16.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. meiri hl. 1. kjördeildar (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ýmsir hv. þm. Sjálfstfl. hafa nú um nokkurra daga skeið þreytt eins konar boðhlaup í ræðumennsku um ágreining þann, er þeir hafa gert um kjörbréf uppbótarþingmanna Alþfl. Þetta segjast þessir hv. þm. gera af umhyggju fyrir þjóðinni, enda þótt þeir sjálfir segist telja vonlaust, að orðræður þeirra beri árangur, þegar til atkvgr. kemur um málið hér á Alþingi. Þegar þess er gætt, að í umr. þessum hefur ekkert nýtt komið fram, engin þau rök, sem þjóðinni voru áður ókunn og ekki höfðu komið fram í útvarpi, blöðum og á stjórnmálafundum og það margsinnis, þá má hver sem vill lá mér það, þótt mér sé ekki ljós gagnsemi hinna mörgu og löngu ræðna þessara hv. þm. Sjálfstfl., sem hér hafa verið fluttar um málið.

Hér hefur að vísu margt, meira eða minna skynsamlegt, verið sagt um kjördæmaskipun, hvernig skynsamlegast og æskilegast væri að haga henni. Ég leiði hjá mér að ræða það mál nú, sökum þess að það er ekki á dagskrá. Hins vegar fjallar mál það, sem nú er á dagskrá, um skilning á og framkvæmd kosningalaga þeirra, sem nú eru í gildi. Eftir þeim fóru kosningarnar vorið 1956, en um gildi þeirra, skýringar á þeim og kjörbréf, sem gefin hafa verið út samkv. þeim fjallar ágreiningur sá, sem hér á að skera úr.

Mér kemur heldur ekki til hugar að fara að endurtaka nú rökin fyrir skoðun minni á málinu. Ég hef gert grein fyrir þeim í höfuðatriðum fyrir nokkrum dögum. Hins vegar vil ég ekki láta hjá líða að leiðrétta fáeinar rangfærslur, sem komið hafa fram í ræðum sumra hv. þm. Sjálfstfl., og er þá fyrst það, að mér er borið það á brýn af ýmsum hv. þm., og man ég í því sambandi eftir hv. 1. þm. Reykv. (BBen), hv. þm. A-Húnv. (JPálm) og hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), að ég hafi sagt í ræðu minni s. l. fimmtudag, að það væri ekkí Alþingis að fjalla um mál það, sem hér er á dagskrá, og það hefði jafnvel ekki heimild til þess. Þessu hef ég að sjálfsögðu aldrei haldið fram né heldur látið mér til hugar koma að halda fram. Hitt sagði ég, eins og handrit vélritara skrifstofu Alþingis ber með sér, að úrskurður landskjörstjórnar hefði átt að vera endalok deilunnar og væri raunar svo í huga meginþorra kjósenda landsins, sökum þess að málið væri margrætt frá öllum hliðum áður og því illa varið þeim tíma, sem í það færi hér á Alþingi að deila um það. Vitanlega dettur hvorki mér né öðrum í hug að bera brigður á rétt og skyldu Alþingis til þess að úrskurða kjörbréf. Í ummælum mínum fólst hins vegar það, að langar umr. um þetta mál yrðu engum að gagni. Umr. þær, sem fram hafa farið um málið af hálfu hv. þm. Sjálfstfl., þykja mér hafa staðfest það greinilega, sem ég raunar átti von á, að ekkert nýtt hefur komið fram í þeim. Þær hafa að langmestu leyti verið endurtekning með mismunandi orðalagi og framsetningu á því, sem áður hefur verið sagt og skrifað um málið.

Hv. þm. A-Húnv. staðhæfði í þessu sambandi, að ég hefði ekki lesið kosningalögin. Mér er vissulega nákvæmlega sama um, hvaða skoðun hv. þm. hefur á því, hvort ég hafi lesið þessi lög eða ekki. Ég ber alls ekki brigður á það, að hann muni sjálfur hafa lesið kosningalögin, en sá lestur virðist hafa komið honum að takmörkuðu gagni, því að í ljós hefur komið í þessum umr., að hann brestur mjög skilning á efni þeirra og anda, og væri ómaksins vert fyrir hann að lesa þau betur í góðu tómi.

Hv. 1. þm. Reykv. fór í ræðu sinni í gær verðskulduðum viðurkenningarorðum um Jón Ásbjörnsson, en þessi hv. þm. staðhæfði, að hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, hv. 3. landsk. þm., sæti hér á Alþingi sem landskjörinn þm. þvert gegn vilja Jóns Ásbjörnssonar. Þetta veit hv. þm. og þingheimur allur að er gersamlega rangt. Slík staðhæfing hefði fremur átt heima í ræðu hv. þm. A-Húnv. og verið í meira samræmi við yfirbragð hennar og anda. Allur þingheimur veit, og frá því hefur verið skýrt í blöðum, svo að landsmenn hafa átt kost á því að kynnast því, að Jón Ásbjörnsson tók þátt í að gefa út kjörbréf til handa Gylfa Þ. Gíslasyni, hæstv. menntmrh. Hann undirritaði það fyrirvaralaust, en vísaði við undirskrift sína til grg. um það, hvers vegna hann áleit, að þessi hv. þm. ætti að fá kjörbréf, og hvers vegna hann átti þátt í, að kjörbréfið var gefið út. Það liggur ljóst fyrir, að þessi hv. þm. situr á Alþingi sem 3, landsk. einmitt með vilja og samþykki Jóns Ásbjörnssonar. Það valt einmitt á afstöðu Jóns Ásbjörnssonar, að þessi hv. þm. fékk kjörbréf. Þarna sýnist mér vera greinilegt dæmi um það, að ofurkapp hv. 1. þm. Reykv. í máli þessu hefur hlaupið með hann í gönur. — Þessi sami hv. þm. fór vandlætingarorðum um þau ummæli í niðurlagi ræðu minnar, að ég teldi, að stjórnskipulegu öryggi þjóðarinnar væri stefnt í voða, ef Alþingi færi inn á þá braut að ógilda kjörbréf þau, sem hér er deilt um. Slík ummæli taldi hann ósæmileg, þar sem hér væri um að ræða mál, sem um mætti deila og menn litu ýmsum augum á. Jafnhógvær maður í orðræðum og hv. 2. þm. Eyf. (MJ) er, viðhafði sams konar ummæli í sinni ræðu fyrir nokkrum dögum. Hann sagðist álíta, að stjórnskipulegu öryggi þjóðarinnar yrði stefnt í voða, ef kjörbréfin yrðu tekin gild á Alþingi. Hv. 1. þm. Reykv. lét þess ekki getið, að hann hefði neitt við þessi ummæli að athuga hjá hv. 2. þm. Eyf. Það liggur því beint við að álykta, að hann áliti ummæli sem þessi því aðeins ótilhlýðileg, að andstæðingur hans viðhafi þau, annars sé ekkert við þau að athuga. Ég held, að kappgirni hv. þm. hafi einnig hér hlaupið með hann í gönur.

Ræður hv. þm. A-Húnv. tel ég engan veginn þess virði, að þeim sé svarað, svo sem bollaleggingum hans um það, að ég hafi með refsiverðum hætti, lögbrotum og klækjum, fellt einn ágætan þm, Sjálfstfl., góðvin minn, Jónas Rafnar, frá þingmennsku. Ég vil aðeins benda á það, að rökréttara er að orða þetta svo, að kjósendur á Akureyri hafi fellt hann frá þingmennsku. Til þess höfðu þeir líka fulla heimild.

Sannleikurinn er sá, að öll kosningabandalög, leynileg og opinber, í fáum kjördæmum eða öllum, eru til þess gerð, að aðildarflokkar þeirra fái betri útkomu í kosningum en ella yrði. Á þessu er enginn eðlismunur, aðeins stigsmunur. Ef menn vilja koma í veg fyrir þetta, fæ ég ekki séð, að það verði gert með öðrum hætti en þeim að hanna hvers konar kosningabandalög og auk þess skylda alla flokka, sem þátt taka í kosningum, að hafa menn í framboði í öllum kjördæmum. Mundi þó slíkt sennilega ekki duga til. Hvorugt þetta tel ég skynsamlegt eða æskilegt, og ég á von á því, að jafnvel hv. þm, Sjálfstfl. séu á sama máli.

Það er sannarlega ekki óalgengt fyrirbrigði, að ýmsir séu óánægðir með þessi eða hin lagafyrirmæli. Það á hins vegar ekki að valda því, að þessum lagafyrirmælum sé ekki fylgt, meðan þau eru í gildi, ef þau eru skýr og ljós, eins og ég tel að ákvæði þau séu, sem hér eiga að skera úr, og á ég þá einkum við d-lið 31. gr. stjórnarskrárinnar og ýmis ákvæði í kosningalögum. Séu hins vegar lagafyrirmælin óljós, koma til greina lögskýringarreglur, sem hv. 6. þm. Reykv. (GTh) ræddi um, en fyrr ekki.

Ef svipta á nú Alþfl. fjórum landskjörnum þm. sínum, svo sem Sjálfstfl, krefst, þá eru þar með rúmlega 15 þús. kjósendur í landinu sviptir skýlausum rétti, sem þeim er áskilinn í stjórnarskránni til þess að hafa áhrif eins og aðrir kjósendur á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Það skiptir engu máli í þessu sambandi, í hvaða flokki eða flokkum þessir kjósendur eru. Þeir hafa með atkv. sínu gefið til kynna, að þeir vilja fela Alþfl. umboð sitt á Alþingi. — Ég vænti þess, að enginn beri brigður á það, að til þess hafi þeir haft fulla heimild. Í kröfu Sjálfstfl. um ógildingu fjögurra fyrrgreindra kjörbréfa felst því að mínum dómi beint tilræði við stjórnskipulega ákveðinn rétt þessara kjósenda.