19.12.1956
Neðri deild: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í öllum umræðum um efnahagsmál, sem eiga að vera málefnalegar, verður að hafa þrjár meginstaðreyndir í huga: Í fyrsta lagi, að raunverulegar þjóðartekjur og þar með lífskjör almennings ákvarðist annars vegar af framleiðslu þjóðarinnar og hins vegar af verði útfluttrar vöru í samanburði við innflutta vöru. Í öðru lagi, að þjóðarframleiðslan ákvarðast af því, yfir hvaða framleiðslutækjum þjóðin hefur að ráða, hvernig þau eru nýtt og hvernig þjóðin kann með þau að fara. Og í þriðja lagi, að aukning framleiðslutækjanna getur aldrei orðið meiri en svarar sparnaði þjóðarinnar og erlendum lántökum.

Þessar staðreyndir verður alltaf að hafa í huga, þegar reyna á að dæma skynsamlega um ákveðnar efnahagsaðgerðir. Á efnahagsaðgerðir er hægt að beita og á að beita tvenns konar mælikvarða: Annars vegar þeim, hvort ráðstafanirnar auka þjóðartekjurnar og efla sparnaðinn. Um þessi atriði mundu nú flestir sammála. Og svo hins vegar, hver áhrif ráðstafanirnar hafa á skiptingu þjóðarteknanna. Á þetta atriði leggja allir vinstri sinnaðir menn einnig áherzlu.

Ef við dæmum þær ráðstafanir, sem hér er lagt til að gerðar verði, verðum við að beita á þær þessum tveim mælikvörðum og spyrja okkur sjálfa annars vegar: Miða ráðstafanirnar að því að auka þjóðartekjurnar og efla sparnaðinn? Og svo hins vegar: Hver áhrif hafa þær á skiptingu þjóðarteknanna? Miða þær að því að jafna þjóðartekjurnar, eins og hlýtur að vera sjónarmið vinstri sinnaðra manna?

Núverandi ríkisstj. stóð frammi fyrir erfiðum staðreyndum í efnahagsmálunum, þegar hún tók við störfum á s. l. sumri. Erfiðasta staðreyndin var sú, að um langan aldur hefur verið um verðbólguþróun að ræða hér á landi. Það var og um að ræða mikinn halla á útflutningsatvinnuvegum þjóðarinnar, og það var um að ræða greiðsluhalla gagnvart útlöndum.

Alvarlegasta einkenni ástandsins var það, að um verðbólgu var að ræða. Hin tvö sjúkdómseinkennin, hallinn á útflutningsframleiðslunni og greiðsluhalli við útlönd, eru náskyld því, standa í beinu órofa sambandi við það, að um verðbólguþróun hefur verið að ræða.

Ókostir verðbólguþróunar eru mjög margs konar, en það er þess vert að fara um það örfáum orðum. Undir þeim kringumstæðum eykst framleiðslukostnaður útflutningsframleiðslunnar í sífellu, án þess að hækkun verði á erlendu verði hennar, og það leiðir svo til taprekstrar í útflutningsatvinnuvegunum. Sparnaður þjóðarinnar fer minnkandi, fjárfestingin verður óheilbrigð að ýmsu leyti, eignaskiptingin raskast, og það verður greiðsluhalli við útlönd. Þau alvarlegu sjúkdómseinkenni, sem verðbólguþróunin leiddi í ljós hér, voru þau, að verðlag hér innanlands hefur verið og er enn miklu hærra en erlendis, eins og erlenda verðlagið er mælt í gengisskráningunni. Framleiðsluvísitala hér á Íslandi hefur síðan 1950 hækkað um rúmlega 80%, í Danmörku hefur hún hækkað um 36%, í Bretlandi hefur hún hækkað um 40%, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Í gengisskráningunni er krónan því ofmetin. Kaupmáttur krónunnar erlendis er meiri en kaupmáttur krónunnar innanlands. Þetta hlýtur að valda útflutningsatvinnuvegunum miklum erfiðleikum. Þess vegna hefur annað meginsjúkdómseinkennið verið það, að sjálfir undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar hafa verið reknir með tapi, þannig að bæta hefur orðið upp þetta tap með tekjutilflutningi innanlands. Og að síðustu hefur það verið alvarlegt sjúkdómseinkenni í efnahagskerfinu öllu, að greiðsluhalli gagnvart útlöndum hefur verið mikill, og á árinu 1955 mun hann hafa numið einhvers staðar á milli 100 og 150 millj. kr., eða 3–5% af þjóðartekjunum í heild, og á þessu ári mun greiðsluhallinn að vísu verða minni, en þó mjög verulegur.

Það var augljóst, að við svo búið mátti ekki standa.

Þannig var sá arfur, sem fráfarandi ríkisstj. skildi eftir sig. Þannig var sá arfur, sem núverandi ríkisstj. tók við. Hún tók m. ö. o. við öllum undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar með gífurlegum halla. Hún tók við þjóðarbúskapnum í heild með miklum greiðsluhalla gagnvart útlöndum. Til þess að ráða bót á þessu var um tvær meginleiðir að ræða, annars vegar gengisbreytingu og hins vegar beina tilfærslu á tekjum.

Í þessu frv., í þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur valið, felst bein tilfærsla á tekjum til úrbóta á því erfiða ástandi, sem ríkt hefur í efnahagsmálunum. Ég ætla að þessu sinni ekki að ræða kosti og galla hvorrar þessara leiða fyrir sig og ekki meginrökin fyrir því, að leið hinna beinu tilfærslna á tekjum til sjávarútvegsins var valin. Til þess munu vafalaust gefast tilefni síðar í þessum umr., og skal það þá gert, ef tilefni gefst. Á það vil ég leggja áherzlu, að aðalatriði þessara ráðstafana felst í því, að höfð hafa verið náin samráð við samtök launþega og framleiðenda. Ráðstafanirnar eru í einstökum atriðum gerðar í nánu, beinu samstarfi við stjórn Alþýðusambands Íslands og sérstaka trúnaðarnefnd, sem valin var á síðasta Alþýðusambandsþingi. Leiðin var valin og framkvæmdum hagað eins og í frv. felst í nánu samstarfi við stjórn Stéttarsambands bænda og sjómannasamtökin, bæði á bátaflotanum og togaraflotanum, og útgerðarmenn bæði vélbáta og togara.

Það má segja, að nm þessar ráðstafanir hafi náðst alger friður við öll þau hagsmunasamtök, sem nauðsynlegt er að starfi saman í friði, ef framleiðslan á að geta gengið óskert og á að geta aukið þjóðartekjurnar og skilyrði eiga að skapast til þess að jafna þær. Þetta hefur ekki áður tekizt, síðan efnahagsmál þjóðarinnar komust í það horf, sem þau eru nú og hafa verið undanfarið, að ríkið fór að hafa jafnmikil afskipti af þróun efnahagsmálanna og raun ber vitni um og gengi atvinnuveganna fór að vera jafnmjög háð opinberum afskiptum og nú á sér stað.

Þetta er í fyrsta skipti, síðan ríkið fór að hafa úrslitaáhrif á gang efnahagsmálanna, að algert samkomulag allra hlutaðeigandi launþegastétta og framleiðendastétta næst um þær ráðstafanir, sem gerðar eru. Þessi staðreynd markar í raun og veru tímamót í atvinnumálum og efnahagsmálum þessarar þjóðar. Þetta er nýjung, sem veldur aldahvörfum og á vonandi eftir að vera trygging fyrir því, að það þurfi ekki enn á ný að grípa til nýrra ráðstafana á næstu árum, um næstu áramót, svo sem þurft hefur við hver einustu áramót nú undanfarin ár.

Þess er skemmst að minnast, að á s. l. ári stöðvaðist rekstur einnar aðalgreinar útflutningsatvinnuveganna, bátaflotans, í heilan mánuð, fyrsta mánuð vertíðarinnar, með milljónatuga tapi fyrir þjóðina í heild. Nú mun engin slík rekstrarstöðvun eiga sér stað. Bátaflotinn, togaraflotinn og allar aðrar greinar íslenzkrar útflutningsframleiðslu munu starfa af fullum krafti og færa þjóðinni björg í bú.

Ef menn ræða þær ráðstafanir, sem felast í frv. í einstökum atriðum, er líklegt, að umræðurnar snúist um ýmislegt. Það er rétt að vekja sérstaka og sem ljósasta athygli á því, um hvað eðlilegt er að málefnalegar umr. snúist.

Í fyrsta lagi getur komið til greina, að menn vilji deila um þá upphæð, sem flutt er til, um upphæð sjálfs tekjuflutningsins. Mér þykir þó ólíklegt, að þeir, sem málið kynna sér ofan í kjölinn, geti fært að því nokkur skynsamleg rök, að hægt hafi verið að komast af með minni tekjutilfærslu en hér á sér stað. Ríkisstj. hafði að sjálfsögðu enga ástæðu til þess að flytja til meiri tekjur en brýna nauðsyn bar til að færa á milli. Það væri málefnaleg gagnrýni, ef hægt væri að benda á einhverja liði í tekjutilflutningnum, sem færa hefði mátt niður. Það verður fróðlegt að vita, hvort á það verður bent og þá hvaða liði hefði mátt minnka.

Þá er hugsanlegt, að menn deili um, og sannleikurinn er sá, að það er líklegt, að megindeilurnar muni einmitt snúast um, á hvern gjöldin eru. lögð, þ. e. a. s. hverjir eru látnir láta af hendi þær tekjur, sem þarf að flytja yfir til útflutningsatvinnuveganna. Það hefur verið sjónarmið ríkisstj. að láta sem allra minnst af tekjutilflutningnum lenda á neyzlu, sem talin verður til neyzlu hins almenna borgara, og að láta sem allra minnst af gjöldunum vegna tilfærslunnar verða til þess að auka framleiðslukostnað útflutningsatvinnuveganna. Það er þess vegna, sem séð hefur verið svo um, að innflutningur upp á rúmar 400 millj. kr. skuli ekki bera neinn hluta af þeim tekjutilflutningi, sem látinn er eiga sér stað. Innflutningur brýnustu nauðsynjavörutegundanna og helztu rekstrarvara landbúnaðar og sjávarútvegs á engin ný gjöld að bera samkv. þessum ráðstöfunum.

Þá er í þriðja lagi hugsanlegt, að menn vildu deila um, hverjir eigi að fá tekjurnar, sem fluttar eru á milli, í höndum hverra þær tekjur eiga að lenda. Ég geri ekki ráð fyrir því, að neinir, sem málið skoða ofan í kjölinn, geti fært að því rök, að þeim 240 millj. kr., sem fluttar eru á milli, sé ekki réttlátlega skipt á milli þeirra aðila útflutningsframleiðslunnar, sem gert er ráð fyrir að auknar útflutningsuppbætur fái. A. m. k. væri fróðlegt að heyra frá þeim, sem kynni að vilja gagnrýna, hverjir hafi átt að fá meira og hverjir fá minna.

Þá er í fjórða lagi hugsanlegt, að menn vildu ræða um eða deila um þá fyrirkomulagsbreytingu, sem gerð hefur verið við álagningu gjaldanna annars vegar og greiðslu útflutningsuppbótanna hins vegar. Þó hygg ég, að þessar ráðstafanir, sem gerðar eru varðandi breytt fyrirkomulag á álagningu gjaldanna og greiðslu uppbótanna, séu það atriði þessara ráðstafana, sem minnstar deilur verði um, þ. e. a. s. það atriði ráðstafananna, sem líklegast sé að sem flestir geti orðið sammála um að sé til mikilla bóta.

Í fimmta og síðasta lagi mætti deila um þær mikilvægu viðbótarráðstafanir, sem ríkisstj. hefur kunngert, bæði í frv. og í ræðu hæstv. forsrh., að hún er staðráðin í að gera sem framhald og til stuðnings þeim meginráðstöfunum, sem frv. fjallar um. Líklegast þykir mér, að megindeilurnar í sambandi við þetta mál muni einmitt standa í sambandi við þessar viðbótarráðstafanir, því að það er einmitt með þeim, sem fyrst og fremst er snert við hagsmunum þeirra aðila, sem hv. stjórnarandstaða ber fyrst og fremst fyrir brjósti í raun og veru.

Að síðustu þetta: Maður hefur lesið það í blöðum og heyrt það á mannfundum, að í þeim ráðstöfunum, sem hér eru lagðar til, séu farnar troðnar slóðir, að þetta séu í raun og veru ósköp svipuð úrræði og þau úrræði, sem áður voru kennd við íhaldið, að hér séu í raun og veru á ferðinni sömu íhaldsúrræðin og gripið var til í fyrra og hittiðfyrra. Þetta heyrir maður einkum af munni þeirra manna, sem lofsungu úrræðin í fyrra og hittiðfyrra hvað mest.

Ef svo væri í raun og veru, að þessi úrræði væru sömu úrræðin, sömu íhaldsúrræðin og í fyrra og hittiðfyrra, þá skyldi maður búast við miklum lofsöng um þessar ráðstafanir úr munni hv. stjórnarandstæðinga. Þeir munu tala hér á eftir, og þá munum við sjá, hvað þeir hafa um málið að segja. Ef þeir eru mjög óánægðir með þessar ráðstafanir, þá er það væntanlega sönnun þess, að ekki séu farnar troðnar slóðir, að það sé ekki um að ræða sömu úrræðin og gripið var til í fyrra og hittiðfyrra.

Í sambandi við þetta er auðvitað ekki úr vegi að spyrja: Vilja hv. stjórnarandstæðingar þess konar tilfærslur á milli flokka í innflutningnum, sem gerðar hafa verið með þessum tillögum? Telja þeir þar vera um að ræða troðnar slóðir? Vilja þeir stóreignaskattinn eða ekki? Telja þeir það troðnar slóðir að gera nú ráð fyrir stórfelldum stóreignaskatti? Vilja þeir verðlagseftirlit? Eru það troðnar slóðir, þegar lagt er til í frv., að komið sé á strangara verðlagseftirliti en áður hefur verið um að ræða hér? Vilja þeir verulega lækkun á álagningu milliliða? Eru það íhaldsúrræði að gera ráð fyrir verulegri lækkun á álagningu milliliða? Vilja þeir breytta tilhögun á skipulagi í útflutningsverzluninni? Eru það troðnar slóðir að ætla sér að gera þar á verulegar skipulagsbreytingar? Og í síðasta lagi: Vilja þeir breytta skipun bankamálanna? Eru það íhaldsráðstafanir að gera ráð fyrir breytingum á skipan bankamálanna? Ekkert af þessu, sem ég hef nú nefnt, var gert í fyrra eða hittiðfyrra, og það er það, sem skilur.

Það, sem er sameiginlegt með þessum ráðstöfunum og ráðstöfununum í fyrra og hittiðfyrra, er það, að farin er leið hinnar beinu tekjutilfærslu til þess að greiða úr vanda útflutningsatvinnuveganna. Það er sameiginlegt, en er gert núna með allt öðrum hætti en í fyrra og hittiðfyrra. Gjöldin, sem þá voru lögð á, voru miklu almennari. Þau komu einnig á ýmsar almennar neyzluvörur og rekstrarvörur útflutningsatvinnuveganna, en svo er ekki núna. Auk þess voru ásamt ráðstöfununum í fyrra og hittiðfyrra ekki gerðar neinar slíkar viðbótarráðstafanir sem nú er tilætlunin að gera til þess að styðja að því, að megintilgangur frv. náist og takist að stöðva verðbólguþróunina, tryggja vinnufrið í landinu og hafa áhrif til auðjöfnunar. Það er vegna aðferðarinnar við tekjutilfærsluna í þetta skipti og þó sérstaklega vegna þeirra viðbótarráðstafana, sem eru gerðar, að ráðskafanir þessa frv. eru ný úrræði. Það er vegna þessa, sem þessar till. marka stefnubreytingu og framkvæmd þeirra á að geta leitt til þess, að verðbólgan stöðvist. Hún á að geta leitt til áframhaldandi framleiðslu, batnandi lífskjara og aukins jafnaðar í tekjuskiptingu íslenzku þjóðarinnar.