02.06.1958
Efri deild: 115. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Nokkru áður en málið kom til 3. umr., það eru liðnar nokkrar vikur síðan, flutti ég brtt. á þskj. 433, sem ég vildi leyfa mér að gera grein fyrir.

1. brtt. er við 16. gr. laganna um húsnæðismálastjórn o.s.frv., en í þeim l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú leggur sveitarfélag fram fé til íbúðabygginga í því skyni að útrýma heilsuspillandi húsnæði, annaðhvort sem óafturkræft framlag eða lán, og skal þá ríkissjóður lána jafnháa upphæð á móti, allt að 4 millj. kr. ár hvert næstu 10 ár.“

Þegar húsnæðismálalögin voru undirbúin á árinu 1954, var þetta mál mjög rætt, hverjar leiðir skyldi fara til þess að reyna að útrýma heilsuspillandi húsnæði í landinu. Af þeirri n., sem fjallaði um málið, og hæstv. þáverandi ríkisstj, var viðurkennt, að hér væri um sameiginlegt vandamál ríkisins og sveitarfélaganna að ræða, sem þessir aðilar yrðu að leysa í sameiningu. Niðurstaðan varð sú, að það væri eðlilegt, að til þessara framkvæmda skyldi varið fé til jafns úr ríkissjóði og sveitarsjóði. Það er sú meginregla, sem er orðuð í þessu ákvæði, sem ég las upp: „skal þá ríkissjóður lána jafnháa upphæð á móti.“

Í grg. frv. kemur þetta sjónarmið og þessi meginregla,enn skýrar fram. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta, í grg. frv., það eru Alþingistíðindi 1954, A-deild, bls. 960, þar segir: „Er eðlilegt, að bæjar- og hreppsfélög leggi árlega fram fé í þessu skyni gegn jöfnu framlagi úr ríkissjóði.“

Þetta var meginsjónarmiðið, sem gilti. Hins vegar var ákveðið, þegar lögin frá 1955 voru sett, að setja þarna inn hámarksákvæði, að hið árlega framlag skyldi þó ekki vera hærra, en 3 millj. kr., og var það byggt á því, að þá var talið, að sú upphæð mundi fyllilega nægja, framkvæmdir sveitarfélaganna í landinu mundu ekki verða meiri, en sem því svarar. Fyrir rúmu ári, þegar núgildandi lög voru sett um þetta efni, var þetta hámark hækkað upp í 4 millj. Þá hafði þegar komið í ljós, að framkvæmdir á vegum sveitarfélaganna til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði höfðu orðið miklu meiri, en gert var ráð fyrir, þegar 3 millj. framlagið var ákveðið. Á þetta var bent, þegar hækkað var upp í 4, en það fékk ekki hljómgrunn og tillögur í þessu efni felldar.

Nú er það 1. brtt. mín á þskj. 433, að Alþ. viðurkenni og staðfesti það meginsjónarmið, sem lá til grundvallar lögunum frá 1955, að við útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis sé það mál, sem varðar ríkið og sveitarfélögin jafnt. Aðaltillagan er því sú að fella niður þetta hámarksákvæði, og verður þá ákvæðið á þá lund, að ríkissjóður skuli lána jafnháa upphæð á móti sveitarfélögunum í þessu skyni.

Nú kunna menn að spyrja: Er hér ekki farið fram á óhæfilega mikið fé? — En ég vil svara því til, að eins og fjárhag sveitarfélaganna á Íslandi er yfirleitt háttað, þá held ég, að ríkisvaldinu sé engin ofraun eða ofrausn að leggja fram jafnmikið fé og þau treysta sér til að leggja fram til þessara mála. Fyrst og fremst verða menn auðvitað að gera sér grein fyrir þeirri grundvallarhugsun og viðurkenna það meginsjónarmið, að hér sé um sameiginlega skyldu ríkis og sveitarfélaga að ræða.

Eins og ég tók fram, hafa framkvæmdir í þessum efnum orðið af hálfu sveitarfélaganna og sérstaklega hér í Reykjavík miklu meiri, en gert var ráð fyrir, þegar 3 millj. hámarkið var sett, og þess vegna brýn þörf á að breyta þessu, þó að það hafi verið hækkað upp í 4 milljónir. Á þrem síðustu árum hafa framkvæmdir við byggingu nýs húsnæðis til að útrýma heilsuspillandi húsnæði í Reykjavík einni verið nær 40 millj. kr. Að vísu á framlag ríkissjóðs ekki að koma á móti því öllu, vegna þess að væntanlegir kaupendur þessara húsa greiða að sjálfsögðu strax við kaupin nokkra fjárhæð, sem kemur til frádráttar. En þessi upphæð sýnir þó, að hér þarf miklu meira.

Ef svo skyldi fara, að hv. d. geti ekki fallizt á þetta sjónarmið, sem er þó langeðlilegast, að fella niður hámarkið, þá flyt ég varatillögu um það, að fyrir orðin „4 millj. kr.“ komi: 10 millj. kr.

Á s.l. hausti kom þetta mál m.a. til umr. í bæjarstjórn Reykjavíkur, og var þá flutt um það till. af fulltrúum allra stjórnmálaflokka í bæjarstjórninni og samþ. einróma áskorun á Alþ. að hækka þetta framlag ríkissjóðs til samræmis við það, sem ætla má að framlög sveitarfélaga í þessu skyni muni verða, og taldi bæjarstjórnin þá, að til þess þyrfti ríkissjóðsframlagið fyrir 1958 að nema um 12 millj. kr. Með varatill. fer ég þó aðeins fram á, að 4 millj. verði hækkaðar upp í 10 millj.

Til þrautavara flyt ég svo till. um það, að hækkað verði úr 4 millj. í 8 millj., ef hinar tillögurnar fá ekki byr.

Þá er 2. brtt. á þessu sama þskj. Nú segir svo í gildandi lögum, 16. gr. einnig, með leyfi hæstv. forseta:

„Lánveiting ríkissjóðs er þó ávallt bundin því skilyrði, að hið ónothæfa húsnæði hafi verið tekið úr notkun, um leið og hið nýbyggða húsnæði er fullgert.“

Þetta þýðir það, ef bókstaflega er skilið, að enginn eyrir fæst úr ríkissjóði eða frá húsnæðismálastjórn til þessara framkvæmda, fyrr en fulllokið er að byggja hið nýja húsnæði, fólkið úr hinu heilsuspillandi húsnæði er flutt þangað inn og búið að rifa eða taka úr notkun hinar heilsuspillandi íbúðir. Þetta þýðir það í framkvæmd, að sveitarfélögin verða ekki aðeins að leggja út þann helming, sem þau eiga sjálf að standa undir, heldur verða þau að lána ríkissjóði til bráðabirgða hinn helminginn, ríkissjóðshelminginn.

Ég skil ekki í því, að nokkur maður sjái, að sanngirni sé í slíkum lagaákvæðum. Í lögunum frá 1955 var þetta miklu mildara ákveðið, og húsnæðismálastjórn tók þá ákvörðun um það að veita þessi lán, þó að hið nýja húsnæði væri í smíðum og ekki fullgert, gegn skuldbindingu sveitarfélaganna um það, að hið heilsuspillandi húsnæði yrði tekið úr notkun, strax þegar flutt yrði inn í hið nýja. Þannig var þetta framkvæmt um hríð. En með lagabreytingunni frá því í fyrra var mjög hert á þessu ákvæði, og húsnæðismálastjórn hefur talið sér tæplega heimilt að inna af hendi greiðslur í þessum efnum nema eftir bókstaf laganna, þ.e.a.s. fyrr en hið nýja húsnæði er tekið í notkun og búið að rífa hið gamla. Og það er ekki nóg með það, heldur hefur hæstv. núv. félmrh. krafizt þess með bréfi til húsnæðismálastjórnar, að þessu harðskeytta og ósanngjarna ákvæði verði framfylgt til hins ýtrasta, alveg eftir bókstaf laganna, svo að eftir þessa vinarkveðju frá hæstv. félmrh. um algerlega bókstaflega túlkun laganna í þessu efni má gera ráð fyrir, að húsnæðismálastjórn telji sér alls ekki heimilt að greiða neitt í þessu efni, fyrr en hið nýja húsnæði er fullbyggt.

Slík ákvæði og slík túlkun og framkvæmd ná vitanlega ekki nokkurri átt, að ofan á það, að sveitarfélögin leggi fram sinn helming til þessara framkvæmda, þá krefjist ríkisvaldið þess, að sveitarfélögin þar að auki láni ríkinu þess hluta, þangað til húsnæðið er fullgert. Vitanlega hefur ríkið fulla tryggingu fyrir því og hefur það alveg í hendi sér að láta loka eða rifa hið heilsuspillandi húsnæði, þegar flutt er úr því og inn í hið nýja húsnæði.

Till. mín á þskj. 433 í þessu efni, tölul. 2, er því á þá lund, að í staðinn fyrir orðin „Lánveiting ríkissjóðs er þó ávallt bundin því skilyrði, að hið ónothæfa húsnæði hafi verið tekið úr notkun, um leið og hið nýbyggða húsnæði er fullgert“ komi: Sveitarfélagi er skylt að sjá um, að tekin verði úr notkun ein ónothæf íbúð á móti hverri nýrri íbúð, sem lán er veitt til samkvæmt þessari grein.“ M.ö.o. sé lögð sú algera skylda á sveitarfélögin að sjá um, að þetta sé framkvæmt, og vitanlega hefur ríkisstj. og húsnæðismálastjórn það algerlega í hendi sér að sjá um, að þetta sé framkvæmt.

Ég vænti, að þessar eðlilegu lagfæringar og leiðréttingar á lögunum nái samþykki hv. deildar.