14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

35. mál, útsvör

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Á það hefur verið lögð áherzla í þessu sambandi, að heimilt sé að bera þessa brtt. upp, vegna þess að hún fjalli ekki um atriði, sem hafi verið fellt. Það er rétt, svo langt sem það nær. Hins vegar er ekki hægt að ganga á snið við það, að ákvæðið hefur verið fellt niður úr greininni, svo að þarna er um að ræða bitamun, en ekki fjár. Í sjálfri brtt., sem samþ. var við síðustu umr, í hv. þingdeild í þessu máli, stendur: „2. málsliður 26. gr. l. fellur niður.“ Og hver er þá munurinn á því, að till. hafi verið felld eða hún hafi verið felld niður? Hitt er rétt hjá hæstv. forseta, að það hefur komið fyrir, að slíkar brtt., sem svipað hefur staðið á um, hafa verið bornar upp, og ég gæti ekki áfellst hæstv. forseta, a.m.k. ekki harðlega, fyrir að neita að taka til greina kröfu um, að brtt. skuli ekki borin upp. Hins vegar er það rétt, sem hv. þm. V-Sk. og hv. þm. Vestm. hafa bent á, að það er algerlega gegn anda þingskapalaganna, því að það sjá menn greinilegast á því, þegar menn bera saman bara þetta tvennt, muninn á því að fella brtt. um ákveðið atriði og að fella niður ákvæði, sem er í frv. Munurinn er svo að segja enginn. En annars er það auðvitað einfaldast fyrir hv. þingdeild að taka afstöðu til þessa hæpna atriðis í atkvgr. um afbrigði um till., hvort sem till. er borin fram eins og hv. þingmaður lýsti henni upprunalega eða hún er borin fram eins og hann er búinn að breyta henni.