27.02.1958
Efri deild: 57. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

134. mál, sveitastjórnarkosningar

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Á það hefur oft verið bent áður, að óheppilegt væri, að kosningar færu fram til sveitar- og bæjarstjórna í þessu norðlæga landi um hávetur. Í sambandi við þær ábendingar hafa m. a, verið fluttar brtt. við kosningalög um það, að heimilt skyldi að láta kosningu standa í tvo daga, ef veðurfari væri þannig háttað á kjördag, að kosning gæti trauðla farið fram. Till. í þessa átt var flutt síðast hér á hv. Alþ. fyrir rúmum tveimur mánuðum, þegar rætt var um breytingar, sem þá voru gerðar á kosningalögum skv. till. frá hæstv. núverandi ríkisstj. En þessar till. voru þá felldar. Nú er hins vegar komið fram frv. frá hv. þm. Ak., þar sem lagt er til, að breytt verði kosningatíma í bæjar- og sveitarstjórnarkosningum og kjördagur hafður jafnframt einn og hinn sami um land allt í kaupstöðum, kauptúnum og sveitum. Leggur hv. þm. til, að hinn sameiginlegi kjördagur fyrir allt landið við bæjar- og sveitarstjórnarkosningar skuli verða síðasta sunnudag í maímánuði.

Það er mín skoðun, að með þessu frv. sé tvímælalaust stefnt í rétta átt. Það mæla fá haldgóð rök með því, að eðlilegt sé, að bæjar- og sveitarstjórnarkosningar fari endilega fram að vetrarlagi, þegar allra veðra er von, ekki sízt þegar reynslan hefur sannað það, að jafnvel í þéttbýli, jafnvel í einstökum kauptúnum hefur það hent, að kosning hefur farizt fyrir vegna óveðurs. Þetta henti síðast í sveitarstjórnarkosningunum, sem fóru fram 26. jan. s.l. Þá fórst kosning fyrir á Skagaströnd hreinlega vegna ofviðris, og á nokkrum stöðum á Norðurlandi og Vestfjörðum dró úr kjörsókn allverulega vegna veðurfars. Það er því tvímælalaust skynsamlegt að breyta um kjördag við slíkar kosningar, og það er enn fremur rétt að mínu viti að hafa kjördaginn einn og hinn sama fyrir sveitir og kaupstaði og kauptún.

Ég er hins vegar ekki sammála hv. flm. um það, að maímánuður sé heppilegasti tíminn fyrir slíkar kosningar. Ég hygg, að síðasti sunnudagur í maímánuði sé heldur snemma fyrir sveitirnar, og mundi því telja eðlilegra, úr því að breyting er á annað borð gerð á kjörtíma við bæjar- og sveitarstjórnarkosningar, að kjördagurinn verði færður fram í júní, hvort sem það yrði síðasti sunnudagur í júní eða t.d. sunnudagur um miðjan júnímánuð.

Hv. flm. óttaðist nokkuð árekstra við alþingiskosningar, ef ákveðið væri, að sveitarstjórnarkosningar skyldu fara fram í júní, þar sem reglulegar alþingiskosningar eiga að fara fram síðasta sunnudag í júnímánuði. Ég er ekki eins hræddur við þennan árekstur og hann, og það má á það benda í því sambandi, að í sveitum landsins hafa iðulega farið fram hreppsnefndarkosningar jafnhliða alþingiskosningum, beinlínis sama daginn, og það þótt gefast vel. Hins vegar má segja, að í kaupstöðum landsins og raunar í sveitunum líka sé nokkuð önnur afstaða fólks í bæjar- og sveitarstjórnarkosningum heldur en í alþingiskosningum, og hætt er við því, að þessar kosningar yrðu pólitískari á landsmálavísu, ef þær færu fram sama dag og alþingiskosningar. Í þessu felst þó engin raunveruleg hætta. Allt stefnir í þá átt, að fólkið velji sér héraðsstjórnir eftir flokkspólitískum línum. Má þó deila um, hvort það sé heppileg þróun, því að vitanlega eiga persónuleg og staðarleg málefni fullan rétt á sér í slíkum kosningum, og getur verið eðlilegt, að þær séu minna pólitískar, heldur en þær kosningar, sem fram fara til Alþingis.

Loks má á það benda, að engan veginn virðist útilokað að láta alþingiskosningar fara fram í öðrum mánuði, t.d. í júlímánuði eða septembermánuði. Mér er næst að halda, að októbermánuður sé nokkuð seint. Veður hafa þá oft spillzt, þó að kosningar hafi að vísu nokkrum sinnum farið fram með góðum árangri og vandræðalaust veðurs vegna í þeim mánuði.

En í stuttu máli sagt, þá tel ég, að þetta frv. stefni í rétta átt, en álit það vera verkefni þeirrar hv. n., sem það fær til athugunar, að rannsaka ýtarlega, hvort ekki mundi skynsamlegra að ákveða kjördaginn í júní.

Að lokum vildi ég minnast á það atriði, án þess að slá fram neinni ákveðinni till. um það, hvort ekki mundi skynsamlegra að láta bæjar- og sveitarstjórnarkosningar fara fram t.d. fimmta hvert eða sjötta hvert ár í staðinn fyrir fjórða hvert ár. Mér og ýmsum öðrum lýðræðissinnum hefur oft fundizt sem tíðar kosningar stefndu áhuga fólksins og þar með grundveili lýðræðisskipulagsins í nokkra hættu. Og við vitum, að í þeim löndum, þar sem lýðræðið hefur átt erfiðast uppdráttar, hafa kosningar verið mjög tíðar, og þar hefur sá sannleikur blasað við, að undanfari þess, að það er hætt að kjósa, eru mjög tíðar kosningar.

Ég held þess vegna, að það sé fyllilega til athugunar hér í okkar landi, þó að við trúum því, að okkar lýðræðisskipulag standi í dag traustum fótum, að lengja kjörtímabil bæjar- og sveitarstjórna a.m.k. um 1–2 ár, kjósa fimmta eða sjötta hvert ár.

Ég er raunar þeirrar skoðunar, að það mundi skapa aukna festu í stjórnarfari okkar og beinlínis bæta það, ef kjörtímabil Alþingis væri 5 ár, eins og það er í því landi heimsins, þar sem þingræðið og lýðræðið stendur traustustum fótum, nefnilega Bretlandi. En það atriði liggur ekki fyrir til umræðu hér. Ég vildi þó í sambandi við þetta mál brjóta upp á því, hvort ekki mundi á næstunni skynsamlegt að lengja kjörtímabil bæjar- og sveitarstjórna nokkuð. Ég held, að einnig þar gæti slík lenging kjörtímabilsins skapað meiri ró og festu um framkvæmd þeirra mála, sem héraðsstjórnir fjalla um.