20.12.1956
Efri deild: 41. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég mun ekki blanda mér í deilur manna hér um þetta frv., en margt kemur mér nú þar kynduglega fyrir sjónir, án þess að ég sé að fara nánar út í það. En ég finn ástæðu til þess að gera grein fyrir afstöðu minni til þeirra ráðstafana, sem gert er ráð fyrir í frv. að gerðar verði.

Ég sagði mínum kjósendum það í vor á framboðsfundum, að ég teldi höfuðmálið, sem lægi fyrir þeim mönnum, sem kosningu næðu, að reyna að finna heilbrigðan fjárhagsgrundvöll fyrir atvinnulífinu í landinu. Ég sagði þeim, að þeir flokkar, sem þá buðu fram saman, Framsfl. og Alþfl., vildu reyna að vinna að þessu. Ef þeir ekki næðu meiri hluta, þá sagði ég þeim líka, að ég teldi sjálfsagt að reyna að ná samkomulagi við Alþýðubandalagið um að mynda stjórn til að vinna að þessu. Ég benti á, að það væru fleiri leiðir til að ná því að mynda heilbrigðan fjárhagsgrundvöll, en hvaða leið yrði valin, yrði algerlega að fara eftir því, hvaða samkomulag næðist við hinar vinnandi stéttir, bæði til sjós og lands, um það, og sú stjórn, sem myndaðist, ef hún á annað borð myndaðist, yrði að leggja sig fram um það að reyna að hafa með sér verkalýðinn til sjós og lands og framleiðendurna, og einungis sú leið væri fær, sem næðist fullkomin eining um milli ríkisstj. annars vegar og þeirra manna, sem stæðu í framleiðslunni bæði beint og óbeint í þjóðfélaginu. Ég sagði þeim líka, að þetta mundi verða erfitt og ég teldi, að málum væri komið þannig, að það mundi ekki verða hægt að ná þessu í einum áfanga; þess vegna væri líklegt, að þetta væri mál, sem þyrfti að stríða við allt næsta kjörtímabil og yrði að reyna að ná lausninni í fleiri áföngum.

Ég álít, að áfanginn, sem næst með þessu frv., sé of lítill og nái of skammt. En ég mun þó fylgja því, því að það er áfangi á þeirri leið eða að því marki, sem ég tel að þurfi að nást til að skapa atvinnulífinu heilbrigðan starfsgrundvöll, svo að það þurfi ekki meðgjöf frá því opinbera, ekki tilfærslu frá einum hluta þjóðarinnar til annars, af því að fjárhagsgrundvöllurinn allur er rammskakkur og vitlaus. Þess vegna mun ég fylgja þessu frv., þó að ég telji það ná allt of skammt til að ná þeim áfanga, sem á og þarf að nást á næstu árum.