22.11.1957
Efri deild: 25. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

18. mál, umferðarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það eru aðeins þrjú atriði, sem mig langar til að leggja áherzlu á í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi það, að ég hef litið svo á og lít svo á og mun alltaf líta svo á, að Alþingi eigi að setja lög, sem eru í sem mestu samræmi við þjóðarviljann á hverjum tíma, og það sé eiginlega fyrsta skilyrðið til þess, að lög séu haldin og almenningur fái virðingu fyrir þeim lögum, sem Alþingi setur. Þetta er fyrsta og helzta og aðalástæðan til þess, að ég vil hækka hámarksökuhraða upp í það, sem yfirleitt er notað í landinu, svo að menn þurfi ekki stöðugt og alltaf að egna upp lögbrjóta. Þetta er það fyrsta. Það er til skammar að vera að setja lög, sem er vitað að alltaf eru brotin. Það þýðir ekki neitt. Ég tala nú ekki um, ef taka má trúanlegt það, sem þm. Barð, segir um það, að lögregluþjónarnir skipti sér ekkert af því, þó að þau séu dálitið brotin, þó að það sá farið svona 10 km yfir markið, — nei, nei, það skipti sér enginn af því. M.ö.o.: þeir, sem eiga að sjá um, að lögin séu haldin, eru hættir að „respektera“ þau. Þetta er þungur dómur á þá, sem eiga að sjá um, að lögin séu haldin, ef hann er réttur. Ég efast um, að hann sé réttur. Hann kemur ekki fram í grg. fyrir frv., þar sem sjálfur lögreglustjóri situr og leggur til, að þessi hraði sé upp tekinn, sem í frv. stendur. Hann kemur ekki fram þar. Þetta var það fyrsta, sem ég vildi taka fram.

Það annað, sem ég vildi taka fram eða leiðrétta, er það, að í Noregi er það þannig lagað, að það er 70 km hraði fyrir bifreiðar úti um landið, en hámarkshraðinn í bæjunum er 40 km. Það er rétt, hann er 40 km í bæjunum. En í Finnlandi er hann enginn, í Svíþjóð enginn og í Danmörku enginn. Við sjáum, hvert það stefnir, og í sumum þessum löndum eru vegirnir víða ekkert betri en hér, þó að þeir séu sums staðar miklu betri.

Í þriðja lagi vil ég benda á, að þó að það hafi ekki áður verið nema einn hámarkshraði í Reykjavík, þá er það eðlileg afleiðing af því, að Reykjavík er að vaxa hvað framkvæmdir snertir og er að gera nýjar og öðruvísi götur, en áður var, að það er sjálfsagt að gera ráð fyrir ákvæðum í lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurbæ og hina bæina kannske seinna meir, þó að það sé nú ekki komið neitt enn þá á það stig, að ég álíti, að það sé þörf á því að hafa nema einn hámarkshraða, hvorki á Akureyri, Siglufirði, Sauðárkróki o.s.frv., — en Reykjavík er komin með götur, þar sem ekki er ástæða til að fara langt niður fyrir hámarkshraðann og kannske ekki neitt, meðan á öðrum stöðum kemur ekki til greina annað, en að fara langt niður fyrir hann. Þar sem eru komnar tvöfaldar akbrautir, eins og eru núna á leiðinni hér og eru að koma áfram fleiri og fleiri með vaxandi framkvæmdum í bænum, þá er vitanlega sjálfsagt að leyfa annan hraða á góðu, breiðu, tvöföldu akbrautunum, sem reynt verður að leggja beint að og frá aðalumferðarstöð bæjarins, þegar hún kemur, þó að engum detti í hug að leyfa þann hámarkshraða t.d. niðri í miðbænum og á þröngum götum. Það er þess vegna bara tímans tákn, að við bætum því inn í, að hraði geti verið misjafn í bænum. Það er bara eðlileg afleiðing af þeirri þróun, sem er að verða og er komin nokkuð áleiðis hér í bænum og verður seinna meir yfirleitt. Ég er ekki í neinum vafa um það, að annaðhvort verður t.d. aðalumferðargatan í gegnum Akureyri lögð ofan við bæinn, þar sem minna þéttbýll er, ellegar hún verður gerð tvöföld, og þá kemur náttúrlega allt annar hraði á hana, en er núna, meðan hún er einföld mestalla leiðina, þó að hún sé það reyndar ekki alveg alla leiðina, o.s.frv. Þess vegna er þetta bara eðlileg þróun málanna, sem þarna kemur til greina og við komum þarna á móti með því að heimila, að í bæjunum geti verið fleiri, en einn hámarkshraði eftir því, hvað nánar verður tiltekið í lögreglusamþykktinni.