17.12.1956
Efri deild: 31. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

86. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónason):

Herra forseti. Það má nú öllum ljóst vera, að hv. Alþingi lýkur ekki setningu fjárlaga fyrir áramót. Á hinn bóginn er ómögulegt að komast af án þess að hafa heimild til að greiða venjuleg rekstrargjöld, þótt fjárlög séu ekki sett. Þess vegna hefur þetta frv. verið samið og er nú lagt fyrir hv. Alþingi. Það er nákvæmlega sama efnis og þau frv., sem áður hafa hér verið lögð fram, þegar eins hefur staðið á og nú um afgreiðslu fjárlaga. Vænti ég, að hv. d. fallist á að afgreiða frv.

Ég sé ekki ástæðu til að gera uppástungu um að vísa málinu til nefndar, þar sem hér er um svo einfalt mál að ræða, og raunar mun ekki hafa verið venja að vísa hliðstæðum málum til nefndar áður. Þó geri ég þetta að sjálfsögðu ekki að neinu kappsmáli, og ef einhver stingur upp á því að vísa frv. til hv. fjhn., mun ég ekki hafa á móti því.