28.03.1958
Neðri deild: 74. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

160. mál, afstaða til óskilgetinna barna

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í frv. stendur, að lögin taki þegar gildi, og það er enginn fyrirvari gerður um það, að það taki ekki til barna, sem fyrr eru fædd. Að öðru leyti er það algerlega eftir venjulegum lögskýringarreglum að mati dómstólanna, í hvaða réttarsamböndum þetta frv. verður talið gilda, ef að lögum verður, og í hvaða tilfelli eldri lög yrðu talin gilda. Ég segi eins og er, að ég er ekki reiðubúinn til þess að svara því til hlítar, en fyrir fram sýnist mér, að lögin geti alveg eins tekið til þeirra barna, sem fædd eru áður, eins og þeirra, sem fædd eru héðan í frá, ef þetta verður að lögum.