01.02.1957
Neðri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

105. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, var það, að á meðan við sjálfstæðismenn vorum í stjórn, hefðum við aldrei séð aðra leið en að hækka álögurnar. Hann er búinn að gleyma því, að það var fyrir tilstilli og forgöngu okkar sjálfstæðismanna, að tekjuskatturinn var lækkaður hér um árið, þegar sjálfstæðismenn voru í stj., ásamt honum. Það muna allir landsmenn og vita, að þessi hæstv. fjmrh. er frægastur fyrir það að hafa lagt á nýja skatta, og honum hefur verið hrósað í Tímanum sérstaklega fyrir góða fjármálastjórn vegna þess, hvað hann hefur verið duglegur innheimtumaður, að fara djúpt ofan í vasa skattborgaranna, með þeim árangri að hækka fjárlög ríkisins árlega um 100 millj. kr. Það er þetta, sem hefur sett þennan stimpil á hæstv. fjmrh., að fara vel með fjármál ríkisins, hvað hann hefur verlð duglegur að leggja á skatta og innheimta þessa skatta. Og það út af fyrir sig er nokkurs virði.

En þegar þessi hæstv. ráðh. er að bera saman útsvörin í Reykjavík og tala um, að þau muni jafnvei hækka, bera það saman við það, sem núverandi hæstv. ríkisstj. gerir, þá er þar náttúrlega ólíku saman að jafna. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur ekki haft tækifæri til þess að gera sams konar viðskipti við bæjarbúa og hæstv. ríkisstj. hefur nú gert við alla landsmenn. Það, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, er að leggja á landsmenn 240 millj. kr. í nýjum sköttum í útflutningssjóð og til handa ríkissjóði, en hún ætlar, þessi sama hæstv. ríkisstj., af miklu örlæti að skila aftur 5 millj. kr., eftir því sem hæstv. fjmrh. talaði hér áðan. Ef bæjarstjórn Reykjavíkur hefði nú sömu aðstöðu og ríkisstj., gæti hún áreiðanlega komið með till. um lækkun á útsvörum og miklu ríflegri en hér er um að ræða.

Annars er það dálítið einkennilegt, þegar hæstv. fjmrh. og framsóknarmenn eru að tala um, að útsvörin í Reykjavík muni ef til vill eitthvað hækka. Það vill nú svo til, að framsóknarmenn stjórna ýmsum bæjarfélögum, og það er upplýst og sannað, að hvergi hafa útsvörin hækkað meira en þar, sem þeir eru við stjórn. En skyldi ekki líka koma niður á Reykjavíkurbæ eitthvað svipað og á öðrum bæjar- og sveitarfélögum þessa lands sú mikla dýrtíð, sem nú er færð yfir þjóðina í sambandi við þær álögur, sem lagðar voru á núna fyrir nýárið? Skyldi það ekki leiða til þess, að tekjur bæjanna þurfa að verða nokkru meiri nú en áður?

Ég verð að taka undir það með hv. 2. Eyf., að það er vitanlega óeðlilegt að vera að innheimta tekjuskatt af þurftarlaunum, og það er vitanlega óeðlilegt að vera að flagga með það með nokkurs konar auglýsingaskrumi, að það sé verið að lækka skatta af lágtekjum með frv. eins og þessu, sem hér er um rætt, þegar það kemur rétt á eftir að búið er að íþyngja landsfólkinu, eins og ég áðan lýsti, með því að leggja 1500 kr. skatt á hvert nef. Þá er í staðinn fyrir þessar 4500 kr., sem eru lagðar á þriggja manna fjölskyldu, skilað aftur rúmum 100 kr. á nef, m.ö.o., það er skilað aftur rúmum 300 kr. af 4500 kr., sem hæstv. fjmrh. ætlar sér nú að innheimta af borgurunum.