19.12.1956
Efri deild: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

86. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Vegna þess að ég var fjarverandi, átti ég þess ekki kost að vinna að þessu máli í nefnd. En ég fyrir mitt leyti hef ekkert við það að athuga, eins og sakir standa, að fallast á að gefa hæstv. ríkisstj. þá heimild, sem í frv. er um talað. Hún er nauðsyn eins og nú horfir, og er langt frá því, að það sé fordæmalaust, að ríkisstj. hafi fengið heimild fram yfir áramót til þess að halda uppi nauðsynlegum greiðslum, þó að ekki væri búið að afgr. fjárlög.

Mér hefur á hinn bóginn virzt, að eins vel og raunar allir hv. þm, hafa verið sammála um það að gera það, sem unnt er, til þess að afgr. fjárlög fyrir áramót, þá hafi Framsfl. talið sig skara fram úr í því efni, og ég tel þá aðferð í fyrra, sem rann undan rótum hæstv. fjmrh., að hafa lögin um þennan svokallaða framleiðslusjóð, ef ég kann rétt með að fara, óháð afgreiðslu fjárl., óviðeigandi. Ég verð að segja, að ég taldi það og tel eiginlega ekki rétt og fyrir þjóðina, sem á að búa undir þessum lögum, talsvert villandi, þegar óháð sjálfum fjárlögum ríkisins er verið að lögleiða tekjur og gjöld í sérstökum frv., án þess að það sé tekið upp í fjárlög. Ég hef haldið, að það væri grundvallaratriði í öllum ríkisbúskapnum, að fjárl. sýndu hvers konar útgjöld og hvers konar tekjur, sem ríkið hefði, — að allt þetta mætti sjá í fjárlögum. Og þeim hætti var og haldið hér fram yfir þann tíma, að þingið varð að styðja atvinnuvegina með beinum styrkjum, eins og t. d. fiskútflutninginn, að framan af var það tekið upp í fjárlög, og dráttur á fjárlögum á þeim tíma stóð alltaf í sambandi við það, að það varð að finna út, hvað minnst hægt væri að komast af með að láta, og það varð að finna út tekjur til þess að standast þetta og ná samkomulagi um afgreiðslu fjárlaga á þeim grundvelli. Undir stjórn hv. Framsfl. er þetta mál búið að fá annan og að því er mér virðist ógeðfelldari svip, þar sem verið er, eins og byrjað var á í fyrra, að samþykkja sérstaklega utan við fjárlögin stórkostleg gjöld, útgjöld og skatta á landsfólkið og ráðstafanir á því fé án þess að fjárl. kæmu þar neitt til greina, enda sagði hv. frsm., hv. 1. þm. Eyf., að framleiðslusjóðurinn frá í fyrra hafi ekki snert fjárlögin. Þá er víst sama að segja um stórkostlegt frv., sem útbýtt var í d. hér í dag og er framleiðslusjóðurinn í nýrri, stækkaðri mynd, að hann snerti ekki fjárl. Ég get ímyndað mér, að hv. 1. þm. Eyf. muni, ef hann skoðar það þannig um þau útgjöld, sem lögð voru á þjóðina í fyrra varðandi framleiðslusjóðinn í sérstöku frv., að þá muni þau útgjöld, sem stendur til núna að leggja á og eru miklu meiri og margfaldari, ekki heldur koma fjárl. við. (Gripið fram í: Heldur það gagnstæða.) Nú, er það það gagnstæða, má ég taka leiðréttinguna, þó að hún sé úr forsetastól? Mér finnst þetta nú vera nokkuð skyld mál, en satt er það, að það er margt í þessu frv. núna, sem ekki var í því frv. í fyrra, sem varðar framleiðslusjóð. Nú, en ef það er það gagnstæða, að þetta mál sem þótt ekki sé það til umr., þá hefur verið á það minnzt og ekki verið átalið, — ef það er það gagnstæða og það komi fjárl. við, þá vil ég spyrja: Er þá ekki sjálfsagt, úr því að fjári. er frestað, er það þá ekki rétt að taka upp þetta mikla mál við afgreiðslu sjálfra fjárl.? Mér virtist, að þá væri sá rétti, en ekki rangi háttur, á hafður. Þá kæmu fjárl. miklu betur til þess að sýna þá réttu mynd af áætlun um þjóðarbúskapinn, sem hæstv. fjmrh. vill láta birta fyrir þjóðinni.

Með þessu framhaldi að afgr. fjárlög, náttúrlega með tilheyrandi útgjöldum og tekjum frá hinum ýmsu tekjustofnum, eins og hefur verið hér frá upphafi fjárlagaafgreiðslu, og afgreiða svo önnur lög, þótt ekki séu þau kölluð fjárlög, sem byggja tekjur sínar á hinum sömu stofnum, sem sagt tekjurnar byggðar á sköttum og tollum og álögum og ákvæði þar um, hvernig þeim skuli verja eða við skulum segja til alþjóðargagns, — ef sá háttur heldur áfram nú, þá má búast við, að það færist í það horf, að hér megi tala um að afgr. tvöföld fjárlög. Ja, þá er afgreiðsla sjálfra fjárl. atriði út af fyrir sig, og svo koma hin fjárlögin, ef ég má svo að orði kveða, á eftir, og þjóðin á miklu síður kost á því að átta sig á, hvað í rauninni er að gerast í þessum málum, með því, að því sé gefið sitt hvort nafnið.

Ég leyfi mér þess vegna í sambandi við þá frestun, sem hér er um rætt á afgreiðslu fjárl. og ég er ekki á móti, eftir atvikum, en ég vil bara minna á það, að þegar framsóknarmenn á undanförnum árum hafa verið að miklast af því, að þeir gætu afgreitt fjárlög í rétta tíð, þó að aðrir gætu það ekki, sýnir reynslan frá núverandi tíma og deginum í dag, að þetta getur komið fyrir á beztu bæjum, að fjármálastjórnin ráði ekki við það að ljúka afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót. Og ég vil þess vegna, eins og ég sagði, skjóta þeirri hugmynd hér fram, hvort ekki væri, úr því að fjárl. er frestað, sem sjálfsagt verður eins lengi og hæstv. fjmrh. óskar þess, rétt, þegar þar að kemur, að taka upp í fjárl. öll þau útgjöld, sem eru í hinu mikla frv., sem ekki er hér komið til umr. enn þá, og þær tekjur, sem þar er ætlazt til þess að ná af þjóðinni, að gera grein fyrir þeim hreinlega í hinum reglulegu fjárlögum ríkisins. Það verður sennilega tækifæri til þess að minnast á það síðar við afgreiðslu þessa máls, en ég vildi skjóta að þessari athugasemd hér í þetta sinn.