31.01.1957
Efri deild: 48. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég finn mig dálítið vanmáttugan til að geta greitt atkvæði um þessa till., af því að mér er málið ekki það kunnugt sem skyldi til þess að geta tekið að öllu leyti afstöðu til þess.

Till. fer fram á, að það hámark, sem sett er á framlag ríkissjóðs til þess að mæta framlagi frá bæjar- og sveitarfélögum til að útrýma heilsuspillandi íbúðarhúsnæði, sem í lögunum er 3 millj. á ári, falli niður, og ætti þá að verða til þess, að ríkissjóður væri skyldur til að leggja fram helminginn á móti þeirri upphæð, sem sveitarfélögin legðu fram.

Nú er mér spurn: Hvernig hefur þetta verið? Hefur vantað mikið á, að þessar 3 millj., sem í fjárlögum eru til þessa veittar, hafi nægt til þess að borga framlagið á móti ríkissjóði? Hafa þær ekki verið nægilega háar til þessa? Hefur ekki verið afgangur af þeim bæði þau ár, sem liðin eru síðan lögin voru samþykkt? Mér er þetta ekki fullkunnugt, og þess vegna vildi ég óska þess, að hæstv. forseti frestaði þessum umr. og n. rannsakaði þetta. Hér er komið fram nýtt viðhorf. Það er komið það viðhorf, að borgarstjórinn í Reykjavík, sem á sæti hér á Alþ., vill fá þetta hámark burt, til þess, að mér skilst, að ríkissjóður leggi fram hærri upphæð, gerir ráð fyrir því, að bærinn muni líka leggja fram hærri upphæð.

Ef reynslan hins vegar sýnir það, sem ég ekki veit, að bærinn hafi aldrei lagt fram það háa upphæð, að þetta hafi ekki verið nóg á móti, hvað þá? Hvaða þörf er þá að vera að ýfa þetta upp, bara til þess að gera um það deilur hér á Alþingi milli hæstv. ráðh. og borgarstjóra?

Þetta langaði mig til þess að vita. Og þó að einhverju væri slegið fram í hita umr. hér á Alþ., þá er ég ekkert viss um, hvort þær tölur væru það nákvæmar, að ég muni taka nokkurt tillit til þeirra og mynda mér skoðun eftir þeim. Ég vil fá að sjá og heyra frá n., eftir að hún hefur fengið þessa reikninga til meðferðar og séð þá, hvernig málin standa og hvort það er þörf á þessu eða ekki.

Þess vegna vil ég biðja forseta að athuga það og spyrja n., hvort hún vilji ekki, að umr. um málið sé frestað núna. Það líður enga nauð. Það kemur dagur eftir þennan dag. Nefndin taki málið til athugunar og gái að í því sambandi, hver þörf er á þessari till. eftir reynslunni, sem verið hefur.