27.11.1956
Efri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

11. mál, skipakaup

Jóhann Jósefsson:

Mér hefur skilizt, herra forseti, að höfuðtilgangurinn með þessu frv. væri sú að afla þessara togara, ekki beinlínis með það fyrst og fremst fyrir augum, að eigendur þeirra, hvað sem þeir kunna nú að koma til að heita, auðgist svo sérstaklega á útgerð skipanna, heldur sé hugmyndin sú, út af þeirri reynslu, sem fengizt hefur á því, hvað atvinnulíf og þá sérstaklega vinnsla á sjávarafurðum hefur aukizt og blómgazt við það, að hraðfrystihús hafa verið byggð og aðgangur hefur verið að því opnaður, að þessi iðjuver fengju hráefni til að vinna úr, og að menn horfi með kviða til þeirra daga, sem kynnu að koma, ef ekki væru sérstakar ráðstafanir gerðar, ef iðjuverin, og ég á þar aðallega við hraðfrystihús og fiskimjölsverksmiðjur og raunar líka söltunarstöðvar og verkunarstöðvar yfir höfuð, skortir hráefni, að þá vitaskuld leggst atvinnan eins lengi niður á þeim stað sem byggist á sjávaraflanum, eins og þetta hráefni skortir. Ég hélt, að viðurkenningin á þessu mundi vera driffjöðrin fyrir því, og vil meina, að hún sé driffjöðrin fyrir því, að í svona stórfellda ráðstöfun er farið af sjálfu ríkisvaldinu.

En við hvað hefur þessi skoðun skapazt, og hvað er það, sem gerzt hefur til þess að undirbyggja hana? Það er það, sem hæstv. forsrh. og hans flokksbræður eru að reyna í lengstu lög að forðast að viðurkenna. Það er reynslan, sem fengizt hefur síðan á tíð nýsköpunarstjórnarinnar, að farið var að dreifa þessum sérstöku atvinnutækjum meira út um landið en gert hafði verið áður. Það eru eiginlega einkennilega skapi farnir menn, sem hafa árum saman barizt á móti sjálfsagðri, skynsamlegri atvinnuráðstöfun, hafa síðan vegna reynslunnar orðið að viðurkenna, að þessi ráðstöfun var rétt, og vilja nú hafa forustu í því að auka aðgerðir í þessu efni, — það eru einkennilega skapi farnir þeir menn í þessum hóp, ja, hv. framsóknarmenn, sem vilja, um leið og þetta er gert og um leið og það er viðurkennt, að þetta sé rétt stefna af þeim, sem verið hafa í þessu áður, gera sem allra minnst og jafnvel minna en nokkur rök standa til úr því, sem aðrir menn kunna að hafa gert á þessu sviði á undanförnum árum. En það er það, sem liggur undir öllu skrafi hæstv. forsrh. um þessi mál, þegar hann er að tala um það, að nýsköpunartogararnir hafi verið byggðir. Ja, þá voru þeir að vísu byggðir, en það er mál manna, að þeir hefðu átt að vera öðruvísi, og þeir áttu ekki að vera byggðir fyrir ríkisfé eða ríkið að hafa forgönguna, heldur áttu einstaklingarnir að hafa forgönguna.

Það er nú svo. Ég geri ekki ráð fyrir, að á þeim tímum, sem það var gert, að keyptir voru 32 togarar til landsins af hálfu nýsköpunarstjórnarinnar eða undir hennar stjórn, þá hafi hæstv. forsrh. eiginlega haft mikil heilabrot með sjálfum sér um það, hvernig ætti að endurnýja togaraflota, bátaflota eða flota landsins yfir höfuð. Hann mun hafa haft öðrum hnöppum að hneppa þar, eins og oft kemur fyrir. En þegar nú reynslan er búin að sýna þessum mönnum, að sú braut, sem farið var inn á, var, þrátt fyrir það þó að hægt sé að benda á ýmsa galla á framkvæmdum frá þeim tíma, að þetta var í rauninni mergurinn málsins að byrja á því að láta landsbyggðina fá atvinnutæki, dreifa þeim á fleiri staði en var. Þá er um að gera að færa að þessu einhver önnur rök, þó að allir viti, að þeir framsóknarmenn hafi ekki getað staðið við sína dauðastefnu lengur í þessum málum og reyndar hröktust af henni strax á árunum 1947 og 1948 með því að vera með í því að kaupa þá 10 togara, sem þá voru keyptir, jafnvel þó að þeir væru tvöfalt dýrari en nýsköpunartogararnir voru á sínum tíma og jafnvel þó að það væri sýnt, að með því voru þeir — framsóknarmenn — að ganga ofan í sín eigin orð og ályktanir. Nú að fenginni þessari niðurstöðu, sem ég býst ekki við að neinir af hæstv. stjórnarflokkum vilji neita, sem sé því, að þetta er gert til þess að tryggja atvinnu fólksins á hinum ýmsu stöðum, sem togararnir fara til, er farið að halda því fram, að nýsköpunarstjórnin á sínum tíma, þegar hún lét úthluta til Akraness, til Keflavíkur, til Vestmannaeyjatogurum, hafi ekki verið að láta þá fara út á land. Nei, það á að skiljast undir sama merki og þeir hefðu verið einungis í Rvík eftir skilningi hæstv. forsrh. En ég vil spyrja þessa hv. atvinnufrömuði, sem nú eru eða vilja vera: Halda þeir, að hraðfrystihúsin á Akranesi mundu fá fisk af skipum, sem landa í Rvik? Eða halda þeir, að hraðfrystihúsin í Keflavík geti fengið fisk, sem landað er í Rvík o. s. frv.? Ég tala nú ekki um Vestmannaeyjar í þessu sambandi. Þetta er aðeins gert nú til þess að gera sem minnst úr því, sem þeir gerðu á sínum tíma, sem betur sáu og betur vildu en hæstv. forsrh. og hans fylgifiskar, þá er nú verið að hamra á því: Ja, það, sem fór til Faxaflóa, það er sama og Rvík. — En það er falskenning, ekki sízt út frá því sjónarmiði, að skipin veiti atvinnu með því að skapa hráefni á þeim stað, þar sem þau skipa fiskinum upp, falskenning, og ekkert annað en sami sónninn sem kveðið hefur við frá þessum mönnum í fleiri ár og allt frá því að nýsköpunarstjórnin fór að starfa og ávextir sáust af hennar starfi.

Áður en það kom til, lá hið þunga nið og rógur á öllum þessum störfum af hálfu hæstv. forsrh. og öllum hans fylgifiskum.

Hann var að tala hér áðan, hæstv, ráðh., um endurtekningu ósannindanna, þetta einkennilega fyrirbæri, sem hann var búinn að finna út úr spýtusögunni: Fyrst var spýta, svo var spýta, og svo var spýta í kross, — að það væri einkennilegt, að það væri sýnilegt, að þeir, sem héldu þessu á lofti, tryðu á þann árangur, sem hefðist af því að margendurtaka ósannindi. Ja, skyldi maður nú vita, að honum, hæstv. forsrh., væri það kunnugt? Skyldi maður nú kannast við, að Framsóknarforingjunum væri þetta ekki algerlega ný uppgötvun? Það er einmitt það, sem tíðkast og lýsir sér bezt af hálfu þessara hv. stjórnmálamanna í garð nýsköpunarstjórnarinnar og þess, sem gerðist á stjórnarárum hennar. Og hæstv. ráðh. klykkti út sína ræðu núna með því að endurtaka í þúsundasta og fyrsta skipti ósannindin um það, að nýsköpunarstjórniu og framkvæmdastjórar hennar, við skulum segja nýbyggingarráð, hafi alveg vanrækt landbúnaðinn á þeim tíma, Þetta eru helber rakalaus ósannindi, sem gerðabækur nýbyggingarráðs bera ljósastan vottinn um að eru ósannindi, hvort sem það er hæstv. forsrh. eða nokkur annar, sem heldur þessu fram.

Á þeim tímum, er þetta fór fram, var sannarlega haft það sjónarmið að vera landbúnaðinum til gagns, þó að hæstv. ráðh. og hans fylgifiskar hafi algerlega vanþakkað allt, sem gert var fyrir landbúnaðinn á þeim tíma, og snúið sannleikanum við. Það var fyrsta verk nýbyggingarráðs — um það bera fundarbækur vitni — að snúa sér að landbúnaðarmálum, enda sat svo virðulegur fulltrúi frá Framsóknarflokknum, Steingr. Steinþórsson, í nýbyggingarráði á þeim tíma, að það var ekki, að ég ætla, völ á betri manni. (Gripið fram í.) Nei, alls ekki nærri búinn, herra forseti. Ég hef nóg ræðuefni við svona ásökunum eins og komu frá hæstv. ráðh. og er tilbúinn að halda áfram, hvað lengi sem vera skal. (Forseti: Ég held, að ég verði þá að biðja hv. þm. að fresta ræðu sinni.) Með ánægju, herra forseti. Ég get líka notað tímann til að afla mér upplýsinga til áframhalds á þessari ræðu, en þessum ósannindum skal verða hnekkt með rökum. (Forseti: Það er kominn sá tími, sem venjulega er hætt fundi.) Það er sjálfsagt. Ég skal fresta minni ræðu. [Frh.]