19.02.1957
Sameinað þing: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

1. mál, fjárlög 1957

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Á þskj. 261, IV. lið, er brtt. við 15. gr. fjárl., þess efnis, að styrkur til stúdentaráðs Háskóla Íslands verði hækkaður um 15 þús. kr., eða í 25 þús. kr.

Stúdentaráð háskólans gegnir umfangsmiklu starfi, og mun ég í stórum dráttum rekja, í hverju það er fólgið.

Hlutverk þess er að gæta hagsmuna háskólastúdenta innan háskólans og utan. Starf þess hefur, eins og eðlilegt er, aukizt mjög á síðari árum, þar eð stúdentafjöldi við háskólann er nú orðinn um 800. Viðskipti íslenzkra stúdenta við erlend stúdentasamtök fara vaxandi. Stúdentaskipti hafa farið fram, og hafa þau margháttað gildi. Til þeirra fékkst í fyrra 20 þús. kr. fjárveiting sérstaklega. Stúdentaráð telur æskilegt, að slíkum stúdentaskiptum geti orðið haldið áfram, en það er aðeins unnt með fjárveitingu frá hinu opinbera. Enn fremur stendur stúdentaráð að jafnaði fyrir bókmenntakynningum, sem að sjálfsögðu hafa allmikinn kostnað í för með sér. Nú er ráðgert að halda hér á landi heimsmeistaramót stúdenta í skák, og mun umsamið, að Íslendingar greiði þar allstóran hluta ferðakostnaðar þátttakenda. Það væri íslenzkum stúdentum mikill sómi, ef hægt væri að gera slíkt mót vel úr garði. Loks er eitt verkefni og það mjög nauðsynlegt, sem liggur fyrir ráðinn eins fljótt og unnt er, en það er útgáfa á handbók stúdenta með upplýsingum um háskólanám hér og erlendis. Nauðsynlegt er að gera stúdentum kleift að kynnast eins vei og föng eru á þeim námsmöguleikum, sem opnir standa að loknu stúdentsprófi, og atvinnuhorfum í hverri grein, svo að nám þeirra nýtist betur sjálfum þeim og þjóðinni til heilla.

Þessi lauslega upptalning ætti að gefa nokkra hugmynd um störf stúdentaráðs Háskóla Íslands. En störfum þess er ekki hægt að sinna eins vei og skyldi sakir fjárskorts. Og þegar litið er til þess, að fjárveiting til ráðsins hefur verið óbreytt á annan tug ára, 10 þús. kr., en á þeim tíma hefur stúdentum fjölgað um 60% og verðlag farið mjög hækkandi, þá verður mönnum frekar ljós nauðsyn þess, að fjárveiting til stúdentaráðs verði hækkuð, og þess vegna er tillaga þessi flutt.

Einnig er á sama þskj. brtt. um, að nýr liður verði tekinn upp á eftir 13. tölulið 17. gr. fjárlaga, 700 þús. kr. til vistheimilis fyrir afvegaleiddar stúlkur. Er brtt. þessi í samræmi við 37. gr. laga nr. 29 frá 1947, um vernd barna og ungmenna. Gísli Jónsson fyrrv. alþm. flutti áríð 1954 frv. til laga um, að komið yrði upp slíku vistheimili. Frv. hlaut ekki afgreiðslu, en erindi bárust Alþingi frá fjölmörgum aðilum, sem mæltu með samþykkt þess. Þau voru frá áfengisvarnanefnd kvenna í Reykjavík og Hafnarfirði, barnaverndarnefnd Reykjavíkur, lögreglustjóranum í Reykjavík, Mæðrafélaginu í Reykjavík, Aðalsteini Eiríkssyni, barnaverndarráði Íslands og fræðslumálastjóra. Hinn 4. apríl 1955 var samþykkt lagafrv. frá menntmn. Nd., sem líklegt var að flýta mundi fyrir þessu máli. 37. gr. laganna um vernd barna og ungmenna, 1. málsgr., hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er skylt, eftir því sem fé er veitt til þess á fjárlögum, að setja á stofn og reka hæli, þar sem vistuð skulu börn og ungmenni, sem framið hafa lögbrot eða eru á annan hátt á glapstigum. Skulu hæli þessi vera a.m.k. tvö, annað handa stúlkum, en hitt handa piltum. Ráðherra setur reglur um vist barna og ungmenna á hælum þessum, um fræðslu, uppeldi og aga þar.“

Samkv. lögunum frá 1955 var svo eftirfarandi málsgr. bætt við:

„Hefja skal þegar undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilis fyrir stúlkur. Ríkisstjórninni er heimilt að leita eftir hentugu húsnæði, sem til kann að vera, fyrir vistheimilið og gera samning um afhendingu þess og afnot. Enn fremur er henni heimilt að taka til þessara nota húsnæði, sem ríkið á eða hefur umráð yfir.“

Það er því fyrst og fremst fjárveitingin, sem hér stendur á.

Hinn 28. apríl 1955 fól menntmrh. þriggja manna n., sem reynslu hafði um stofnun og rekstur heimilis fyrir afvegaleidd börn, stjórnarnefnd vistheimilisins í Breiðuvik að athuga um undirbúning að stofnun svipaðs heimilis fyrir stúlkur og gera tillögur um það.

Í skýrslu sinni rekur nefndin fyrst skilyrði, sem vistheimili fyrir stúlkur þarf að uppfylla: Í fyrsta lagi að vera í sæmilegu vegasambandi vetur jafnt og sumar, án þess þó að vera beint í þjóðbraut. Í öðru lagi, að fyrir hendi sé á staðnum eða að mögulegt sé að skapa þar nægileg verkefni fyrir stúlkurnar að vinna við þann tíma, sem þær dvelja á heimilinu. Og í þriðja lagi, að heimilið gæti auðveldlega notið þeirra hlunninda, sem jarðhiti og raforka veita, ef gnægð þessara kosta er fyrir hendi.

Með þetta í huga athugaði n. svo allmarga staði á landinn í þessu sambandi og lýsir í skýrslu sinni mjög rækilega þeim stöðum, er til greina koma. En lokaniðurstöður n. eru þær, að heppilegra sé að byggja nýtt vistheimili fyrir stúlkur samkv. fyrirmælum þeirra laga, sem ég gat um áðan, og það rúmi a.m.k. 30 stúlkur auk starfsmanna og nauðsynlegar vinnustofur og kennslustofur. N. fékk uppdrætti að slíku heimili hjá húsameistara ríkisins, og stærð þess var um 1800 m3 og kostnaðurinn áætlaður um 2 millj. kr. með þáverandi verðlagi, haustið 1955. Enn fremur lagði n. til, að tekin yrði árlega upp í fjárlög 1 millj. kr. til byggingarinnar, þar til henni væri að fullu lokið, eða tekið yrði lán, sem eigi væri lægra að viðbættu árlegu framlagi ríkissjóðs en sú upphæð. Auk þess lagði n. til, að þegar yrðu gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja stofnuninni nægilegt land og hitaréttindi að Sólheimum í Grímsnesi, en tækist það ekki, þá að leita eftir kaupum á jörðinni Reykjanesi ásamt Reykjalundi í Grímsnesi til þess að reisa þar vistheimili og láta síðan ganga frá fullnaðarteikningum af byggingunni, þegar staðurinn hefði verið ákveðinn, og sé þessum undirbúningi lokið svo snemma, segir nefndin, „að unnt sé að byrja á byggingunni í maí 1956.“

Enn fremur lagði n. til, að leitað yrði samkomulags við bæjar- og sveitarfélög þau í landinu, sem þurfa að koma fyrir börnum og öryrkjum á sérstakar stofnanir, um að reisa og starfrækja þær í samstarfi við ríkið, að svo miklu leyti sem það getur átt við og orðið báðum aðilum hagkvæmara, enda sé staður sá, sem valinn er fyrir vistheimilið, ákveðinn með það fyrir augum, að slíkt samstarf komist á fyrr eða síðar.

Að lokum tók n. fram, að hún hefði rætt öll þau atriði, sem fram komu í skýrslunni, við barnaverndarráð, og það var sammála um að mæla eindregið með því, að farið yrði eftir tillögum nefndarinnar. Einnig ræddi n. við kvenlögreglu í Reykjavík, sem lagði mikla áherzlu á, að till. n. næðu sem fyrst fram að ganga. Í n. voru Magnús Sigurðsson skólastjóri, Þorkell Kristjánsson fulltrúi og Gísli Jónsson, formaður nefndarinnar.

Í janúar 1956 sendi menntmrn. fjvn. bréf ásamt afriti af bréfi Gísla Jónssonar, þar sem lagt var til, að veitt yrði 500 þús. kr. byrjunarframlag til vistheimilis fyrir stúlkur og ríkisstj. yrði veitt heimild til kaupa á jörðinni Ormsstöðum í Grímsnesi í þessu skyni. Ætlunin var, að heimilið á þeirri jörð gæti notið hitaréttinda frá Sólheimum í Grímsnesi og stúlkurnar gætu lagt fram vinnu í þágu Sólheima.

Nauðsyn þessa máls er mjög brýn. Samkv. skýrslu barnaverndarnefndar fyrir árið 1955 fékk kvenlögreglan á því ári til meðferðar mál 37 stúlkna, sem n. hafði haft afskipti af. Háir það mjög starfi til hjálpar þessum stúlkum og yngri stúlkum, sem verið hafa á vegum barnaverndarnefndar, að ekki skuli vera til vistheimili, þar sem stúlkur þessar gætu eignazt samastað og hlotið menntun við hagnýt störf.

Hér skulu ekki gerðar nákvæmar till. um fyrirkomulag slíks heimilis eða skóla. Það er fyrst og fremst mál þeirra aðila, sem ráðh. kemur til með að fela framkvæmd málsins. Meira er um vert, að gott og áreiðanlegt fólk annist starfrækslu slíks heimilis, og hefur mér komið til hugar í því sambandi, hvort ekki væri unnt að ná samkomulagi við eitthvert félag, sem starfar að málum ungmenna, t.d. kristilegu æskulýðsfélögin, um að annast starfrækslu. Aðalátriðið er, að fjárveiting fáist, svo að hægt sé að hefjast handa, þótt í smáum stíl verði.

Það er vissulega allmikil fjárhæð, sem hér er farið fram á, 700 þús. kr., til þessa heimilis, en þegar litið er til þeirra verðmæta, sem fara í súginn án þessarar fjárveitingar, þá vex manni hún sízt í augum, því að þessi verðmæti eru hamingja og líf allmargra unglingsstúlkna og barna þeirra síðar meir, ef þeim er ekki rétt hjálparhönd sem fyrst.

Í þeirri von, að hv. fjvn. taki þessi mál til athugunar, mun ég taka till. þessa aftur til 3. umr. fjárlaga.