25.04.1958
Neðri deild: 83. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (1805)

153. mál, eftirlit til varnar ofeyðslu hjá ríkinu

Frsm. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Hv. flm. þessa frv. óskaði eftir að fá gerða nánari grein fyrir því, í hverju fjhn. þætti undirbúningi þessa máls áfátt. Nú veit ég ekki, hvort ég mæli það fyrir munn allrar n., sem ég segi, því að þetta mál var ekki rætt til þrautar þar, en þó var n., að ég ætla, einhuga um þetta álit. En að mínu viti liggur það alls ekki ljóst fyrir, eða a. m. k. ekki fyrir mér, hvað það er, sem gerir yfirskoðunarmenn Alþ. fyrst og fremst líklega til þess að geta gegnt þessu hlutverki í öllum atriðum, hvort það gæti ekki hugsazt, að það væru einhverjir menn, sem væru a. m. k. jafnfærir til þess og kannske færari, menn, sem dæmdu þá þau mál, sem þarna þarf að skera úr um, af einhverri þekkingu, sem þeir hefðu á málinu, sérþekkingu, sem kannske yfirskoðunarmennirnir hefðu ekki. Eitt af þeim atriðum t. d., sem þessum mönnum er ætlað að gera, er að gera till. um eða ráða um starfsmannafjölda og fyrirkomulag í nýjum stofnunum, sem ríkisvaldið er að setja á fót. Ég hélt t. d., að það mundi kannske vera öllu líklegra til góðs árangurs að fá til einhverja menn með sérþekkingu á þeirri stofnun, sem þar væri um að ræða. Ég er ekki á neinn hátt að draga úr verðleikum hv. yfirskoðunarmanna reikninga ríkisins, sem nú eru, með þessu móti, enda getur verið fjöldi tilvika, þar sem önnur skipan væri heppilegri, en endilega að hafa þá í þessu starfi. Það var það, sem fyrir mér vakti, þegar ég taldi, að málið mætti undirbúa betur að þessu leyti og kanna þá, hvort ekki væri unnt að hafa þetta eftirlit „effektívara“, svo að það kæmi að betri notum, en gert er ráð fyrir í frv.

Ég sagði það í minni upphaflegu ræðu, að ég teldi þetta mál athyglisvert, og ég tel mig ekki vera að neinu leyti að stuðla að því að draga úr ákvörðunarvaldi Alþ., þó að ég sé með í því að leggja til, að þessu frv. verði vísað til ríkisstj., heldur eingöngu vildi ég með því stuðla að lausn, sem næði þeim tilgangi betnr, sem mér virðist flm. frv. stefna að. Og það er allt annað mál. Ég náttúrlega veit ekki, hvað mikla vinnu flm, hefur lagt í frv. og hversu mikill hans undirbúningur undir flutning þess hefur verið, en mér finnst, a. m. k. fljótt á litið, að þá mætti hugsa sér á þessu aðra skipun, sem væri líklegri til þess að ná þeim árangri, sem við erum, að mér virðist, sammála um að ætlazt sé til að ná.