29.05.1958
Neðri deild: 108. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

150. mál, atvinna við siglingar

Ásgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 578 að bera fram brtt.: Í fyrsta lagi við 4. gr., að a-liður orðist svo: „hefur siglt sem undirvélstjóri á mótorskipum með yfir 100 hestafla vél í 24 mánuði eða sem vélstjóri á eigin spýtur á mótorskipi yfir 12 smálestir í 24 mánuði.“ Í öðru lagi við 6. gr., að a-liður orðist svo: „hefur staðizt próf frá yngri deild vélskólans í Reykjavík eða staðizt hið minna mótorvélstjórapróf Fiskifélags Íslands.“

Í sambandi við fyrri till. vil ég benda á, að þar er farið fram á þá breytingu, að sett sé inn í frv., að maðurinn skuli hafa stundað vélgæzlu á 12 smálesta skipi í 24 mánuði. Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt, þá er skráð á öll skip yfir 12 smálestir, en ekki undir 12 smálestum, enda þótt þau séu á skipaskrá, og þar af leiðandi er þetta fyrsta skilyrðið til þess, að maður geti sannað á lögmætan hátt siglingatíma sinn, að hann hafi verið skráður á skip. Það virðist því öll sanngirni mæla með því, að þetta verði tekið inn í frv. og sú breyting á því gerð.

Í öðru lagi er það, að próf frá yngri deild vélskólans í Reykjavík verði tekin til jafns í þessu tilfelli og 6 mánaða námskeið hjá Fiskifélagi Íslands, en eins og allir hv. alþm. vita, þá er það nú þannig með þetta mál enn þá og þessi lög, að þeir, sem hafa gengið í gegnum fyrsta bekk eða tekið hið minnsta próf vélstjóra við vélskólann í Reykjavík og verið 4 ár í smiðju, þeir hafa ekki sama rétt og þeir, sem hafa verið í 6 mánuði á námskeiðum hjá Fiskifélagi Íslands, og það virðist öll sanngirni mæla með því, að 5 ára nám sé tekið til jafns við 6 mánaða námskeið hjá Fiskifélaginu. Og það er alveg gefinn hlutur, að þetta yrði náttúrlega eitt af meginskilyrðunum til þess að útiloka þær leiðu undanþágur, sem um hefur verið talað í sambandi við málið, að þarna fengju 40–50 menn réttindi til þess að verða vélstjórar á skipum allt að 900 hestöflum. Það er rétt, að það er mikill hörgull á mönnum oft og tíðum á skip með vélum af þessari stærð, og það hefur m. a. verið vegna þess, að þessir menn hafa ekki haft réttindi til þess að gæta slíkra véla, en úr þessu mætti bæta á þennan hátt að dómi margra kunnugra manna.

Það má og geta þess, að það er ekki aðalatriðið í sambandi við þessi mál að vera að veita aukin réttindi fyrir litla menntun eða enga aukna þekkingu í vélfræðinni, heldur hitt, að reyna að samræma vélkennsluna yfirleitt. Það var hugsjón þeirra manna, sem fyrir þessu börðust í upphafi, að frv. yrði breytt, að auka þannig á þekkingu manna og samræma hana, svo að allir mættu vel við una, með því að láta hið meira vélapróf við mótordeild Fiskifélags Íslands fara fram undir yfirstjórn vélskólans í stað þess að binda það við Fiskifélagið, eins og áður hefur verið. Þá má enn fremur geta þess, að nú á síðustu 2–3 árum hafa þessi námskeið verið sótt mjög slælega. Það hafa verið 4 eða 5 menn annan veturinn og 3 annan á þessu námskeiði hjá Fiskifélaginu, þ. e. meiraprófsnámskeiðinu, en kennararnir eru, eins og allir vita, 6, svo að það er náttúrlega engin hagfræði í því að starfrækja þetta námskeið á þennan hátt, eins og verið hefur, heldur væri hitt heppilegra og eðlilegra, að það væri allt saman undir sömu stjórn og vélskólinn. Það er því einlæg ósk allra þeirra sem um þessi mál hafa mest hugsað og talað, og það eru þeir, sem eiga við þetta að búa, vélstjórarnir í Vélstjórafélagi Íslands og mótorvélstjórarnir í Mótorvélstjórafélagi Íslands, að það verði sem fyrst gengið í að endurskoða eða samræma þessar skoðanir manna og sjónarmið og fyrir næsta Alþ. verði lagt fram frv. um það, að því verði breytt þannig, að það komi í framtíðinni til þess að láta gott af sér leiða í sambandi við vélskólann. Þeir hafa sagt einnig, að þeir gætu hugsað sér, að það væri ekki óeðlilegt, að hin minni mótornámskeið væru áfram undir stjórn og rekin af Fiskifélagi Íslands, en hins vegar hið meira námskeið væri samræmt við vélskólann, og það er trú þeirra, eins og ég sagði áðan, að með því megi í náinni framtíð og um langan tíma útiloka þær hvimleiðu undanþágur, sem hér er verið að berjast við, með því að veita þessi auknu fríðindi, sem farið er fram á í frv. og margir telja að hefði átt að gera með því að samræma kennsluna fyrr.