25.02.1957
Sameinað þing: 38. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

1. mál, fjárlög 1957

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Mér skildist á hv. 2. þm. Eyf. (MJ), frsm. minni hl., að sennilega væri óhætt að áætla tekjurnar hærri en gert er í frv. og hv. meiri hl. fjvn. gerir ráð fyrir. Var hann í því sambandi að bollaleggja nokkuð um aukinn innflutning, sem líklegur væri.

Ég vil láta í ljós allt aðra skoðun á þessu. Ég álít, að tekjuáætlun hafi e.t.v. aldrei verið eins teygð á síðari árum og hún er nú í þessu frv., eins og það liggur fyrir og eins og hún var, þegar þetta frv. var fram lagt. Ég færði fyrir þessu nokkrar ástæður við 1. umr. málsins, og stendur það óbreytt, sem ég þá sagði um horfurnar í því máli.

Í raun og veru gerir tekjuáætlunin ráð fyrir fyllilega eins miklum innflutningi á þessu ári og var 1955 og 1956. En þegar þess er gætt, að 1955 og 1956 var bæði árin flutt inn mjög miklu meira en hægt var að borga af gjaldeyristekjunum og bæði árin var því verulegur halli á gjaldeyrisverzluninni, verða ekki með neinu móti að mínum dómi fundin rök fyrir því, að hér sé gert ráð fyrir of lágum tekjum eftir útlitinu, því að það er rétt, sem hv. 2. þm. Eyf. raunar tók fram, að það er ekki til þess að hugsa, þótt reynt sé að vanda útgjaldaáætlunina, að ná greiðsluhallalausri útkomu, nema áætla tekjurnar eitthvað aðeins undir því, sem þær verða, og ef þær verða ekki nema nákvæmlega eins og stendur í fjárlögum, þá er gefinn greiðsluhalli. Ég læt þetta nægja um þetta atriði fjárlaga.

Ég vil svo víkja hér að þremur brtt.

Fyrst vil ég segja nokkur orð út af brtt. á þskj. 286 frá hv. minni hl., þar sem gert er ráð fyrir lántöku vegna hafnargerða.

Till. kom fram við 2. umr. fjárl. frá nokkrum hv. þm. um sérstaka lántökuheimild vegna hafnargerða, og nú liggur fyrir þessi till. á þskj. 286 um sama efni.

Út af þessu vil ég taka fram, að ríkisstj. hefur lántökuheimild ríkisins og lántökumál til helztu framkvæmda á landinn, þ. á m. til hafnargerða, til athugunar og meðferðar í heild og mun síðar á þessu þingi gera hv. Alþingi grein fyrir því, hvernig þau mál standa, og leita lántökuheimildar til viðbótar þeim, sem í lögum eru, eftir því sem ríkisstj. að athuguðu máli þykir ástæða til. Telur ríkisstj. ekki rétt að taka einn þátt þessara mála út úr til afgreiðslu nú og leggur því á móti till.

Þá er till. á sama þskj. um að leggja fram úr ríkissjóði allt að 5 millj. kr. til veðdeildar Búnaðarbankans og svo lántökuheimild í því skyni.

Um þetta mál, um fjárþörf veðdeildarinnar, mætti margt segja, því að hún er veruleg, en erfiðleikar á því að bæta þar úr eins og mörgum öðrum hliðstæðum málum. En um þetta vil ég segja, að í þessu efni verða gerðar ráðstafanir til þess að greiða nokkuð úr fyrir veðdeildinni. Mun ríkisstj. leggja það mál fyrir hv. Alþingi sérstaklega, ef ekki reynist hægt að leysa það án nýrra lagaákvæða.

Með þessu fororði legg ég til, að þessi till. á þskj. 286 verði felld.

Loks er till. á þskj. 292, IX, frá hv. 2. þm. Skagf. (JS). Hún er um að greiða úr ríkissjóði í verðmiðlunarsjóð mjólkur allt að 2 millj. kr. til þess að bæta upp vinnslumjólk utan fyrsta verðjöfnunarsvæðis.

Með þessari till. er stungið upp á því að fara inn á alveg nýja braut í þessum efnum, sem sé þá, að ríkissjóður greiði verðjöfnunargjald á mjólkurafurðir. Nýr uppbótarsjóður yrði þá stofnsettur á vegum ríkissjóðs í viðbót við það, sem fyrir er. Það verður að finna aðrar leiðir til þess að auka á réttmætan hátt verðjöfnun mjólkurafurða. Er það mál nú til meðferðar hjá bændasamtökunum og landbrn. Þessi till. er ekki tímabær né heppileg, og væri heppilegast, að hún væri tekin til baka, en verði það ekki gert, þá legg ég til, með þessu fororði, að hún verði felld.