07.12.1956
Efri deild: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

71. mál, vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um það að hækka svokallaða hlutatölu, sem mér skilst vera dráttatala, í vöruhappdrætti SÍBS um 15 þúsund. Nú er svo ákveðið í lögum, að þessi hlutatala hjá SÍBS megi ekki fara fram úr 50 þúsundum, og með frv. því, sem lagt hefur verið hér fram sem stjórnarfrv., er farið fram á, að það hækki um 15 þús. eða upp í 65 þúsund.

Um ástæður fyrir þessu frv. segir svo í hinu upphaflega frv. stjórnarinnar, að það sé flutt að beiðni stjórnar SÍBS. Sambandið skortir fé til þess að koma upp nauðsynlegum mannvirkjum, sem eftir er að reisa að Reykjalundi. Stjórn þess telur hins vegar, að unnt sé að afla aukins fjár með því að selja fleiri hluti en leyfðir eru samkv. gildandi lögum, og er því lagt til, að leyft verði að hækka hlutatöluna eins og að framan segir.

Það er nú komið allmjög í tízku með happdrætti hér á landi og ef til vill á sumum sviðum fullmikið að þeim gert, en á hinn bóginn er þess að geta, að þessi aðferð virðist vera mjög sigurvænleg til þess að draga saman fé, og flest munu þessi happdrætti hafa eitthvert gott augnamið, þjóna einhverju góðu málefni að dómi þeirra er fyrir þeim standa. Hvað SÍBS áhrærir, er óhætt að fullyrða það, að fjáröflun þeirra hefur frá upphafi vega sinna þjónað mjög nauðsynlegu og góðu verki í heilbrigðismálefnum þessarar þjóðar. Virðist það vera einróma álit landsmanna, og þar sem hæstv. ríkisstj. hefur farið fram á, að þetta verði gert, og lagt það til, má gera ráð fyrir, að hv. Alþingi fallist á það.

Að því leyti er snertir fjhn. þessarar hv. d., þá samþykkti hún einróma að leggja til við deildina, að þetta frv. yrði samþ. óbreytt.