24.10.1956
Neðri deild: 4. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

11. mál, skipakaup

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hér hjá hæstv. forsrh., er frv. þetta staðfesting á því fyrirheiti ríkisstj., sem hún gaf, þegar hún tók við völdum, að keyptir skyldu verða til landsins 15 nýir togarar. Ekki er um það að efast, að mál þetta er eitt af hinum stærri atvinnumálum, sem fyrir Alþ. koma, og það er því ekki óeðlilegt, að nokkuð sé rætt um það hér þegar á fyrsta stigi þess. Þó er það svo, að hér hafa alloft áður farið fram nokkrar umr. um togarakaup og nauðsyn þess, að gert yrði frekara átak í þeim málum en samkomulag hefur orðið um á undanförnum árum. En séu rifjuð hér upp nokkur helztu atriði varðandi þetta mál, þá hygg ég, að flestir verði á einu máli um, að það er réttmætt að ráðast í þessi togarakaup, sem hér er nú rætt um, og að reynslan hefur þegar sýnt okkur það, að framkvæmdir í þessum efnum eru þær notadrýgstu, sem við getum gert til atvinnuuppbyggingar, atvinnujöfnunar í landinu og til almennrar framleiðsluaukningar.

Reynsla undanfarandi ára hefur sýnt það, að togararekstur, t. d, víða úti um land, hefur betur en allur annar rekstur getað tryggt það, að þar væri hægt að halda uppí nokkuð jafnri atvinnu og bægja frá þessu árstímabundna atvinnuleysi, sem mjög hefur verið rætt um. Togararnir hafa þá aðstöðu, að þeir geta sótt til fiskimiða, sem eru langt í burtu, og flutt aflann langar leiðir heim, og af þeim ástæðum er líka mögulegt að koma aflanum til þeirra staða, sem ekki hafa svo örugg fiskimið í grennd hjá sér, að hægt sé þar að halda út með sæmilegum árangri verulegum fiskiskipaflota allt árið. Reynslan hefur líka sýnt okkur það, að togararnir eru langsamlega afkastamestu tækin, sem við höfum kynnzt í sambandi við fiskveiðar okkar.

Það sýnir sig, að meðalafli á togara er í kringum það að vera 5000 smálestir á ári, en algengasta skipshöfn á togara er um 30 menn, Ef aftur við berum okkur saman við fiskibáta okkar, er einna algengast að miða þar við 11 manna skipshöfn, og varla er óhætt að reikna þar með að meðaltali meira en 500 tonna afla á bát, þó að allt árið sé lagt undir, ef miðað er við þorskúthald. Það kemur því í ljós, að meðalafli á togara er mjög nærri því að vera tífaldur á við það, sem er á algengustu stærð fiskibáta okkar — eða á bátaflotanum, þar þurfum við að hafa um það bil 110 menn, þar sem við erum með rétt rúmlega 30 menn á togurum. Að vísu er rétt að geta þess, að ekki má taka þessar tölur fyllilega til samanburðar, þannig að þær eigi að segja til um, að þetta sé hinn raunverulegi munur á gæðum togara og báta. Togararekstrinum er þannig háttað, að það verða í rauninni að koma nokkru fleiri menn þar til greina, sem ekki eru taldir í þessum þrjátíu mönnum og vinna á ýmsan hátt að veiðarfærum og öðru slíku togarann varðandi í landi, en aftur varðandi þessa skipshöfn, þar sem miðað er við 11 menn, má segja, að öll þessi vinna sé talin. — Einnig er það, að ársrekstur togarans er alltaf nokkru jafnari yfir allt árið. Það má segja, að þar komi fleiri starfsdagar til en algengast er með bátaflotann, en eigi að síður sýna þessar tölur það, og reynslan hefur sannað okkur það, að togarar okkar eru afkastamestu atvinnutækin, sem við eigum yfir að ráða, og af þeim ástæðum hljótum við líka að leggja allverulega mikla áherzlu á það að halda togaraflota okkar vel við.

Þegar rætt er um það að fjölga togurunum, heyrist æði oft á það minnzt, hvort veruleg fjölgun togaranna kunni ekki að vera hættuleg, með tilliti til þess, að við erum jafnframt að reyna að vernda fiskstofnana hér í kringum land, vernda fiskimið okkar, og þá m. a. að vernda þau fyrir ásókn hinna stórtækustu veiðarfæra, sem einmitt togararnir beita. En þessu er í rauninni ekki svona farið, eins og þeir halda, sem reikna með því, að við ættum heldur að forðast vöxt togaraflotans einmitt með tilliti til þess að vernda okkar fiskislóðir hér í kringum landið. Rekstur togaranna hefur meir og meir verið að færast í það horf á undanförnum árum, að togararnir eru að sáralitlu leyti gerðir út á okkar gömlu fiskislóðir hér næst landinu.

Ég hygg, að það muni láta nærri því, að á milli 80 og 90% af afla togaranna nú um undanfarin ár hafi verið tekin fyrir utan hinar venjulegu gömlu fiskislóðir okkar hér við landið. Togararnir eru komnir út á djúpmiðin og þar sumpart alveg út fyrir okkar landgrunn. Þeir sækja orðið mikinn afla á Grænlandsmið, beggja vegna Grænlands, þeir sækja mikinn afla í djúpin langt norður af Íslandi. Þeir sækja orðið talsverðan afla og gætu þó sótt hann miklu meiri en þeir hafa gert á hin fjarlægu mið í norðaustur við Bjarnarey og Hvítahaf, en þangað hafa íslenzkir togarar leitað nokkrum sinnum. Nálega allur sá karfaafli, sem togararnir draga að landi og orðinn er æði mikill, er sóttur ýmist á fjarlæg mið eða á slík djúpmið, að önnur fiskiskip, sem Íslendingar hafa haft af að segja, koma þar ekki til greina, — sem sagt, að þó að við aukum okkar togaraflota, er ekki hætta á því, að við göngum miklu nær okkar almennu fiskislóðum, sem við almennt erum að reyna að vernda hér uppi við ströndina, heldur en verið hefur fram til þessa.

Önnur er sú spurning, sem oft kemur fram hér, þegar rætt er um fjölgun togaranna. Um það er spurt, hvort líkur séu á því, að okkur takist að fá nægilega marga menn til þess að vinna á þessum skipum, þar sem það hafi sýnt sig nú á undanförnum árum, að nógu hefur gengið erfiðlega að fá sjómenn á þau skip, sem við höfum átt. Það er mín skoðun, að ekki komi til mála að viðurkenna þau sjónarmið, sem raunverulega koma fram í þessum spurningum, því að ef við létum undan því, að það kann að bera á því á stundum, eftir því hvernig til tekst með okkar atvinnumál almennt, að sjómenn skortir á fiskiflota okkar, og við ættum síðan að haga stærð skipastóls okkar eftir því, hvað auðvelt er að fá af sjómönnum á flotann, þá mundi, eins og verið hefur a. m. k. að undanförnu, sú verða afleiðingin, að við tækjum upp á því að fækka skipum okkar til þess að hafa aðeins mátulega mörg eftir fyrir þá menn, sem fást greiðlega til þess að vinna á skipunum.

Það ætti að vera auðvelt fyrir okkur að reyna að haga atvinnumálum okkar þannig, að vinnuaflið hljóti eðlilega að leita að aðalatvinnuvegum okkar, að útveginum, og við megum ekki hlaupa frá þeim vanda á þann einfalda hátt að skera sí og æ niður skipaflotann, fækka skipunum, þó að vinnuaflið kunni af ýmsum óeðlilegum ástæðum að leita á aðra staði. Ég er líka trúaður á það, að hægt sé að tryggja nægilega marga sjómenn, ef rétt er að farið, og það sé sá vandi, sem við verðum að standa frammi fyrir að leysa.

Þá er spurt um: Er rétt að fara í svona mikil kaup í einu, — að kaupa 15 togara t. d. að þessu sinni í einu? Væri ekki réttara að fara heldur hægar í þetta, af því að oft vilja fylgja því ýmsir örðugleikar að gera kaupin svona mikil í einu? Vissulega er það rétt, að það væri á margan hátt æskilegra að geta aukið togaraflotann og bátaflotann jöfnum höndum frá ári til árs. En þegar aftur er á það litið, að við höfum ekki endurnýjað togaraflota okkar nándar nærri eins og þörf hefur verið á á undanförnum árum, er hér raunverulega ekki um stórt stökk að ræða. Ég hef reiknað út, hvað við hefðum raunverulega þurft að bæta við okkur mörgum skipum nú að undanförnu, til þess að eðlilegt viðhald hefði verið á togaraflota okkar, þeim togaraflota, sem við eignuðumst nú eftir stríðið, en eins og kunnugt er, keyptum við strax í stríðslokin 33 nýja togara og síðan keyptum við nokkru síðar 10 nýja togara. Þannig eignuðumst við ný skip, 43 talsins, en af þeim hafa nú tvö farizt og er því aðeins 41 nýtt skip eða nýlegt skip í flotanum.

Sé miðað við það, sem ég hygg að sé mjög eðlilegt að reikna með, að hvert skip ætti ekki að verða öllu eldra en 20 ára, — en þegar togari er orðinn 20 ára gamall, þá er hann yfirleitt orðinn það úreltur, að það er ekki orðið hagstætt að halda honum úti, — sé miðað við þann tíma til endurnýjunar, þá hefðum við nú þurft að kaupa 20 ný skip, aðeins til þess að halda flotanum eðlilega við. Þó að við festum því nú kaup á 15 nýjum skipum, er það ekki það sem samsvarar því, að flotinn hefði verið aukinn jafnt og þétt á eðlilegan hátt og þessum 43 skipum, sem við eignuðumst þarna á tímabili, hefði eðlilega verið haldið við. Hér er því í sjálfu sér ekki um stórt stökk að ræða, og við verðum því að haga kaupunum í nokkru stærri stíl en annars hefði verið, ef endurnýjunin hefði farið jafnt og þétt fram.

Þá er líka þess að geta, að það er alveg víst, að engin leið er að eignast nú 15 skip á skemmri tíma en svona þremur árum, og ég býst við því, að þótt samningar yrðu gerðir um kaup á nýjum skipum nú, þá mundu fyrstu skipin varla koma fyrr en eftir tvö ár. Það hefur nú gengið þannig til, að þær þjóðir, sem mest hafa átt af togurum, hafa verið að endurnýja togaraflota sinn alveg stórkostlega að undanförnu, og ég hygg t. d., að flestallar skipasmíðastöðvarnar í Bretlandi, en þar hefur verið smíðað einna mest af togurum, séu gersamlega uppteknar alveg fram til 1960, Þar er aðeins um líklega eina eða tvær skipasmíðastöðvar að ræða, sem gætu komið til greina með að fást til þess að afhenda skip fyrir þann tíma.

Nokkuð svipað er ástandið í Vestur-Þýzkalandi, en það er annað mesta togarabyggingarlandið, sem við höfum af að segja, að þar eru flestar skipasmiðastöðvarnar uppteknar langt fram í tímann, og það er þegar orðið þannig, að það verður ábyggilega erfiðleikum bundið fyrir okkur að komast að hjá góðum skipasmíðastöðvum.

Og í öðrum löndum, sem hér koma til greina með að byggja þessi skip fyrir okkur, eins og Belgíu, sem hefur byggt nokkuð af togurum, einkum og sérstaklega þó minni togurum, þar mun einnig vera heldur erfitt með að fá góða samninga. En fjórða landið kemur svo einnig til greina, sem er Austur-Þýskaland, sem byggt hefur talsvert af togurum, en mér er ekki eins vel kunnugt um það enn þá, hvaða möguleikar eru þar fyrir hendi.

Það mætti því segja mér það, að þó að góður vilji væri á, mundi það kosta þó nokkurn tíma að fá þessa togara afhenta, og að það mundi þurfa að leita samninga í fleiri en einu landi, ef takast ætti með skaplegu móti að fá togarana afgreidda.

Þetta sýnir okkur það einnig, að við höfum dregizt óeðlilega aftur úr í sambandi við þetta stórvægilega atvinnumál okkar. Við erum orðnir of seinir, Við hefðum þurft að vera miklu fyrri til í þessum efnum, og úr því sem komið er, megum við ekki tapa miklum tíma.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því nýmæli, að heimilt sé að setja á fót togaraútgerð ríkisins. Um það útgerðarform hefur nokkuð verið rætt að undanförnu, og þá fyrst og fremst með það í huga, að á þann hátt vær í hægt að haga rekstri skipanna þannig, að þau mættu nýtast betur fyrir ýmsa staði úti á landi, sem örðugt eiga um vik með að gera skipin sjálfstætt út fyrir sig. Ég held, að í þessu efni sé stefnt í rétta átt. Ég er sannfærður um, að það þarf ekki að baga rekstur skipanna verulega, sé rétt á haldið, þó að þau landi afla sínum á ýmsum höfnum. Rétt er það, að gæta verður þar allrar varúðar, því að það mun verða mjög erfitt að binda þessi ríkisreknu skip einvörðungu við þær hafnir, sem eru lakast útbúnar, afskekktastar og erfiðast er með að koma öllum aflanum til vinnslu á úr hverri ferð. En séu þær teknar með hinum betri höfnum og skipunum nokkuð dreift í þessu efni, en slíkt er langhelzt hægt að gera í sambandi við heildarrekstur á skipunum, eins og ríkisútgerð, þá er ég sannfærður um það, að leysa má atvinnuvandamál margra staða, sem ekki hefur tekizt að leysa atvinnumálin hjá fram til þessa, einmitt með þessu nýja útgerðarformi. Það er skoðun mín, að kaup á þessum 15 togurum, sem hér er gert ráð fyrir, séu stórt spor í rétta átt til atvinnuuppbyggingar úti á landi, og þá ekki síður til almennrar framleiðsluaukningar fyrir þjóðina.

Ég vona því, að sú nefnd, sem þetta mál fær til fyrirgreiðslu, greiði götu þess eins og tök eru á, og veit það, að ríkisstj. gerir sitt bezta í því að reyna að koma sem allra fyrst á samningum í þessu efni, svo að togararnir geti komizt sem allra fyrst í notkun landsmanna.