli, sem lagður var í fyrstu um skiptingu vega í þjóðvegi, sýsluvegi og hreppavegi. Í fyrstunni var það svo, að það voru ekki aðrir þjóðvegir en langleiðirnar. Á seinni árum hefur svo þjóðvegum fjölgað jafnt og þétt, og nú eru í þjóðvegatölu hreinir innansveitarvegir, sem að vísu, eins og hv. flm. þessa frv. tók fram, eru gagnlegir og til stuðnings við atvinnulífið í sveitum landsins og einnig við sjó, en ekki er þó hægt að segja að hafi almenna þýðingu fyrir þjóðina í heild sinni.

Mér sýnist alveg kominn tími til þess að athuga um þessa skiptingu yfirleitt, hvort hún er ekki með öllu orðin úrelt og hvort ekki er kominn tími til þess, að allir vegir, sem taldir eru nauðsynlegir í landinu, séu í einum flokki. Það mætti vitanlega gera héruðum að leggja eitthvað fram til byggingar og viðhalds sumra vega eins fyrir því. Þetta er ákaflega tilviljunarkennt, hvaða vegir eru teknir upp í þjóðvegatölu og hverjir ekki, eins og þetta hefur gengið á síðari árum.

Að öðru leyti rísa ég til þess, sem ég sagði hér í d. í fyrra um þetta efni. Ég bar þá fram þessa sömu ósk og röddstuddi hana nánar en ég geri nú.

En fari svo, að nefndirnar sjái sér þetta ekki fært og farið verði að afgreiða vegalagafrv. með sama hætti og áður, þá er auðvitað þessi skoðun mín um það, að það ætti að fara fram heildarendurskoðun á þessum starfsháttum, ekkert í bága við það, að vitanlega mun ég halda fram rétti míns héraðs alveg eins fyrir því, ef farið verður á annað borð að opna vegalögin.