14.03.1958
Efri deild: 67. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (1643)

138. mál, dýralæknar

Frsm. minni hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Landbn. varð ekki sammála um þetta mál. Tveir nm. lögðu til, að frv. yrði samþ. óbreytt. Einn nm. var fjarstaddur, er málið var afgreitt í n., en við, sem að minnihlutaálitinu stöndum, lögðum til, að það yrði fellt.

Ég þarf ekki að fara mjög mörgum orðum um þetta fram yfir það, sem segir í nál. Sannleikurinn er sá, að hv. frsm. meiri hl., sem nú hefur nýlega lokið máli sínu, tók að talsverðu leyti af mér ómakið að halda langa framsöguræðu um þetta mál, vegna þess að ræða hans var, a. m. k. allur fyrri hl. hennar, samfelldur áróður fyrir málstað minni hlutans.

Hann vék nokkuð að þróunarsögu dýralæknamála hér á landi. Rétt er það, að upphaflega var aðeins einn dýralæknir á öllu landinu með aðsetri í Reykjavík. Með lögum frá 1915 verða dýralæknar fjórir, þ. e. einn í hverjum fjórðungi. Með lögum frá 1933 er þeim fjölgað upp í fimm. Síðan koma lög frá 12. júní 1939, sem afnema eldri lög um þetta efni og breytingar á þeim. Skv. lögum frá 1939 er landinu skipt í sex dýralæknisumdæmi, en atvmrn. ákveður takmörk þeirra. Síðan er þessum lögum aftur breytt árin 1943 og 1947, og eru þá dýralæknar orðnir átta á öllu landinu. Síðan á árinu 1947 er þessi löggjöf öll endurskoðuð og afnumin með lögum nr. 124 frá 22. des. 1947, og verða þá dýralæknar níu á öllu landinu, en jafnframt eru umdæmi þeirra afmörkuð með lögum. Síðan hefur verið gerð breyting á lögunum frá 1947, það eru lög nr. 19 frá 13. apríl 1955. Frv. það, sem þá var lagt fyrir Alþ., gerði ráð fyrir því, að bætt yrði við tveimur nýjum dýralæknum, en í meðförum þingsins var þeim þriðja bætt við, þannig að alls eru nú 12 dýralæknisumdæmi á öllu landinu.

Ég vek athygli á því, að með lögunum frá 1955 var Dalasýsluumdæmi minnkað. Það var minnkað með samþykki beggja þingdeilda, allra þm. í báðum þd., engin rödd kom þar á móti. Þetta virðist benda til þess, að hv. þingmönnum hafi þá þótt umdæmið ærið nógu viðáttumikið. Hins vegar var ekkert hreyft við Ísafjarðarumdæmi. Ég veit, að það er stórt og erfitt yfirferðar, en samt sem áður sáu hv. alþm. ekki ástæðu til að minnka það 1955, þegar þó var bætt við þrem nýjum dýralæknum á landinu. Á hinn bóginn vil ég benda á það, að í raun og veru hefur Ísafjarðarumdæmið minnkað af öðrum orsökum, nefnilega þeim, að byggð hefur lagzt í eyði á Hornströndum og Aðalvík og er orðið mjög lítil yfirleitt í Jökulfjörðum.

Hin eðlilega þróun þessara mála hefur að sjálfsögðu orðið sú, eins og hv. 1. þm. N-M. tók mjög greinilega fram, að fjölga dýralæknum. Jafnframt hljóta umdæmi þeirra að smækka. Þessi þróun heldur vafalaust áfram, einkum þegar kostur verður á nægilega mörgum sérmenntuðum mönnum á þessu sviði. Ég vil geta þess, að nú eru, að því er ég bezt veit, sex ungir menn við dýralæknanám erlendis, en aðeins eitt dýralæknisumdæmi laust á öllu landinu. Þess vegna tel ég, að frv. það, sem hér liggur fyrir, gangi í þveröfuga átt við hina eðlilegu þróun. Það miðar að því að stækka umdæmi, sem þegar var ærið nógu stórt, a. m. k. var það nógu stórt að áliti allra alþm. 1955.

Það má svo aðeins athuga, hverjum verður gagn að þessu frv., ef það verður að lögum. Ég skal játa, að það er þægilegra fyrir íbúa Austur-Barðastrandarsýslu að hafa dýralækni sem næst sér og þá væntanlega í Króksfjarðarnesi, eins og hv. flm. hefur gert ráð fyrir í grg. frv. Það vilja auðvitað allir hafa slíka embættismenn búsetta sem næst sér. En hins vegar tel ég, að það sé til óhagræðis fyrir aðra. Það eru aðeins íbúar Austur-Barðastrandarsýslu, sem kunna að njóta nokkurs hagræðis af þessu frv., ef að lögum verður, en engir aðrir. Það er vitað mál, að Dalamönnum öllum og Skógstrendingum er þessi breyting til hins mesta óhagræðis. Og þegar málið er athugað hlutlaust, kemur í ljós, að Vestur-Barðastrandarsýslu er harla lítill ávinningur að þessu frv., að mínum dómi, og ekki einungis að mínum dómi, heldur einnig að dómi yfirdýralæknis, en hans umsagnar var leitað í málinu. Hann segir svo, með leyfi forseta:

,.Sú breyting, sem hér er gert ráð fyrir, leysir því eigi erfiðleika þá, sem bændur í Vestur-Barðastrandarsýslu eiga við að etja, ef þeir þurfa að leita dýralæknis.“

Það væri hægt að ræða meira um þessa umsögn yfirdýralæknis. Að vísu vill hann vera sem hlutlausastur í álitsgerðinni sjálfri, það hefur hann tjáð mér. Á hinn bóginn veit bæði ég og hv. þm. Barð., hver afstaða hans raunverulega er. Við höfum báðir rætt við hann, að vísu ekki báðir í sama sinn, en við vitum fullvel, að hann telur þetta enga lausn á vandræðum Vestur-Barðstrendinga, alls enga.

Við verðum að líta svo á, og ég veit að það er áreiðanlega álit allra Dalamanna og Skógstrendinga, að frv. þetta, ef að lögum verður, tákni í raun og veru, að Dalamenn og Skógstrendingar séu sviptir þeim dýralækni, sem löggjöfin hefur heitið þeim allt frá árinu 1947. Þessir menn, allir íbúar Dalasýslu og Skógarstrandarhrepps, verða eftir sem áður að leita dýralæknis til Borgarness, þó að dýralæknir sitji í Króksfjarðarnesi, a. m. k. að vetrarlagi.

Ég vék að því áðan, að mér fyndist frv. þetta ganga í öfuga átt. Hefði ekki verið nær að leita ráða til þess að gera umdæmi Ísafjarðarsýslu þannig úr garði, að einhver sérmenntaður maður hefði fengizt til þess að sækja um það? En þessu var ekki að heilsa í n. Mér virtist, að þar kæmi ekki nema eitt til greina, annaðhvort að samþykkja þetta frv. eða fella það. Ég segi fyrir mig, að bæði ég og hv. 1. þm. Árn. hefðum glaðir reynt að finna málamiðlun á þann hátt að styðja dagskrártill., ef fram hefði komið í málinu, sem miðaði að því að reyna að finna raunhæfa lausn á þessum málum. Við viðurkennum vel erfiðleika Vestfirðinga á því að ná í dýralækni og vitum enn fremur, að það eru fleiri landshlutar, sem eru jafnilla settir, eins og frv. það, sem borið hefur verið fram í hv. Nd., gefur til kynna. Það hefði því vel komið til mála, að okkar dómi, að samþykkja dagskrártill. þess efnis að láta athuga gildandi löggjöf í þessu efni. En eins og málum var háttað, sáum við ekki önnur ráð, en að leggja til, að frv. yrði beinlínis fellt, og er það síður en svo, gert í þeim tilgangi að ganga á nokkurn hátt á hlut íbúa Vestur-Barðastrandarsýslu eða annarra Vestfirðinga.

Ég get þó ekki stillt mig um að geta þess hér, að Vestfirðingar hafa löngum verið sjálfum sér nógir á mörgum sviðum, og er þetta sízt sagt þeim til hnjóðs. Ég vil benda á það, að skv. skýrslu búnaðarmálastjóra til búnaðarþings er Búnaðarsamband Vestfirðinga eina sambandið á öllu landinu nú, sem enga hefur héraðsráðunauta. Þó að það sé nú í athugun, hafa Vestfirðingar bjargað sjálfum sér á þessu sviði fram til þessa dags. Og svo að við víkjum aftur að þessu máli, sem hér liggur fyrir: Samkv. upplýsingum yfirdýralæknis eru nú starfandi 4 dýralæknar á Vestfjörðum, að vísu allir ólærðir, en þó þannig, að þeir hafa sinnt dýralæknisstörfum og fá allir einhverja þóknun úr ríkissjóði fyrir sín störf.

En hvernig sem á þetta mál er litið, hefði ég mjög gjarnan viljað athuga möguleika á því t. d. að skipta Ísafjarðarumdæmi í tvennt eða gera aðra þá breytingu á högum Vestfirðinga að þessu leyti, sem þeir hefðu vel mátt við una. Það hefur og reyndin sannað, að dýralæknar hafa að sjálfsögðu mest að gera þar, sem mjólkurbú eru og mjólkursala. Í Austur-Barðastrandarsýslu er engin mjólkursala, en hins vegar er mjólkursala hafin í allri Dalasýslu og líkur til, að hún fari vaxandi og kúm fjölgi ört í héraðinu, einkum þegar Heydalsvegur verður fullgerður. Hins vegar veit ég það vel, að það er mjólkursala í Vestur-Barðastrandarsýslu, í Rauðasandshreppi.

Þeir selja eitthvað af mjólk til Patreksfjarðar. En eins og ég hef áður fram tekið, álít ég þetta frv. ekki leysa vandræði Vestur-Barðstrendinga.

Allt frá því löggjafinn gaf Dalamönnum fyrirheit um dýralækni með búsetu í héraðinu, hafa þeir haldið málinu mjög vel vakandi. Ár eftir ár hefur aðalfundur sýslunefndar Dalasýslu gert ályktanir um málið. Að minnsta kosti man ég til þess, að ályktanir voru gerðar í þessu efni árin 1953, 1954, 1956, og s. l. vor, vorið 1957, var gerð svofelld ályktun, með leyfi forseta, hún var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum:

„Sýslunefndin lýsir ánægju sinni yfir setningu laga um embættisbústaði héraðsdýralækna, en ítrekar jafnframt áskorun sína á landbrh. um að skipa dýralækni nú þegar í héraði með búsetu í Búðardal og felur oddvita sínum að fá því til leiðar komið, enda telur nefndin, að mál þetta þoli enga bið.“

Dalamenn hafa því gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá dýralækni, og við borð lá, að þeim tækist það eitt sinn. Það var Sverrir Markússon frá Ólafsdal, þá nýútskrifaður sem dýralæknir, en þá bauðst honum annað umdæmi, sem hann þá heldur, og er hann nú starfandi dýralæknir á Blönduósi. Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að mér er ekki kunnugt um nokkra hreyfingu í Barðastrandarsýslu í þessu efni. Ég hef fengið sendar nokkrar sýslufundargerðir, bæði Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu, og einnig látið athuga það fyrir mig sérstaklega, og ég hef ekki orðið var við, að sýslufundur þeirra sýslna hafi nokkru sinni gert ályktun um málið og alls engin hreyfing verið uppi í þessu efni, fyrr en núna aðeins fyrir fáum vikum, þegar íbúar Barðastrandarsýslu og hv. flm. frv. vita fullvel, að dýralæknir er að koma í Dalaumdæmið. Þetta þykir mér dálítið kynlegt og okkur fleiri Dalamönnum.

Ég skal geta þess, að það var einmitt 1. marz s. l., sem þessi nýi dýralæknir var skipaður í Dalaumdæmi, Brynjólfur Sandholt, nýútskrifaður frá Noregi. Ég vil vekja athygli á því, að það er með öllu óvíst, að hann hefði nokkru sinni sótt um þetta starf, ef þá hefði verið búið að stækka umdæmið, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Á hinn bóginn gengur hann að því vísu, að hann muni gegna að einhverju leyti dýralæknisstörfum á Vestfjörðum, svo sem aðstæður leyfa, meðan ekki fæst dýralæknir þangað, en til þess þarf enga lagabreytingu, og réttlætist þetta frv. ekki frekar af þeim sökum.

Ég vil einnig undirstrika það sérstaklega, að andstaða við frv. þetta er alls ekki sett fram hér vegna andstöðu við Barðstrendinga. Ég veit, að þeim er það áhugamál eins og fleiri Vestfirðingum að fá dýralækni sem næst sér.

Ég vil geta þess, að þetta mál er á engan hátt pólitískt. Ég hef rætt þetta við hv. þm. Dal. í Nd. og ég get sagt ykkur það, að við erum alveg sammála í þessu efni. Það er því sannfæring mín, að þó að við samþykkjum þetta frv. hér í Ed., þá verður það drepið eða svæft í Nd. Ég sé því enga ástæðu til þess að vera að vekja tálvonir hjá vinum mínum Barðstrendingum eða einhverjum þeirra með því að stuðla að því, að frv. þetta verði samþykkt í Ed.

Það mætti færa fleiri rök gegn þessu frv., svo sem þau, að Dalamenn hafa um margra ára skeið einmitt manna mest orðið að berjast við skæða búfjársjúkdóma, sem á þá hafa herjað, og þurfa að berjast enn, og væri ekki vanþörf á, að dýralæknir, ungur og velmenntaður, tæki þau mál til einhverrar athugunar. Hins vegar hafa Vestfirðingar sem betur fer algerlega sloppið við hina ásæknu búfjársjúkdóma á síðari árum,

En eins og þið hafið nú heyrt af því, sem sagt hefur verið, má þó segja, að höfuðatriðið í þessu máli sé það, að frv. gerir að okkar dómi fleiri mönnum ógagn, en gagn og gengur alveg í öfuga átt við nauðsynlega og eðlilega þróun þessara mála, sem er sú að smækka umdæmin og fjölga dýralæknunum. Af þeim ástæðum höfum við, hv. þm. Árn. og ég, lagt til, að frv. yrði fellt.