14.04.1958
Neðri deild: 77. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

95. mál, sala jarða í opinberri eigu

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Á þskj. 331 hef ég flutt brtt. við brtt. á þskj. 299, þess efnis, að heimilað verði að selja Óskari Hjartarsyni bónda á Grjóteyri í Andakílshreppi jörðina Skógarkot í sama hreppi.

Mál þetta hefur komið fram áður á þingi, en ekki fengið afgreiðslu. Til skýringar í sem fæstum orðum get ég — með leyfi hæstv. forseta lesið nokkur orð úr meðmælabréfi landnámsstjóra. Hann segir svo:

„Skógarkotsland er á þrjá vegu aðliggjandi Grjóteyrarlandi ofan þjóðvegs. Land þetta er ekki hæft til að vera í sjálfstæðri ábúð. Verulegur hluti af landinu er blásið, gróðurlitið, þó að telja megi það vel nothæft beitiland. Þar sem Hvanneyri vart mun nota landið sem beitiland fyrir eigin búfénað, sé ég ekki, að neitt mæli gegn því, að orðið sé við óskum eiganda Grjóteyrar um, að hann fái heimild til að kaupa landið.“

Staðhættir eru þannig, að það er ekki líklegt, að aðrir en ábúendur Grjóteyrar geti hagnýtt þetta land. því mæla augljósar röksemdir með því, að sá bóndi fái að kaupa jörðina. Jarðeignadeild ríkisins hefur einnig mælt með því, að svo verði gert. Hins vegar hefur skólastjóri bændaskólans á Hvanneyri ekki viljað mæla með sölunni, og hygg ég, að það sé honum meira tilfinningamál, en nokkuð annað að láta ekki jörð ganga undan Hvanneyri, en röksemdirnar, sem bæði jarðeignadeild ríkisins og landnámsstjóri hafa séð og benda á, eru þær, að Hvanneyri muni ekki geta notað þetta land, sé mjög ólíkleg til þess, en hins vegar mundu bændur á Grjóteyri geta hagnýtt það, enda lega landsins slík.

Þess vegna vil ég vænta þess, að hv. alþm. sjái sér fært að samþ. þessa brtt.