11.03.1958
Neðri deild: 64. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (1660)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Ingólfur Jónason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. A-Húnv. að flytja hér smávegis brtt. við frv. um veitingasölu og gistihúsahald. Brtt. þessar eru ekki stórvægilegar, en eru þó að okkar áliti til bóta á frv., ef þær yrðu samþ. Fyrsta brtt. er aðeins breyting á orðalagi í 5. tölulið 4. gr. Þar segir í frv.:

„Hefur ekki síðustu þrjú ár verið dæmdur til refsingar fyrir óleyfilegan innflutning, sölu eða veitingu áfengis.“

Okkur finnst fara betur á því að segja: „Hefur ekki síðastliðin þrjú ár verið dæmdur fyrir brot á áfengislögunum.“

Þetta virðist vera betra mál, en ná alveg þeim tilgangi, sem ætlazt er til með því orðalagi, sem í frv. er. Geri ég ráð fyrir, þegar hv. þm. athuga þetta, að það verði ekki ágreiningur um að samþykkja þennan lið brtt. okkar.

Þá er önnur brtt., við 5. gr. Við leggjum til, að 5. gr. verði felld niður, og það er vegna þess, að ef hún verður samþykkt, þá er ekki hægt samkvæmt lögunum að veita félagi leyfi til gistihúsahalds eða veitingasölu, nema meiri hluti stjórnarinnar, sem firmað ritar, sé íslenzkir ríkisborgarar eða uppfylli að öllu leyti skilyrði 4. gr. Það má vera, að mönnum finnist eðlilegt, að félag fái ekki réttindi til veitingasölu eða gistihúsahalds, nema þessu atriði sé fullnægt. En þegar verið er að setja lög um veitingasölu og gistihúsahald hér á landi, verður ekki hjá því komizt að gera sér einhverja grein fyrir því, hvernig við hugsum okkur að bæta úr því vandræðaástandi, sem er í landinu í gistihúsa- og veitingamálum.

Ég hygg, að allir séu sammála um, að það vanti hér í landi gistihús, til þess að unnt sé að taka á móti ferðamönnum og veita þá þjónustu, sem nauðsynleg er í hverju landi, sem vill heita ferðamannaland og vill hafa tekjur af ferðamönnum. En það er það, sem við Íslendingar þurfum að keppa að, að hafa tekjur af ferðamönnum eins og flest önnur lönd, flest önnur menningarríki. Það eru ekki litlar tekjur, sem Norðmenn hafa af útlendum ferðamönnum, Danir og Svíar, svo að við nefnum aðeins þau ríki, sem eru okkur skyldust og næst.

Það hefur oft verið rætt um náttúrufegurð á Íslandi, og það er enginn vafi á því, að ef við hefðum skilyrði til að taka á móti ferðamönnum, getur ferðamannastraumurinn hingað stórum aukizt, að taka á móti ferðamönnum getur orðið hér eins og víða annars staðar arðbær atvinnugrein. En til þess að þetta megi verða, þarf að byggja gistihús, svo að hægt sé að veita ferðamönnum þá þjónustu, sem þeir eru vanir að fá í öðrum löndum á ferðalögum sínum. Þetta kostar mikið fé, og ég geri ekki ráð fyrir, að við getum gert þetta nema fá erlent fé í þessu skyni. Það hefur verið talað um, að ýmsir útlendingar hafi áhuga fyrir því að byggja hér gistihús.

Er ástæða til annars, en að athuga möguleika á því að fá útlent fé á þann hátt í þessu skyni? Vissulega getum við Íslendingar eins og fleiri smáþjóðir búið þannig um hnútana, að hagsmunir okkar séu á allan hátt tryggðir, þótt horfið væri að því ráði að veita erlendum manni eða erlendu félagi leyfi til þess að byggja hér gistihús, annaðhvort einum eða í félagi við Íslendinga.

Nú mun einhver segja: Það er ástæðulaust að fella þessa grein niður úr því frv., sem hér er um að ræða, því að ef að því ráði verður horfið að veita erlendu félagi eða erlendum mönnum leyfi til þess að byggja hér gistihús, þá verða samin um það sérstök lög.

Þetta má rétt vera. Hitt ætti þó öllum að vera ljóst, að það er ekki til þess að auðvelda það að fá erlenda menn eða félög til þess að hafa áhuga fyrir því að koma hér upp gistihúsi, ef vitað er, að íslenzk lög, sem í gildi eru um gistihúsahald og veitingasölu, banna það raunverulega, að útlendingar eigi hér eða reki gistihús að meiri hluta til.

Það er þess vegna, sem ég tel, að þessi grein eigi að falla í burtu til þess að hindra það, að útlendir menn, sem hefðu áhuga fyrir því að byggja hér gistihús, hættu við það vegna þess, að þeim væri bent á, að íslenzk lög væru þannig úr garði gerð, að þetta væri með öllu bannað. Ég vænti þess, að hv. alþm. vilji athuga þetta í réttu ljósi, og vænti ég þess þá, að menn geti orðið sammála um, að það fari betur á því að fella greinina niður, heldur en að hafa hana í lögunum.

3. brtt. er við 23. gr, og er ekki stór. Þar er lagt til, að þeir, sem hafa veitingaleyfi, fái leyfin endurnýjuð án þess að borga nýtt gjald fyrir, og það virðist vera sanngjarnt. Það virðist vera ástæðulaust að krefja þá, sem hafa veitingaleyfi, þegar lög þessi öðlast gildi, um nýtt gjald fyrir veitingaleyfið, jafnvel þótt það sé ekki hátt. En það ber að hafa í huga, að þeir, sem við veitingasölu fást hér í landi, reka flestir með tapi eða a. m. k. litlum hagnaði, og allt, sem gengur í þá átt að leggja á þá óþarfa gjöld, hjálpar til þess að gera veg þeirra erfiðari og möguleika minni til þess að byggja upp og endurbæta þau veitinga- og gistihús, sem vissulega er þörf á að bæta.

Það er eðlilegt, að það sé erfiðara hér en annars staðar, að halda uppi veitingasölu og gistihúsahaldi vegna fámennisins. A. m. k. á meðan aðeins er hægt að byggja á innlendum ferðamönnum, hlýtur þetta alltaf að verða erfitt. Þetta er skyldukvöð á ýmsum, sem taka þetta að sér vegna brýnnar nauðsynjar, en ekki hagnaðarvon, sem rekur menn til þess. En ef svo mætti verða, að útlendir ferðamenn færu að koma hingað í stærri stíl, en verið hefur, þá gæti veitinga- og gistihúsahald hér í landi orðið arðbær atvinnugrein, eins og víða gerist annars staðar.