21.12.1956
Neðri deild: 42. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

6. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem er stjfrv. og hingað komið frá hv. Ed., felur í sér, að framlengd skuli árið 1957 öll þau ákvæði, sem nú gilda um innheimtu á vörumagnstolli og verðtolli, en þau ákvæði hafa verið tímabundin og eru það raunar enn með þessu frv., því að lagt er til, að það verði aðeins framlengt til ársloka 1957. Vörumagnstollur verður því innheimtur með 340% álagi og verðtollur með 80% álagi, eins og áður hefur verið gert, og undanþegnar tollhækkunum eru nokkrar vörur, sem tilgreindar eru í 2. gr., og enn fremur er í 3. gr. ákveðið, að heimilt sé að fella niður aðflutningsgjöld af sérstökum vökum. Þetta er allt óbreytt eins og áður hefur verið, en það er aðeins eitt smáatriði í þessu frv. nýtt, í niðurlagi 1. gr.

Í lögum nr. 68 frá 1956 er svo ákveðið, að 1% af aðflutningsgjöldum skuli lagt í sérstakan sjóð og notað í því skyni að byggja upp og bæta aðstöðu tollgæzlunnar í landinu. Í þessu frv. er lagt til, að þessum ákvæðum verði breytt á þann hátt, að aðflutningsgjaldið verði ekki skert una þetta 1%, heldur verði lagt á aukalega 1% í þessu skyni, 1% af innheimtum aðflutningsgjöldum til þess að tekjur ríkissjóðs skerðist ekki um þennan 1 hundraðshluta.

Nefndin, fjhn., er sammála um að mæla með frv. í öllum aðalatriðum, en tveir nm., þeir hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) og hv. 9. landsk, þm. (ÓB), eru andvígir þeirri breyt., því nýmæli, sem ég var nú að lýsa, um það, að framlagið til byggingar tollstöðva verði tekið með sérstöku gjaldi, heldur leggja þeir til, að það verði tekið eins og fyrr af sjálfum aðflutningsgjöldunum.