01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. er hér ekki til svara áfram, vegna þess að hann varð að víkja af fundi til að mæta á öðrum stað og sinna þar embættiserindum, en mér virtist hann bæði nú og við 1. umr. hafa gert mjög hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli og sýnt fram á það fyrst og fremst, að l. voru sett af mikilli nauðsyn, og enn fremur hitt, að þó að þau að vísu séu ströng, þá þurftu þau að vera það, til þess að þau gætu náð því takmarki, sem þau áttu að ná, að skjóta þeim skelk í bringu, sem höfðu hafið verk til þess að reyna að koma fram ýmiss konar byggingum í skjóli þess frelsis, sem menn höfðu fengið til þess að koma upp íbúðarhúsnæði, og ég bygg, að l. hafi náð tilgangi sinum. Ég hef ekki heyrt, að mikill styrr hafi staðið milli manna í sambandi við þau. Ég hef ekki heyrt, að menn hafi orðið fyrir háum sektum vegna þessara l. Ég hygg, að það hefði ekki legið í láginni, ef eitthvað slíkt hefði gerzt. Og þegar nú spurt er um það, hvað hafi gerzt, t.d. eins og hv. síðasti ræðumaður spurði, — hann taldi, að það hefði verið gott að fá að vita, hvað mikið húsnæði það hefði verið, sem hefði átt að taka til annarra hluta, — þá er spurt um það, sem ekki er hægt að svara, vegna þess að af því að l. voru sett, hafa þessir atburðir ekki gerzt, og það eru engar skýrslur til um ætlanir manna. Þó að engin lög hefðu verið, þá væru engar skýrslur til um þær, en þaðan af síður geta verið skýrslur til um áhrif laganna.

Höfuðatriðið við umr. málsins hér er í raun og veru ekki það, hvort það væri æskilegt að auka við það, sem l. ná, t.d. eins og með till. þeirri, sem minni hl. heilbr.- og félmn. hefur lagt fram, heldur hitt, að fyrir liggur og er yfirlýst og vitað með vissu, að lagt verður fram frv. til heildarlöggjafar um húsnæðismál og þetta frv., sem hér liggur fyrir, yfirtekið með þeirri löggjöf. Það er því algerlega að vinna að óþörfu að gera breytingar á þessu frv. og ómaka það aftur til Nd., því að telja má líklegt meira að segja, að löggjöf sú, sem boðuð hefur verið, mundi ná því þar.

Hvort það er út af fyrir sig æskilegt að hliðra til fyrir þeirri þróun í þjóðfélaginu að auka við húsnæði fyrir skrifstofur og sölubúðir, ætti ekki að þurfa að deila um. Það er vitað mál, að það er sjúkleiki í okkar þjóðfélagi, hve margir vilja gerast þjónar í þessu efni, hve margir vilja gerast milliliðir og lifa á því að verzla og stunda skriffinnsku, en ekki taka þátt í nauðsynlegri störfum þjóðfélagsins. Ég held, að þetta stranga frv. hafi verið mjög heppileg löggjöf til þess að taka af skarið og skjóta þeim skelk í bringu, sem höfðu hugsað sér, eins og ég sagði áðan, að komast upp með það að nota það frelsi, sem veitt hafði verið til íbúðarhúsnæðisbygginga, til að koma upp aðstöðu fyrir sig til þess að geta lifað af milliliðastarfsemi.

Hins vegar er það, að til langframa er sú löggjöf, sem er undantekningarlaust bann í þessum efnum sem mörgum öðrum, máske ekki heppileg fyrir þróun mála, og þó að ég liti svo á, að það sé mjög eðlilegt, að hæstv. félmrh. hafi ekki viljað fá á sig þann mikla þunga, sem búast mátti við að á hann legðist í umsóknum um undanþágur frá l. á því skeiði, sem þessi brbl. áttu að gilda, þá sé ekki fráleitt að ræða það við setningu heildarlöggjafarinnar, að komið geti til greina að leyfa undantekningar á svipaða leið og t.d. frsm. minni hl. hefur bent á að eðlilegt geti verið, þegar um hagnýtingu eigin íbúða er að ræða. En það er rétt að taka til athugunar, þegar heildarlöggjafarfrv. liggur fyrir, en sjálfsagt á þessu stigi að staðfesta brbl. og lofa þeim að enda sinn tíma og halda áfram sinn stutta gildistíma að skelfa þá, sem þurfti að skjóta skelk í bringu, vegna þess að fjárfestingarmálin voru að komast í óefni fyrir misnotkun frelsisins, sem veitt hafði verið.