22.11.1956
Neðri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

11. mál, skipakaup

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Eyf. hefur nú þegar flutt hér skriflega brtt., sem gengur í sömu átt og till. sú, sem ég hafði boðað við síðustu umr., að ég mundi flytja við þessa umr., ef n. sæi sér ekki fært að taka upp svipað efni í þær brtt., sem hún kynni að gera við frv. Ég sé því enga ástæðu til þess að flytja mína till. nú, þar sem þessi till. er þegar fram komin. Raunar tel ég, að vegna ummæla hæstv. forsrh. við 2. umr. sé hún ekki eins nauðsynleg og áður, en eins og hv. 2. þm. Eyf. tók fram, væri það til bóta, ef hún fengist samþykkt.

Vegna ummæla hv. þm. V-Ísf. (EirÞ) vil ég segja það, að ég get vel skilið, að hann sé sár við nágranna sína, sem hefur gengið betur að reka togara en honum gekk sjálfum, og er ég þó á engan hátt að gera lítið úr þeim erfiðleikum, sem við, eins og aðrir togaraeigendur, nú eigum við að stríða um rekstur skipanna.

En viðvíkjandi flutningi fisks milli staða, þá vil ég endurtaka, að það hefur gefizt vel og mun betur en menn höfðu búizt við, áður en það var reynt. Flutningskostnaðurinn hefur orðið mun minni en við var búizt. T. d. get ég upplýst í þessu sambandi, að mér er kunnugt um, að við losun fisks úr skipi, sem þá gat vegna hafnarskilyrða landað í Hnífsdal, en landaði á Ísafirði vegna þess, að meiri hluti fisksins átti að fara þar á land, þá kom í ljós, að það var ódýrara að landa fiskinum á Ísafirði en verið hefði í Hnífsdal. Það var ódýrara fyrir Hnífsdælinga að landa honum á Ísafirði en það hefði verið fyrir þá að landa honum í Hnífsdal, vegna þess að löndunarskilyrði voru betri á Ísafirði. Það voru betri löndunartæki, mikilvirkari og fljótvirkari. Þar var bílavog til að vigta bílana jafnóðum og þeir óku af stað o. s. frv. Þetta kemur líka berlega í ljós í skýrslu jafnvægisnefndar, að þó að hafnarskilyrði væru fengin, eru skilyrði á smástöðunum úti um landið víða svo léleg, að það má heita ógerningur að taka við togaraförmum eða hluta úr togaraförmum þar þess vegna. — Á þetta vildi ég fyrst og fremst benda. Ég vil enn fremur benda á, að togarar eru dýrir í rekstri og ekki hentugir til þeirra nota að flytja smáslatta, kannske tvo, þrjá bílfarma, milli hafna, hvað sem þm. V-Ísf. segir. Hann ætti þó að vita nokkuð um kostnað við togaraútgerð af eigin raun. Hinu hef ég aldrei haldið fram, að það ætti að keppa fyrst og fremst að því að flytja fiskinn um fjallvegi, sem væru ófærir mikinn hluta árs, En ég hef þó nokkra reynslu af því, að slíkir flutningar, jafnvel yfir fjallveginn milli Ísafjarðar og Súgandafjarðar, geta átt fullan rétt á sér og gefizt vel, og hafa gert það þegar svo hefur staðið á, að vegurinn hefur verið góður og hentugir bílar notaðir til flutninganna, Og ég er viss um, að það kemur í ljós, ef vegarsambandið er bætt nægilega, eða eins vel og kostur er á, að þá verður það ómetanleg lyftistöng fyrir þau byggðarlög, sem þess njóta. Og það getur gert mögulega flutninga, sem mönnum að óreyndu þykir ólíklegt að borgi sig.

Ég veit líka, og hv. þm. V-Ísf. ætti að vita það, að mjólkin úr kjördæmi hans er flutt yfir fjöllin til Ísafjarðar, og kostnaður við það er mun minni en að flytja hana á sjó, og þó er það gert með ódýrara skipi en togarar eru. Og auk þess hefur það skip verulegan rekstrarstyrk úr ríkissjóði.