21.04.1958
Efri deild: 81. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

172. mál, aðstoð við vangefið fólk

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég tel alveg ástæðulaust að ræða frekar um málið við 1. umr. Hv. 1. flm. hefur fyrir hönd þeirra flm. gert rækilega og skilmerkilega grein fyrir efni frv. og nauðsyn lagasetningar um þetta efni. Ég skal aðeins skýra frá því, að þeir menn, sem störfuðu að undirbúningi stofnunar þess félagsskapar, sem nú hyggst fara að vinna fyrir málstað vangefinna barna og ungmenna hér á landi, höfðu fyllsta samráð við félmrn. með þau undirbúningsstörf og einnig eftir að félagið var stofnað og hugmyndin kom fram um að fá með lögum ákveðinn fjárstofn til handa þessum félagsskap að starfa með að sínum áhugamálum. Það var sem sé haft samráð við félmrn, um þetta, og mér er kunnugt um, að það var einnig haft samráð við fjmrn. um þá fjáröflunarleið, sem þarna var hugsað að fara, og hversu hátt gjaldið skyldi vera,

Ég taldi ekki heppilegt, að þetta mál væri flutt sem stjfrv., því að ég lagði áherzlu á, að það væri leitað eftir því, að allir flokkar þingsins stæðu að málinu. Ég taldi, að fremur gæti hugsazt, að litið væri á þetta sem sérmál stjórnarflokkanna, ef það væri flutt sem stjfrv., og varð þá að ráði að fara þá leið, sem farin var um flutning málsins, að leita til þingmanna í öllum flokkum um flutning þess, og hefur svo gæfusamlega til tekizt, að menn hafa tekið málið að sér einmitt á þann veg, að það standa að því flm. úr öllum flokkum. Ég vil því vænta þess, að málið verði ekki ágreiningsmál. Það er stutt af ríkisstj., og ég mæli hið bezta með framgangi málsins og vona, að það gangi sem greiðlegast í gegnum þingið.