14.04.1958
Neðri deild: 77. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

162. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Landbn. flytur frv. þetta eftir beiðni stjórnar Búnaðarfélags Íslands.

Á undanförnum árum hefur verið um nokkurn útflutning hrossa að ræða, og hefur þá jafnan hrossaræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands séð um útflutninginn og annazt sölu hrossanna í samráði við atvmrn., og 1. gr. þessa frv. felur í sér að löggilda þann hátt, sem hefur verið hafður í þessum efnum á undanförnum árum, en yfirleitt miðar frv. þetta að því að rýmka nokkuð til um útflutning hrossa frá því, sem nú gildir í lögum.

Það hefur t.d. ekki verið leyfilegt að flytja út eldri en 10 vetra hross, en í frv. er gert ráð fyrir, að þau megi vera allt að 12 vetra gömul. Enn fremur er samkvæmt þessu frv. óheimilt að flytja út kynbótahross nema með sérstöku leyfi frá atvmrn. og meðmælum frá Búnaðarfélagi Íslands. Sama máli gildir, ef um útflutning yngri hrossa, en þriggja vetra er að ræða.

Þá þykir nú ekki ástæða til að binda útflutning hrossa eingöngu við mánuðina júní til október, og er samkvæmt frv. þessu gert ráð fyrir, að það megi flytja þau út á tímabilinu frá 1. júní til 15. des. ár hvert, en sé um útflutning að ræða á öðrum tímum árs, þarf til þess sérstakt leyfi frá atvmrn. og meðmæli frá Búnaðarfélagi Íslands. Að því er kunnugir telja, þá eru skipin, sem flytja hestana út, nú betur útbúin að öllu leyti en áður var og því betri líðan þeirra á sjónum.

Í frv. er enn fremur gert ráð fyrir, að eingöngu dýralæknar skoði útflutningshrossin, enda þarf heilbrigðisvottorð til, svo að innflutningurinn í hlutaðeigandi löndum sé lögum samkvæmur.

Þá er gerð sú breyting á í frv. þessu, að flytja megi út glaseygð hross, en það hefur verið bannað til þessa.

Þá er loks gert ráð fyrir, að samin verði ný reglugerð varðandi útflutning hrossa, enda munu þær reglur, sem um þetta gilda, vera orðnar nokkuð gamlar, en atvmrn. setur reglugerðina, að fengnum till. frá Búnaðarfélagi Íslands, yfirdýralækni og Dýraverndunarfélagi Íslands.

Sektarákvæði eru nokkuð hækkuð í frv. þessu frá gildandi lögum, enda hefur verðgildi peninga nokkuð breytzt, frá því að lögin um útflutning hrossa öðluðust gildi.

Í sambandi við frv. þetta vil ég geta þess, að mikil eftirspurn er eftir íslenzkum hestum, ekki einungis í Þýzkalandi, heldur einnig í Austurríki, Belgíu, Hollandi, Sviss, Frakklandi og fleiri löndum.

Frá því að þarfasti þjónninn okkar, hesturinn, var aðallega notaður við heimilisstörfin og til að færa björg í bú, hafa orðið stórfelldar breytingar á sviði tækninnar, og nú leysa bílar og dráttarvélar af hendi aðalstarf hestsins, sem áður var. En enn þá er íslenzki hesturinn yndi þeirra, sem eiga hann, og margir Íslendingar nota hann sér til ánægju og aðrir til gagns og gamans.

Áður fyrr var talsvert flutt út af íslenzkum hestum, og þóttu þeir hentugir og góðir í kolanámum og við smábú erlendis. Nú bíða þeirra ekki dimmar kolagryfjur, því að þar er véltæknin komin sem víðar, en aftur á móti bíður fjöldi fólks eftir að eignast skemmtilegan og góðan félaga, þar sem íslenzki hesturinn er, því að hann hefur kynnt sig vel, og allir þeir, sem geta, vilja eignast hann og nota sem sporthest.

Ég vænti því þess, að hv. alþm. ljái þessu máli lið sitt hér á þingi og greiði fyrir því, að rýmkað verði nokkuð til um útflutning hrossa frá því, sem verið hefur.

Svo óska ég eftir, að þetta mál verði látið ganga áfram til 2. umræðu.