24.02.1958
Neðri deild: 55. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

18. mál, umferðarlög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram nokkrar brtt. við þetta frv. á þskj. 216.

1. brtt. mín er við 5. gr. frv. Þar segir í staflið j.: „Á útblásturspípum hreyfla skulu vera tæki, er dragi úr hávaða og reyk.“ Kunnáttumenn í þessum efnum segja mér, að þeir viti ekki um nein tæki, sem dragi úr reyk frá útblásturspípum véla, og hafa því minnzt á það, að rétt væri að fella þetta niður. Nú skýrði hv. frsm. allshn. frá því, að n. mælti með þessari till., og þarf ég ekki að hafa um hana fleiri orð.

2., 5. og 6. brtt. mín eru allar viðkomandi þeim ákvæðum frv., sem banna mönnum áfengisneyzlu við stjórn vélknúins ökutækis og að aka slíkum tækjum, ef þeir eru undir áhrifum áfengis. Brtt. mínar ganga í þá átt að þyngja refsingar fyrir brot á þessum lagafyrirmælum. Till. um þetta hef ég borið fram á tveim síðustu þingum í sérstökum frv., en þær ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu.

Í bifreiðalögunum, sem nú gilda, er bannað að neyta áfengis við bifreiðaakstur og aka bifreiðum undir áhrifum áfengis. Liggja við ýmiss konar refsingar, ef út af er brugðið. Skv. frv. eru refsingar fyrir brot á þessum ákvæðum sektir, varðhald eða fangelsi og ökuleyfissvipting. Er þetta einnig svo í gildandi lögum. En það nýmæli er í frv., sem hér liggur fyrir, að lagt er til, að ölvuðum ökumönnum verði skipt í tvo hópa eftir því, hvort vínandamagn í blóði þeirra er innan við 1.3%0 eða þar yfir. Ef vínandamagn í blóði ökumanns er 1,3%o eða meira, á að dæma hann í varðhald eða fangelsi skv. 80. gr. frv. Sé magnið hins vegar aðeins innan við 1.3%0, verður ökumaður ekki dæmdur í varðhald eða fangelsi í fyrsta skipti, sem hann verður uppvís að slíku lagabroti. Og nái vínandamagn í blóði ökumanns 1.3%0, á að svipta hann akstursréttindum eigi skemur en eitt ár skv. 81. gr. frv. En sé vínandamagníð innan við 1.3%0, má sleppa ökuleyfissviptingu, ef sérstakar málsbætur eru, en að öðrum kosti skal ökumaðurinn sviptur leyfinu í eigi skemmri tíma en einn mánuð. Ég vil vekja athygli á því, að í gildandi lögum á ökuleyfissviptingin ekki að vera skemmri tíma en 3 mán., svo að þarna er um minni refsingu að ræða, en er í lögunum.

Ég tel þá flokkaskiptingu á ölvuðum ökumönnum, sem hér er stefnt að, ákaflega varhugaverða. Mér sýnist, að með þessu sé verið að gefa mönnum undir fótinn með það, að ekki sé svo mjög hættulegt fyrir þá að stýra ökutæki, þó að þeir hafi neytt víns, ef víndrykkjan hafi verið í hófi og ekki teknir of stórir skammtar. Gæti þetta hæglega leitt til þess, að menn ályktuðu sem svo, að smár skammtur af áfengi mundi ekki saka, þó að þeir stýrðu síðan bifreið sinni, t.d. heim úr samkvæmi. Ef þeir aðeins gættu þess að fara ekki yfir það mark, sem greint er í lögunum, væru þeir ekki í stórri hættu. Þó að svo vildi til, að lögregla yrði á vegi þeirra og skipti sér eitthvað af ferðalaginu, mætti e.t.v. vænta þess, að það yrðu taldar sérstakar málsbætur, eins og í frv. segir, ef þeir hefðu komizt hjá að valda tjóni í það skiptið. Það er alkunna, að svo er um marga, sem neyta áfengis, að dómgreind þeirra sljóvgast nokkuð fljótlega, þó að drykkjan sé ekki mikil, og telja þeir sig þá stundum færari til aksturs, en þeir eru í raun og veru. Það er ekki heldur auðvelt fyrir menn að gera sér grein fyrir því, hvenær þeir eru komnir að landamerkjalínunni, sem dregin er í frv.

Er ekki með þessu ákvæði í frv. verið að búa til fallgryfju, sem gæti orðið hættuleg ýmsum bifreiðastjórum, sem stundum hafa áfengi um hönd? Ég tel nokkra ástæðu til að óttast það.

Það er till. mín, að umrædd flokkun ölvaðra ökumanna verði felld úr frv. Jafnframt legg ég til í brtt. mínum, eins og ég hef gert á síðustu tveim þingum, að maður, sem ekur vélknúnu tæki undir áhrifum áfengis, skuli að fullu sviptur ökuleyfi. Með því eru dregnar hreinar línur, og það mun reynast affarasælast. Engum er óréttur gerður með því. Sé þetta lögfest, má öllum vera ljóst, að neyti þeir áfengis og séu ölvaðir við akstur, hafa þeir fyrirgert rétti sínum til þess að hafa ökuleyfi. Telji þeir sér mikils virði að halda ökumannsréttindum, munu þeir forðast að brjóta lagafyrirmælin um þetta efni.

Áfengisdrykkja og ökumennska fara ákaflega illa saman. Mörg dauðaslys hafa orðið hér á landi og limlestingar á fólk vegna ölvunar ökumanna. Þar að auki er svo allt fjármunatjónið, sem af ölvun ökumanna hefur hlotizt. Hiklaus svipting ökuleyfa fyrir akstur undir áhrifum áfengis er vafalaust áhrifamesta aðferðin til að fækka þeim afbrotum til mikilla muna. Það er í 2., 5, og 6. brtt. minni.

Eins og ég sagði áður, er bannað í núgildandi lögum að stjórna bifreið, ef maður er undir áhrifum áfengis. Hv. frsm. allshn. gaf þær upplýsingar, að menn séu nú ekki dæmdir fyrir brot á þessu banni, ef áfengismagn í blóði þeirra er minna en 0.8%0. M.ö.o.: þeir embættismenn, sem eiga að halda uppí lögunum, virðast lita svo á, að maður sé ekki undir áhrifum áfengis, ef vinandamagnið í blóðinu er fyrir neðan þetta, En í frv., sem hér liggur fyrir, er því slegið föstu, að maður, sem hefur 0.6%0 vínandamagn í blóðinu, skuli teljast undir áfengisáhrifum. Hér kemur fram ósamræmi. Þetta hvort tveggja fær ekki staðizt. Og þetta er undarlegra fyrir það, að meðal höfunda frv. eru lögreglustjórar, sem hafa farið með framkvæmd bifreiðalaganna að undanförnu, og ætti þeim að vera manna bezt kunnugt um það, hvernig þau hafa verið túlkuð. Sé það rétt, sem í frv. segir, og í samræmi við niðurstöður rannsókna, að maður með O.6%0 vinandamagn í blóði sé undir áfengisáhrifum, en ökumenn með 0.8%0 vinandamagn í blóði séu nú ekki sakfelldir, þá er framkvæmd laganna ekki eins og hún á að vera, og þyrfti þar um að bæta. Ég skal taka það fram, að ef rétt þætti að setja ákvæði um vinandamagnið í lög, þá hefði ég sízt á móti því, og mætti þá koma því inn í frv., ef fallizt verður á mína till.

Það mun oft koma fyrir, að ökumenn, sem hafa átt hlut að umferðarslysi, hverfa af slysstað, áður en löggæzlumenn koma á staðinn til þess að rannsaka málið, en finnast nokkru síðar undir áfengisáhrifum. Þegar slíkt kemur fyrir, halda ökumenn því fram, að þeir hafi ekki neytt áfengis fyrr, en eftir að akstri lauk, og er þá oft ógerlegt að sanna, að ökumaður hafi verið ölvaður, þegar hann átti þátt í slysinu, þó að svo hafi verið. Ekki er ástæða til að ætla, að menn hlaupi í felur á þennan hátt, nema þeir viti sig seka um að hafa verið undir áhrifum áfengis við aksturinn. Það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir, að menn geti sloppið frá sök á þennan hátt og látið aðra bera tjón, sem ætti að lenda á þeim sjálfum. Í því skyni er till. mín í staflið f. í 2. brtt. borin fram. Þar er lagt til, að ef ökumaður hverfur af vettvangi, eftir að hann hefur átt hlut að umferðarslysi, og náist skömmu síðar með áfengisáhrifum, skuli talið, að hann hafi verið undir þeim áhrifum við aksturinn.

Ég skal benda á það, að till. alveg samhljóða þessari var flutt á þinginu í fyrra af hv. allshn. í Ed., en var þá ekki samþ. þar í þeirri deild.

6. kafli frv. er um fébótaábyrgð og vátryggingu. Þar segir í 70. gr., að eiganda ökutækis sé skylt að kaupa vátryggingu fyrir ökutæki sitt hjá viðurkenndu vátryggingarfélagi og halda tryggingunni við. Slíkt ákvæði er nú í lögum. Og í 73. gr. segir, að hafi vátryggingarfélag greitt bætur, eigi það endurkröfurétt á hendur hverjum þeim, sem valdið hefur slysi eða tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Þetta er nú einnig í lögum. Samkvæmt 76. gr. frv. á sérstök n. að fjalla um slík mál og ákveða, hvort endurkröfurétti skuli beitt eða ekki. Í 3. brtt. minni á þskj. 216 er lagt til, að 73 gr. frv. verði orðuð um og í hana verði sett nýtt ákvæði um, að vátryggingarfélag skuli ávallt, þegar það þarf að greiða tjónbætur, endurkrefja þann, er tjóninu hefur valdið, um dálitla fjárupphæð. Er lagt til, að endurkrafan skuli vera 500 kr., ef bótaupphæðin er 500–1000 kr., en 1000 kr. af hverri bótagreiðslu, sem nemur hærri fjárhæð.

Hér á landi er mikill fjöldi bifreiða, en umferðarmenningin er ekki komin á svo hátt stig sem æskilegt væri, og er langt frá því. Slys eru því tíð, og fjármunatjón vegna bifreiðaárekstra er mjög mikið. Árið 1956 þurftu tryggingarfélögin að borga 201/2 millj. kr. í bætur vegna tjóna, sem bifreiðar höfðu valdið. Miklar skaðabætur fyrir bifreiðatjón koma fram í háum tryggingariðgjöldum, sem bifreiðaeigendur þurfa að borga. Og í raun og veru leggjast þessi tjón á almenning í landinu, því að há tryggingargjöld gera dýrari þá þjónustu, sem flutninga- og farartækin veita.

Því miður en þeir ökumenn allt of margir, sem fara ógætilega. Þeir ryðjast um fast og þjösnast áfram án þess að taka nægilegt tillit til annarra vegfarenda. Af þessu stafa mörg slysin og tjónin. Þegar menn valda bifreiðaárekstrum, sleppa þeir oft með það eitt að tilkynna vátryggingarfélaginu, sem þeir skipta við, að þeir hafi valdið tjóni. Félagið verður þá að borga brúsann, en þeir sjálfir sleppa við öll bein fjárútlát í því sambandi. Ef menn væru hins vegar látnir borga eitthvað sjálfir, þegar þeir valda tjóni, eins og till. mín fjallar um, þá mundi það alveg vafalaust verða til þess, að þeir færu gætilegar. Árekstrunum mundi fækka og tjónin minnka.

Eins og áður segir, er till. mín um það, að sá, er tjóni veldur, sé hverju sinni krafinn um 500 eða 1000 kr. af bótagreiðslunni eftir því, hvað hún er mikil. Þó að þetta séu ekki stórar fjárhæðir, vilja menn gjarnan vera lausir við að borga þær, og árekstrunum mundi fækka. En það er skylt að reyna með öllum nothæfum ráðum að fækka umferðarslysunum og draga úr því gífurlega tjóni, sem þau valda.

Hv. frsm. allshn. vitnaði hér til ummæla umferðarlaganefndarinnar viðkomandi þessu atriði. En ég fæ ekki séð, að sú umsögn n., sem hann hér vitnaði til, eigi á neinn hátt við brtt. mína um þetta efni. Mér skilst, að umsögn n. hafi verið um einhverja till., sem hefur komið fram um það, að þeir, sem fyrir tjóni verða, ættu sjálfir að krefja einhvern hluta af því inn hjá þeim, sem tjóninu olli. Þetta er ekki till. mín, Vátryggingarfélögin borga þeim, sem fyrir tjóni verður, eins og áður allt hans tjón, en það, sem ég legg til, er, að vátryggingarfélögunum sé skylt að endurkrefja þann, sem tjóninu hefur valdið, um þessar tilteknu fjárhæðir. Erfiðleikar við innheimtu, ef einhverjir eru, lenda því á vátryggingarfélögunum, en ekki öðrum, og ætti þeim raunar að vera í lófa lagið að ná inn þessum upphæðum, um leið og þau fá aðrar greiðslur, sem vátryggjendur þurfa þangað að greiða. Menn eiga eftir sem áður aðgang að vátryggingarfélögunum með greiðslu á þeim tjónum, sem þeir verða fyrir, og engin áhætta þannig lögð á bifreiðaeigendur í þessu sambandi, þá sem fyrir tjóni verða, Það eru aðeins þeir, sem tjóni valda, sem eiga að endurgreiða vátryggingarfélögunum þessar tiltölulega litlu fjárhæðir. Og ég er ekki í neinum vafa um það, eins og ég hef áður sagt, að þó að ekki sé lengra farið á þessari braut, en ég legg til, þá mundi það verða til þess, að menn færu gætilegar. Og ég hefði nú viljað beina því til hv. frsm. n., hvort hann vildi ekki eða n. taka þetta atriði til nánari athugunar.

Ég hef hér rætt um 3. brtt. mína, en sú 4. er afleiðing af henni.

Í 81. gr. frv. er heimild fyrir dómsmrh. til þess að veita manni, sem hefur verið sviptur ökuleyfi um lengri tíma en 3 ár, leyfið á ný með vissum skilyrðum. Síðasta brtt. mín á þskj. 216 er um það, að slíka endurreisn megi aðeins veita manni í eitt skipti.