14.04.1958
Neðri deild: 77. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

95. mál, sala jarða í opinberri eigu

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Á þskj. 354 flyt ég ásamt hv. 10. landsk. þm. brtt. við brtt. á þskj. 299 um heimild fyrir hæstv. ríkisstj. að selja tvær eyðijarðir í Snæfellsnessýslu.

Önnur þessara eyðijarða er Hrafnkelsstaðir í Eyrarsveit, sem hafa verið í eyði síðan fyrir aldamót. Hreppsnefnd Eyrarsveitar hefur óskað eftir að fá eignarrétt á þessari jörð, aðallega með það fyrir augum að nota land hennar, sem mest er fjalllendi, sem afréttarland fyrir sveitina. Mér virðist öll sanngirni mæla með því, að Eyrarsveit fái jörð þessa til eignar.

Hin jörðin er eyðieyjan Kiðey, sem Þorvarður Einarsson bóndi á Bakka við Stykkishólm hefur haft til ábúðar undanfarin ár. Hreppsnefnd Stykkishólmshrepps mælir eindregið með því, að Þorvarður fái þessa ábýlisjörð sína keypta, og virðist fátt mæla gegn því, að svo verði.

Gerum við flm. ráð fyrir í till. okkar, að söluverð jarðanna skuli ákveðið af dómkvöddum mönnum. Vænti ég þess, að hv. þingmenn geti verið okkur sammála um það, að þessar jarðir verði seldar, eins og brtt. okkar fjallar um.