05.05.1958
Efri deild: 88. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

172. mál, aðstoð við vangefið fólk

Frsm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Eftir 2. umr. um þetta mál var mér bent á það af einum hv. þm., að ekki væri úr vegi að gera ráð fyrir, að einkafélagsskapur eins og Styrktarfélag vangefinna gæti átt takmarkaða lífdaga og yrði máske lagt niður og þá væri spurning: Hvað á að gera við það fé, sem fæst inn samkv. frv. þessu, ef að lögum verður? Hann benti mér á, þessi hv. þm., að rétt væri að gera ráð fyrir þessu í lögunum, þótt þetta væri nú kannske ekki líklegt um þennan félagsskap.

Ég vil gjarnan verða við þessu, tel það ekki nema til öryggis, og vil leyfa mér að bera hér fram skriflega till. um þetta efni, en hún hljóðar svo:

Á eftir 4. gr. komi ný grein, svo hljóðandi: „Nú verður Styrktarfélag vangefinna lagt niður, og skal þá gjald það, sem um ræðir í 1. gr., renna í sérstakan sjóð, er fjármálaráðuneytið varðveitir, en eigi má velta fé úr honum til annarra þarfa en þeirra, er um getur í 4. gr.

Ég vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir till., þannig að hún geti orðið borin upp.