19.02.1957
Sameinað þing: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

1. mál, fjárlög 1957

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. þm. Ak. þrjár brtt. á þskj. 263. Tvær þessara till. mega teljast smávægilegar.

Er þar fyrst till. okkar um hækkun á styrk til Leikfélags Akureyrar úr 25 þús. kr. í 35 þús., sem flutt er að beiðni leiklistarmanna á Akureyri. Leikfélag Akureyrar á mjög í vök að verjast fjárhagslega, en hefur verið mjög athafnasamt. Á þessu ári hefur Akureyrarbær hækkað sitt framlag til félagsins í áðurgreinda upphæð, og er þessi till. flutt í samræmi við það.

Eins og sjá má af brtt. bv. meiri hl. fjvn., leggur hann til, að styrkur til Leikfélags Reykjavíkur verði hækkaður um 20 þús., í 70 þús. kr. Virðist mér, að þegar tillit er tekið til aðstöðumunar leikfélaga úti á landi og hér í höfuðstaðnum til tekjuöflunar, þá sé fullkomlega sanngjarnt að hækka einnig styrk til Akureyrarfélagsins um þessa lítilfjörlegu upphæð.

Þá leggjum við einnig til, að veittar verði 45 þús. kr. til greiðslu á hluta skólanna og þá sérstaklega menntaskólans af byggingarkostnaði sundhallarinnar á Akureyri. Ætlumst við til, að þetta verði fyrri fjárveiting og að á næsta ári verði jafnhárri upphæð varið til þessa.

Sú er forsaga þessa máls, að þegar bygging sundhallarinnar á Akureyri var hafin, fékkst viðurkenning fyrir þeirri sanngirniskröfu, að framkvæmdin yrði að nokkru studd af ríkinu umfram það, sem lög um íþróttasjóð mæla fyrir um. Var þetta byggt á því, að með byggingu sundhallarinnar væri bæjarfélagið að létta af ríkinu útgjöldum, sem því einu bæri að bera, og var þar sérstaklega hafður í huga menntaskólinn, sem eins og öllum er kunnugt er ríkisskóli, sem ber að kosta að öllu leyti af ríkisfé.

Þegar hér var komið, gerði íþróttafulltrúi og fræðslumálaskrifstofan áætlun um það, hve notkun menntaskólans af sundhöllinni mundi verða mikil, og komust þessir aðilar að þeirri niðurstöðu, að hún mundi vera um 6% og því væri sanngjarnt, að ríkið legði þessa upphæð fram auk framlaganna úr íþróttasjóði.

Í samræmi við þetta samkomulag, sem varð á milli forráðamanna kaupstaðarins og ríkisvaldsins, voru teknar um tveggja ára skeið 45 þús. kr. á fjárlög í þessu skyni, og var þá miðað við 6% af þeim byggingarkostnaði, sem í upphafi var áætlaður, en hann var áætlaður þá 11/2 millj. kr., þegar bygging var hafin 1951. Vegna fjárhagsörðugleika hefur þessi bygging dregizt mjög lengi, og það er fyrst núna seint á nýliðnu ári, að henni var að fullu lokið og hún tekin í notkun. En vegna þessa dráttar, sem orðinn var á byggingunni, varð byggingarkostnaðurinn ekki 11/2 millj., eins og í upphafi hafði verið ráð fyrir gert, heldur 3 millj., eða réttum heimingi meiri. Samkv. þessu gamla samkomulagi, sem ég hef áður lýst um þetta efni, telur því bæjarstjórnin á Akureyri, að bærinn eigi þarna inni hjá ríkinu 6% af 11/2 millj., eða 90 þús. kr., og fjallar þessi till. okkar hv. þm. Ak. um það, að leiðrétting fáist á þessu og þessi áfallna skuld verði greidd. Hún er því ekki raunverulega um annað en að krefja efnda á loforði, sem gefið var, þegar ráðizt var í byggingu sundhallarinnar.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um till. mína og hv. meðflm. míns, sem einnig er á þskj. 263, um framlag til dráttarbrautar á Akureyri og nauðsyn þeirrar framkvæmdar fyrir togaraútgerðina.

Níu ára reynsla er nú fengin fyrir togaraútgerð fyrir Norðurlandi. Sú reynsla er á margan hátt uppörvandi og í heild það sæmileg, að á henni hlýtur að verða byggt, þegar um það er hafizt handa að hefja viðreisnarstarf í atvinnumálum þessa landsfjórðungs, svo sem er yfirlýst ætlan núv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar og þegar hafa verið lögð nokkur drög að.

Nú hefur það verið ákveðið, svo sem alkunnugt er, að fjölga mjög togurum landsmanna, og því hefur verið yfirlýst og raunar lögfest að nokkru leyti, að þessi fyrirhugaða stækkun togaraflotans skuli fyrst og fremst koma landsfjórðungunum austan-, norðan- og vestanlands til góða. Fólkið í hinum atvinnusnauðu bæjum og kauptúnum þessara landshluta, sem nú býr við einna skarðastan hlut landsmanna, horfir nú til þess, að hin nýju skip færi því ný tækifæri til þátttöku í framleiðslustörfum þjóðarinnar og megni að bæta hag þess að miklum mun, en því er líka vel ljóst, að fjölgun togaranna og bátanna er engan veginn einhlítt úrræði og að jafnframt henni verður að búa útgerðinni betri og fullkomnari starfsskilyrði en hún hefur nú og hefur haft. Koma þar fyrst og fremst til bætt hafnarskilyrði, bættur og aukinn kostur frystihúsa og önnur skilyrði til fullverkunar aflans og að lokum aðstaða til viðgerða og viðhalds.

Till. mín og hv. þm. Ak. fjallar um þetta síðasttalda atriði, sem reynslan hefur kennt að er mjög mikils um vert, ef unnt á að vera að vænta þess, að útgerð togaranna geti þrifizt svo sem vera ber. Ég hef ekki um það neinar tölur, hve það tjón er mikið, sem togaraútgerðin á Norðurlandi, Vestfjörðum og Austfjörðum hefur beðið undanfarinn áratug, vegna þess að orðið hefur að sækja allar meiri háttar viðgerðir og viðhald togaranna til Reykjavíkur eða til útlanda, vegna þess að engin dráttarbraut, sem getur tekið upp svo stór skip, er til í þessum landshlutum, en ég fullyrði, að þetta tjón nemur milljónum og aftur milljónum króna.

Sigling til Reykjavíkur tekur ætíð nokkurn tíma og kostar þar af leiðandi stórfé. Hitt er þó sýnu lakara, að oft verða skipin að bíða, jafnvel svo að vikum skiptir, eftir slippplássi og verða þannig fyrir óhemjulegu tjóni og töfum. Ofan á þetta bætist svo, að sjaldan eða aldrei er unnt að fá að vita með nokkrum fyrirvara, hvenær skipin geti komizt að þeirri einu dráttarbraut, sem hér er um að ræða. Fyrir þá togara, sem stunda síldveiðar fyrir Norðurlandi á sumrum, getur ein smábilun, sem kostar Reykjavíkurferð og ef til vill tilheyrandi bið eftir viðgerð, kostað óhemjuupphæðir í glötuðu aflaverðmæti, sem ekki lætur eftir sér bíða.

Enn kemur það til, að meðan aðeins er ein dráttarbraut á landinu, er um að ræða fullkomna einokun á skipaviðgerðum, og hlýtur það að hafa sín áhrif á viðgerðarkostnað, ekki aðeins fyrir þá togara, sem verða að sækja utan af landsbyggðinni, heldur fyrir togaraflotann í heild.

En svo slæmur og kostnaðarsamur sem skorturinn á dráttarbraut hefur verið til þessa, mun þó fyrst keyra um þverbak þegar togurunum fjölgar að miklum mun á næstu tímum. Sá sannleikur er augljós öllum, að slippurinn hér í Reykjavík getur alls ekki fullnægt þörfum togaraflotans um slipppláss, eins og þær nú eru, en hversu miklu síður mun hann þó geta það, eftir að 15 nýir togarar hafa bætzt í hóp þeirra, sem fyrir eru.

Ég held það mála sannast, að bygging nýrrar dráttarbrautar, sem geti tekið upp togara, sé ekki einasta æskileg ráðstöfun, heldur algerlega óhjákvæmileg, eftir að stórfelld aukning flotans hefur verið ákveðin, svo sem nú hefur verið gert. Nú eru á Norðurlandi 8 togarar, 6 á Vestfjörðum og 3 á Austurlandi, eða samtals 17. Ekki er ólíklegt, að fjölgun verði a.m.k. 10 á næstu tveimur til þremur árum. Í flestum tilfellum yrði þessum togurum hentugra að sækja viðgerðir til dráttarbrautar á Norðurlandi en til Reykjavíkur, og er þá spurningin aðeins sú, hvar bezt hentar að staðsetja slíkt mannvirki. Ég held, að a.m.k. engir af forráðamönnum útgerðarfyrirtækja á Norðurlandi séu í vafa um, að Akureyri sé fyrir flestra hluta sakir sjálfkjörinu staður til þessara hluta. Hún er næst því að vera miðsvæðis í þeim landsfjórðungum, sem hér hafa hagsmuna að gæta. Þar er höfn, svo ágæt sem bezt verður á kosið. Þar standa þær iðngreinar með blóma, sem eru nauðsynlegur bakhjarl slíks fyrirtækis. Þar eru starfandi tvö stór vélaverkstæði og nokkur minni, sem hafa tugi reyndra fagmanna í þjónustu sinni og hafa með ágætum árangri tekið að sér vandasöm verk í sínum greinum, bæði innan bæjarins og utan. Í bænum er gömul og gróin stétt skipasmiða, og þar hefur í áratugi verið rekin dráttarbraut fyrir fiskiskip við góðan orðstír.

Nú fyrir ekki alllöngu hefur bæjarstjórn Akureyrar ákveðið fyrir sitt leyti að koma þar upp dráttarbraut, svo fljótt sem auðið er. Liggja nú fyrir tilboð frá erlendum firmum um smíði brautar fyrir allt að 1200 smálesta þung skip. Samkv. þessum tilboðum er stofnkostnaður fyrirtækisins talinn um 10 þús. kr. á smálest auk kostnaðar við lántöku og vexti, meðan á framkvæmd verksins stendur. Litlar líkur eru taldar á af þeim, sem á slíku hafa sérþekkingu, að fyrirtækið geti staðið undir stofnkostnaði að öllu leyti, og fer því fjarri, að Akureyrarbær ráðist í þessa framkvæmd með bein gróðasjónarmið fyrir augum. En á hitt hefur verið litið, að þörf togaraútgerðarinnar knýr fast á, og einnig hitt, að þörf fyrir aukna atvinnu í bænum er nú brýnni en nokkru sinni hefur áður verið.

Til þess að standa undir væntanlegum halla fyrirtækisins hefur bæjarstjórn hækkað nokkuð hafnargjöld í kaupstaðnum, og einnig hefur hún ætlað á fjárhagsáætlun yfirstandandi árs 1/2 millj. kr. til verksins. Þá hafa vélaverkstæði bæjarins einnig undirbúið samvinnu sín í milli um þau verkefni, sem fyrir þeim liggja í sambandi við væntanlegan rekstur. Er þessum undirbúningi öllum nú svo langt komið, að unnt er að hefja framkvæmdir strax í vor, ef fjármagn fæst til þeirra. Svo sem kunnugt er, ber ríkissjóði að greiða 2/5 hluta kostnaðar við slíkar framkvæmdir, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hverju sinni, og er till. okkar hv. þm. Ak. miðuð við framlag bæjarins, eins og það er ákveðið í fjárhagsáætlun hans fyrir yfirstandandi ár.

Ástæður okkar fyrir því, að við leggjum til. að sérstök fjárveiting utan venjulegrar veitingar til hafnarframkvæmda verði veitt til þessa verks, hef ég áður rakið hér að nokkru, en ég get bætt því við, sem ég hef raunar áður sagt óbeint, að hér er um stórmál að ræða fyrir togaraútgerðina úti á landi og raunar fyrir alla togaraútgerð landsmanna og um óhjákvæmilega framkvæmd að ræða, ef búa á að togaraútgerðinni af fyrirhyggju, en hins vegar engan veginn um staðbundið bæjarmál Akureyrar að ræða, þó að hún mundi njóta þar mikils góðs af, sem líka er réttmætt, þar sem bæjarfélagið býðst til að taka á sig mestan þunga þessa átaks. Ég vantreysti engum hv. þm., sem ber hag útgerðarinnar fyrir brjósti, í því að fylgja till. okkar bv. þm. Ak. um þennan stuðning við framtak Akureyrar og enn síður þeim hv. þm., sem meina meira en orðin tóm, er þeir ræða um rétt landsbyggðarinnar, um nauðsynina á atvinnulegri uppbyggingu hennar.