04.12.1956
Efri deild: 23. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

11. mál, skipakaup

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Eins og ég gat um við fyrri umr. þessa máls, er ég samþykkur því, að ráðstafanir séu gerðar af hálfu þess opinbera til þess að halda við endurnýjun á togaraflota landsmanna, og er ég þeirrar skoðunar enn, eins og fram hefur komið í nefndinni.

Síðan þetta frv. var undirbúið hjá hæstv. ríkisstj. og lagt fram hér í þinginu, hefur nú, að ég held, einn af nýsköpunartogurunum tapazt, sem sýnir það bert, að viðhaldi og endurnýjun á þessum fiskiflota landsmanna er nauðsynlegt að halda í horfi, og virðast allir vera sammála um það atriði. Hitt er svo annað mál, að þegar svona stórfelld ráðstöfun er gerð eins og sú, sem frv. fer fram á, að hið opinbera leggi í það að láta byggja 15 togara og kostnaðurinn heimilaður upp í 150 millj. kr., þá virðist það vera sanngjarnast að miða framtak í þessu efni við þarfir allra landsmanna, eftir því sem þær kunna að vera á hverjum tíma, en taka ekki út sérstaka landshluta umfram aðra, því að það er ljóst, að kostnað af þessum framkvæmdum verður öll þjóðin, í hvaða landshluta sem hún býr, að bera. Er þá lítið frjálslyndi í því fólgið að binda fyrir fram einhvern hluta af þessum skipum í lögum við vissa landshluta, einkum og sérstaklega úr því að ríkisstj. hefur sett á stofn sérstaka n. til þess að meta atvinnuþörfina og, ef ég mætti svo að orði kveða, atvinnuhjálparþörfina á hverjum tíma. Það ákvæði út af fyrir sig virðist mér vera nægilegt til að tryggja það, að t. d. Vestur-, Norður- og Austurlandið eða staðir á Vestur-, Norður- og Austurlandi fái þá hjálp til atvinnubóta af þessum aðgerðum, sem hverju sinni reynist nauðsynleg, þar sem tryggt er í frv., að hinn stjórnskipaði aðili, atvinnutækjanefndin, sem hún er kölluð, eigi að láta uppi álit sitt um þetta á hverjum tíma. Fyrir því hef ég leyft mér að flytja fram brtt., sem skráð er á þskj. 112 og er að vísu samhljóða brtt., sem flutt var af hv. þm. Borgf. í hv. Nd., og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni er, að fengnum tillögum atvinnutækjanefndar, heimilt að setja á stofn sérstaka ríkisútgerð togara í því skyni, að lagður verði á land afli þeirra í þeim bæjum eða kauptúnum, þar sem ekki eru fyrir hendi fjárhagslegir möguleikar til þess að kaupa og reka togara, enda sé skortur á nægri atvinnu á staðnum og atvinnuleysi hamli eðlilegum vexti hans.“

Þetta hefur verið í frv. frá byrjun, að því er snertir afskipti atvinnutækjanefndar, og þess vegna virðist það vera óþarft að útiloka nokkurn sérstakan landshluta í sjálfu orðalagi frv., eða ef ekki má kveða svo sterkt að orði, að Suðurlandið sé útilokað í þessu efni, þá a, m. k. er það sett á annan og lægri bekk en aðrir landshlutar og þar með í raun og veru gripið fram í fyrir þeirri hv. n., sem vitnað er til í sjálfu frv. frá ríkisstjórnarinnar hendi, atvinnutækjanefndinni.

Nú er að vísu í 1. gr. frv. komizt svo að orði, að ríkisstj. sé heimilt að selja þessa togara við kostnaðarverði eða ráðstafa til útgerðar. Þó er það að fengnum tillögum atvinnutækjanefndar, sem skipuð var, eins og þar segir, með bréfi ríkisstjórnarinnar frá 5. sept. 1956.

Ég lýsti orðalagi brtt. minnar á þskj. 112, en þó í aðeins öðrum lið hennar, en fyrri liðurinn er um það, að ríkissjóði sé þrátt fyrir ákvæði 2. gr. heimilt að endurlána a1lt að 90% af verði hvers skips, sem keypt er til bæjar eða kauptúns, þar sem brýn þörf er í að auka atvinnu á staðnum.

Það er fyrir mínum augum, eins og ég geri ráð fyrir að það hafi verið fyrir augum þess hv. þm., er flutti brtt. í Nd., þungamiðja málsins, þörfin á að auka atvinnu á staðnum.

Mér finnst, þó að nú horfi þannig við, að þörfin kunni að vera meiri á vissum stöðum norðan- eða austan- eða vestanlands en sunnanlands, þá sé rétt að gera ráð fyrir því í þessari lagasetningu, að hægt sé að haga sér eftir breyttum skilyrðum. Og með þeirri byggingu á hraðfrystihúsum, sem átt hefur sér stað sunnanlands hin síðari árin, getur vel farið svo, að eftir fá ár, og þarf kannske ekki að bíða svo langs tíma, — ég vildi, að það yrði sem lengstur tími, sem liði, – en eftir fá ár getur vel farið svo, að þörfin í þessu efni til hráefnisöflunar og til að auka atvinnu á stöðum geri vart við sig sunnanlands, alveg eins og hún gerir vart við sig eða hefur gert vart við sig norðan-, austan- og vestanlands fram að þessu, fyrir því sé rétt að hafa þetta opið í frv. og leggja ekki neinar sérstakar hömlur á sérstaka landshluta í sjálfu frv., þegar frv. býr til þann a. m. k. ráðgefandi aðila, atvinnutækjanefndina, sem á að útbúa tillögur og álit um þetta efni á hverjum tíma og ríkisstj. að fara eftir því. Hitt gefur auga leið, hvaða blær er viðkunnanlegastur á svona stórmáli, að stjaka ekki við atvinnu sérstakra íbúa landsins þegar í upphafi með orðalagi frv. Það er óviðkunnanlegur blær á því, og ég vil nema hann í burtu með því að nefna enga landshluta sérstaklega í frv., en láta óbreytta standa þá höfuðtillögu, sem er, að atvinnutækjanefndin geri tillögur um niðurröðun þessara togara á hverjum tíma, eftir því sem atvinnuviðhorfið er í hvert sinn á þeim stöðum.

Ég ætla ekki, að ég þurfi að hafa um þessa brtt. fleiri orð. Ég er fylgjandi líka þeim brtt., sem hv. þm. N-Ísf. er fyrri flm. að, og álit þær réttar og sanngjarnar. Það er augljóst mál, að úr því að ríkið vill skipta sér af þessari endurnýjun togaraflotans nú, þá er ekki of stórt spor stigið, þó að ákveðið sé, að byggðir séu 20 togarar í stað 15, með því líka að þá er hægt að verða við kröfum um atvinnubætur víðar á landinu með fleiri skipum heldur en færri. Bæði hvað snertir smærri fiskiskipin og stærri fiskiskipin í þessu landi, þá er það gömul reynsla, sem ávallt hefur staðfests, að það þarf stöðugt viðhald, þau þurfa að fá stöðugt nýbyggingar til viðbótar, helzt kannske sem jafnast árlega, en úr því að því hefur ekki verið við komið, þá a. m. k. það myndarlega, þegar það er gert, að endurnýjunin sé varanleg til frambúðar. Ef ekki er unnið að þessu, þá fer það svo, eins og komið var hér fyrir nokkrum árum, að fiskiskipaeign landsmanna gengur úr sér og hrakar, og þarf risaátök til þess að kippa henni aftur í horf.

Ég vil svo mælast til þess, að hv. d. sýni það frjálslyndi í meðferð þessa máls, að hún samþ. brtt. þær, sem fram hafa verið lagðar, — og þá legg ég einkum áherzlu á brtt. mína á þskj. 712, — og geri ekki neinar ákvarðanir í þessu efni, sem þannig hljóta að líta út fyrir þjóðinni, að það sé verið á kostnað alþjóðar að draga fram hlut einstakra landshluta, en setja hlut annarra landshluta til hliðar.

Ég hygg, að það sé strax farið að sýna sig, og á kannske eftir að gera það miklu betur, að togarafloti landsmanna, nú þegar löndunarbannið í Englandi er afnumið, sækir meira í það að selja afla sinn á útlendum markaði en áður var. Það bar mikið á því á síðasta ári og raunar þessu ári, fram að lokum síðasta sumars, að togaraflotinn lagði upp afla sinn til hraðfrystistöðvanna víðs vegar um land, einkum þó sunnanlands, og enda norðanlands líka, sérstaklega af þeim ástæðum, að þessum afla varð ekki komið í lóg á annan hátt. Og fyrir því var atvinna blómleg og mikil hér syðra við Faxaflóa og viðar. En þetta getur skyndilega breytzt og orðið atvinnuleysi á þeim stöðum, sem nutu þessa fisks frá togurunum, meðan útlendu hafnirnar voru lokaðar. Þetta getur skyndilega breytzt þann veg, að það verði einmitt knýjandi þörf á því að gera ráðstafanir til þess að beina togaraafla á staði hér sunnanlands, sem hafa fengið hann með gnægtum fram að þessu. Þetta hlýtur líka að undirbyggja þá skoðun, að með þessari sérstöku löggjöf sé rétt að halda opnum möguleikunum til þess að hjálpa öllum landshlutum jafnt í þessu efni samkv. þeim tillögum, sem atvinnutækjanefndin leggur fram, eins og í frv. er skráð.

Það renna því miklu fleiri en ein rök undir það að samþykkja brtt. á þskj. 112 heldur en þau meginrök, sem ég hef minnzt á, sem sýna, að það er rangt gagnvart þjóðarheildinni í svona máli að fyrirbyggja eða torvelda fyrir fram atvinnuaukningu á einum stað, þó að það sé gert til þess að draga fram annarra landshluta málstað í þessu efni.

Það er full trygging fyrir því í öðru orðalagi frv., sem komið er að í fleiri greinum þess, að það á að vera eftir mati atvinnutækjanefndar í hvert sinn, hvert þessum togurum verður ráðstafað, og þess vegna að mínum dómi ósmekklegt, ef ekki ætti að kveða sterkar að orði, að draga fram hlut þriggja landshluta, en setja einn landshlutann á lægri skör.