16.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

Rannsókn kjörbréfa

Fyrri frsm. 2. kjördeildar (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég er nú, eins og menn muna, frsm. einnar af kjörbréfadeildunum og mun því eiga rétt til að tala þrisvar, en ég býst þó við, að ég geti látið nægja stutta athugasemd.

Ég vildi byrja með því að spyrja hæstv. aldursforseta að því, hvort hann telur það leyfilegt og þingsköpum samkvæmt að ræða til muna um allt annað mál en þingið er að fjalla um, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði og eins og fleiri hafa gert hér. Hér hefur mjög blandazt inn í umræðurnar væntanleg stjórnarskrárbreyting, kjördæmabreyting, en ég hélt, að hér væri verið að ræða um gildi kjörbréfa, sem þingið hefur til meðferðar.

Út af því, að ég hafði látið það í ljós í fyrradag, að ég ætla, heldur en í gær, að þessar umræður væru búnar að taka æðilangan tíma, og hæstv. forseti afsakaði þetta með því, að það væri ekki venja að halda langa fundi í byrjun þings, þá er það rétt, að það er ekki venja að halda langa fundi í byrjun þings, þegar þingið byrjar á venjulegan hátt, þegar annaðhvort hafa ekki verið kosningar eða kjörbréf eru samþ. athugasemdalaust, og svo getur þingið gengið að því að setja sig á laggirnar. En eftir því man ég og sjálfsagt hæstv. forseti líka, því að við komum jafnt á þing, að þó að það hafi orðið miklar umr. hér áður fyrr um gildi kosninga, þá hefur verið reynt að haga því svo, að þeim yrði lokið sem allra fyrst, svo að þingið gæti setzt á laggirnar. Það hefur verið vakað fram á nætur o. s. frv., að ég tali nú ekki um, að seinni hlutar dags hafa verið notaðir. Og nú einmitt, þegar engin n. er til í þinginu og þar af leiðandi engin nefndarstörf, þá sé ég ekki annað en að þm. gætu vel annað því að sitja hér á fundum seinni hluta dags.

Það eru sem vænta mátti enn þá deilur um það, hvort bandalag Framsfl. og Alþfl. hafi verið fordæmalaust eða ekki, og hv. sjálfstæðismenn reyna að halda því fram, að Breiðfylkingin, eins og þeir kölluðu samband sitt við Bændaflokkinn fyrir 19 árum, hafi ekki verið hliðstæð því bandalagi, sem var í vor. Hv. 1. þm. Reykv. tók t. d. Austur-Húnavatnssýslu, þar sem var hörð kosningabarátta — það er rétt — á milli Jóns Pálmasonar, frambjóðanda Sjálfstfl., og Jóns Jónssonar, frambjóðanda Bændaflokksins. Ég var sjálfur búinn að taka dæmi af þessu og nefna þetta atriði. Þetta var aðeins hliðstætt því, að það hefur komið fyrir, að það hafa orðið hörð átök á milli manna úr sama flokki við kosningar í kjördæmi. Það voru allt aðrar ástæður til baráttunnar í Húnavatnssýslu en þær, að það væri ekki innilegt samband milli forustumanna Bændaflokksins og forustumanna Sjálfstfl. Þær ástæður voru persónulegar.

Framboðið í Dalasýslu, þegar Þorsteinn Briem bauð sig fram fyrir Bændaflokkinn, að því er kallað var, en var kosinn af sjálfstæðismönnum og hlaut kosningu þess vegna, samþykktu allir þm. þá og tóku hans kjörbréf gilt, hv. þm. A-Húnv. einnig. Sé ég ekki annað en að sams konar framboð hafi verið lögleg nú í ár.

Hv. 1. þm. Reykv. nefndi það sem eitt dæmi þess, að hér hefði verið um annað að ræða en í vor, að það hefðu hvergi verið sameiginlegir listar Sjálfstæðisfl. og Bændaflokksins. Hvar áttu að vera sameiginlegir listar þá? Það var ekki hlutfallskosning nema í einu kjördæmi, nefnilega Reykjavík. Og það var vitað mál, að Bændaflokkurinn hafði alls ekkert fylgi í Reykjavík, þannig að það hefði lítið gagnað, þó að einn Bændaflokksmaður hefði verið á lista Sjálfstfl. þar. En það var annað í tvímenningskjördæmunum en að það væri sameiginlegur listi. Það var sameiginlegt framboð í tvímenningskjördæmum, eins og t. d, í Eyjafjarðarsýslu. Þar bauð Sjálfstfl. fram aðeins einn, þó að það ætti að kjósa tvo þm. fyrir kjördæmið, og Bændaflokkurinn annan. Og sömu mennirnir kusu þessa menn báða. Meira að segja þetta raskaði þeirri tölu, sem út kom um atkvæðatölu flokkanna og þar með úthlutun uppbótarsæta, því að hvorum þessara manna voru talin atkvæðin heil. Ég man, að í Eyjafjarðarsýslu, sem þá var miklu fjölmennari með Siglufirði og Glerárþorpi en nú er, fengu þeir um 1200 atkv. saman, mjög nálægt því. Það rökrétta hefði auðvitað verið að deila þessu á milli flokkanna og telja hvorum flokk helminginn af þessum atkv., en það var ekki gert. Sjálfstfl. voru talin öll þau atkv., sem hans frambjóðandi fékk, og Bændaflokknum öll atkv., sem Bændaflokksmaðurinn fékk. Þetta er í raun og veru miklu nánara bandalag og kom þeim flokkum, sem það notuðu, að meira haldi e.n að hafa sameiginlegan lista, því að það getur ekki komið fyrir nú, að tveir menn á sameiginlegum lista í tvímenningskjördæmi verði uppbótarmenn, en þarna urðu báðir frambjóðendur þessara flokka uppbótarmenn í Eyjafjarðarsýslu.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að þetta bandalag hefði ekki í neinu raskað eðlilegum kosningaúrslitum. Ég efa ekki, að hann hafi haft þær tölur réttar, sem hann sagði um atkvæðamagn flokkanna í þessum kosningum, En það var bara annað: Tilgangurinn var sá, að það kæmi annað út en það, sem hann kallar nú eðlileg kosningaúrslit. Tilgangurinn var sá að vinna þingsæti fram yfir það, sem atkvæðatala sýndi.

Út af því, sem hann minnti á ummæli hæstv. fjmrh., þá er það vitanlegt, að hann hvatti framsóknarmenn til þess að standa að þessu bandalagi. En þetta breytir engu. Sjálfstæðismenn hvöttu sína menn til þess að standa að bandalaginu í Breiðfylkingunni, svo að það er fordæmi fyrir því, Eini munurinn á Breiðfylkingunni og bandalagi Framsfl. og Alþfl. í vor, formlega séð, er aðeins sá, að bandalag Breiðfylkingarinnar mistókst að mestu leyti, þó að þessir flokkar hefðu tvo þm. upp úr því samt, sem þeir hefðu ekki annars fengið, en bandalagið frá í vor tókst að töluvert miklu leyti. Þetta er munurinn.

Það er einkennilegt, að hv. 1. þm. Reykv., sem hefur verið prófessor í lögum við háskólann, vitnaði ekki í lög eða lagagreinar sínu máli til stuðnings. Hann taldi, að Jón Ásbjörnsson hæstaréttardómari hefði gert skyssu, án þess að færa að því lögfræðileg rök.

Ég býst við, að enginn efist um lögfræðiþekkingu þessara tveggja manna, Jóns Ásbjörnssonar hæstaréttardómara og Bjarna Benediktssonar, hv. 1. þm. Reykv. En það kynni nú að vera, að einhverjum dytti í hug, að Jón Ásbjörnsson hefði litið á málið sem dómari og eingöngu sem dómari, en að hv. 1. þm. Reykv., þó að hann eigi að vera hér dómari eins og við allir, líti e. t. v. fullt svo mikið á sig sem málaflutningsmann fyrir sinn flokk, og menn vita, að það er kannske ekki ævinlega það sama, sem lögfræðingarnir segja sem málaflutningsmenn og sem dómarar.

Hv. þm. A-Húnv. heldur áfram að tala hér um afbrotamál. Og hann taldi upp sjö tegundir glæpa og lasta, sem frambjóðendur Framsfl. og Alþfl. áttu að hafa gert sig seka um. Það er ekki ástæða til þess að fara að ræða þetta lið fyrir lið, því að allt byggist það hjá honum á sömu hugsunarvillunni, að hann blandar hér tvennu ólíku saman, framboðum og kosningum, þeirri framkvæmd að bjóða sig fram til þings og þeirri að kjósa til þings.

Eins og fyrir liggur og enginn getur rengt, hefur enginn af frambjóðendum þessara tveggja flokka gert sig sekan í neinu af því, sem hv. þm, bar á þá. Þeir buðu sig allir fram fyrir ákveðinn stjórnmálaflokk eða f. h. ákveðins stjórnmálaflokks. Þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð, ég hef tvisvar áður fært að þessu rök, sem ekki hafa verið hrakin. Hitt er svo annað mál, að kjósendur úr fleiri stjórnmálaflokkum kusu þá suma. Það er hvergi bannað, meira að segja það er leyft. Kjósendur landsins eiga að vera frjálsir að því og eru frjálsir að því, hvern þeir kjósa. Ef kjósendum væri bannað að kjósa annað en þann flokk, sem þeir hefðu kosið áður, þá væri til lítils að hafa nokkra kosningabaráttu yfirleitt.

Auðvitað er hv. þm, reiðastur yfir því, hvað Bragi Sigurjónsson fékk mörg atkv. í Austur-Húnavatnssýslu. Ja, hver ber ábyrgð á því, að það lítur svo út, að 100 fyrrverandi kjósendur hv. þingmanns hafi kosið Braga Sigurjónsson? Ekki hafa þeir verið framsóknarmenn eða Alþýðuflokksmenn. Ég veit ekki nema hv. þm. sjálfur beri ábyrgð á þessum höfuðglæp.

En það, sem raunverulega kom mér til þess að gera hér stutta aths., voru þau brigzl og ókvæðisorð, sem hv. þm. A-Húnv. hafði hér um einn af hinum nýju þm., hv. þm. Ak., Friðjón Skarphéðinsson. Það var eins og hann fyndi einhverja alveg sérstaka sök hjá þessum manni, og sökin skildist mér einkum vera sú, að hann hafði fellt ágætan mann frá þingmennsku, Jónas Rafnar.

Ég skal taka undir þau hrósyrði, sem hv. þm. hafði um Jónas Rafnar, og ef ég heyrði honum hallmælt persónulega, mundi ég mótmæla slíkum ummælum. Ég þekki hann bæði héðan af þingi og heiman úr okkar byggðarlagi, og ég tek á allan hátt undir það, að það sé góður og gegn maður og bezti drengur, eftir því sem ég þekki hann. En stjórnmálabaráttan er nú einu sinni þannig og flokkaskipunin, að menn geta ekki farið að því, þó að andstæðingur þeirra sé afbragðsmaður persónulega. Hvernig komst hv. þm. A-Húnv. á þing? Var það ekkí með því að fella afbragðsmann, sem lengi hafði setið hér á Alþ. og átt fylgi og trausti að fagna? Ég komst á þing á sama hátt. Það er svona, Kjósendurnir skipta um skoðun, og nýir menn koma. Það fer eftir pólitískum skoðunum kjósendanna, hvern þeir velja.

Hitt get ég sagt hv. þm. A-Húnv.: Hann fær ekkert þakklæti hjá sínum flokksmönnum á Akureyri og í Eyjafjarðarsýslu með því að svívirða Friðjón Skarphéðinsson, hv. þm. Ak., bæjarfógeta á Akureyri og sýslumann í Eyjafjarðarsýslu, því að það er svo um hann, að hversu ágætur maður sem Jónas Rafnar er, sem ég skal ekkert úr draga,þá hefur Friðjón Skarphéðinsson þar hvers manns traust sem yfirvald og starfsmaður. Ég gat ekki látið hjá líða að mótmæla þessari árás, sem ekki er drengileg, því að það er ekki drengilegt af gömlum þm. að ráðast með offorsi á nýkominn þm. án sérstaks tilefnis, og tilefnið var ekki neitt til persónulegra árása, því að hv. þm. Ak. flutti sitt mál mjög hógværlega, þegar hann gerði grein fyrir áliti þess hluta kjördeildar, sem hann var frsm. fyrir.

Hv. síðasti ræðumaður, 4. landsk. þm. (FRV), hélt hér mjög heimspekilega ræðu, sem ekki kom að öllu leyti málinu við, sem hér er um rætt, og vék m. a. að því, hver hefði verið tilgangur þeirra, sem settu núgildandi kosningalög og þó sérstaklega þau ákvæði þeirra, sem eru um uppbótarsætin, en þau ákvæði stafa frá árinu 1933. Ja, ég var nú einn í þeirri nefnd, sem fjallaði um stjórnarskrána og kosningalögin, og ég ætti þess vegna að vita nokkurn veginn eins vel um það og þessi hv. þm., hver var tilgangurinn. Tilgangurinn með uppbótarþingsætunum var auðvitað sá, eins og allir vita, að jafna á milli þingflokka, svo að hver þeirra fengi sem næst því að hægt var að komast þingmannatölu í samræmi við kjósendatölu. Á hinn bóginn er það alveg ljóst, að tilgangurinn var ekki sá, að þessi jöfnun yrði alger, þannig að hver þingflokkur fengi nákvæmlega þingmannatölu í samræmi við kjósendatölu sína. Það sést fyrst og fremst á því, að það lágu fyrir till. frá þáverandi formanni Sjálfstfl., Jóni Þorlákssyni, um ótakmarkaða tölu uppbótarþingmanna, þar til fullum jöfnuði væri náð. Alþ. vildi ekki fallast á þær till. Í öðru lagi með því að halda öllum þeim kjördæmum, sem haldið var þá, og ákveða þau beinlínis í stjórnarskránni, lá það beinlínis fyrir, að það gat komið fyrir, að þarna yrði það, sem sumir menn kalla ójöfnuð. Ég þori ekki alveg að fullyrða það, en mig minnir, að það væri reiknað út eftir kosningarnar 1934, fyrstu kosningarnar, sem fóru fram samkv. þessum lögum, að ef Framsfl. hefði haldið sama atkvæðamagni í kjördæmunum sem hann hafði í kosningunum vorið 1931, en þá hlaut hann rúml. 35% allra atkvæða, þá hefði hann orðið í hreinum meiri hluta á Alþ., þrátt fyrir uppbótarsætin, enda gera stjórnarskráin og kosningalögin ráð fyrir því, að fullt höfðatölujafnrétti náist ekki, því að það á að reikna út, hvað margir kjósendur koma á hvern þm. í hverjum flokki, og sá flokkurinn, sem fær tiltölulega fæsta kjósendur á bak við hvern þm., hefur svokallaða hlutfallstölu kosninganna, og við hann er miðað. Það er beinlínis gert ráð fyrir því, að einn flokkurinn fái fleiri þm. í hlutfalli við kjósendur en hinir, Bollaleggingar um það, hvernig þessu skuli breyta, álít ég að eigi ekki hér við, og ég skal ekki fara út í það, en segi eins og ég hef áður sagt hér, að mér virðist, að það eigi að dæma þetta mál eftir þeim lögum, sem um það eru og fyrir liggja.

Ég held, að það gæti verið dálítið hæpið að fara að dæma á þann hátt, sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um, t. d, að úrskurða kjörbréf samkv. einhverjum óljósum tilgangi, sem sagður er hafa verið. Ætli það gæti ekki farið svo, að það gæti komið sá meiri hluti á Alþ., sem dæmdi bara þannig, að stjórnarandstæðingar hefðu ekkert á þingi að gera, og sendi þá heim svo og svo marga? Ég held þvert á móti, að hvernig sem þessu er fyrir komið og hvaða breytingar sem kunna að vera gerðar í framtíðinni, þá sé einmitt um að gera að hafa lagaákvæðin skýr og tvímælalaus um þessi atriði, svo að það ættu ekki að þurfa að vera deilur svipaðar þeim, sem hér hafa farið fram um kjörbréf.