19.05.1958
Efri deild: 102. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (1842)

157. mál, kostnaður við skóla

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Að Löngumýri í Skagafirði hefur verið starfræktur húsmæðraskóli um langa hríð. Þetta er einkaskóli. Stofnandi hans og eigandi er ungfrú Ingibjörg Jóhannsdóttir. Með stofnun og starfrækslu þessa skóla hefur ungfrú Ingibjörg lagt mikinn og lofsverðan skerf til menningarmála íslenzkra húsmæðra.

Skv. heimild í lögum nr. 49 frá 1946 hefur ríkið greitt hluta af kennaralaunum og öðrum rekstrarkostnaði við þennan skóla eins og aðra húsmæðraskóla í landinu. Með bréfi ungfrú Ingibjargar 6. marz s. l. hefur hún boðið þjóðkirkjunni skólann að gjöf með ákveðnum skilyrðum, sem nánar eru greind í grg. með þessu frv. Gjöfin er fyrst og fremst húsakynni skólans, húsbúnaður, kennslutæki, bókasafn, skrúðgarður, trjárækt og 2–3 hektarar lands, en hinn nýi eigandi skólans taki að sér 120 þús. kr. skuld, sem hvílir á þessum eignum. Aðrar skuldbindingar fylgja ekki þessari gjöf. Höfuðskilyrðið, er ungfrú Ingibjörg Jóhannsdóttir setur fyrir þessari gjöf, er sú, að kirkjan starfræki framvegis húsmæðraskóla eða verknámsskóla gagnfræðastigs fyrir ungar stúlkur.

Biskup Íslands hefur lýst sig reiðubúinn að veita þessari gjöf viðtöku fyrir kirkjunnar hönd, ef tryggt er, að kirkjan fái fjárhagslega aðstoð til þess að starfrækja þennan skóla með þeim hætti, sem gefandinn tilgreinir.

Efni þessa frv. er það að tryggja, að þjóðkirkjan geti starfrækt skólann. En það er ekki frekari skuldbinding fyrir ríkið, en hefur verið, því að ríkið hefur greitt kostnað við rekstur þessa skóla, eins og ég sagði, og sá kostnaður af hálfu ríkisins eykst ekki neitt við það, að samþykkt verði þetta frv. Sú eina breyting verður með samþykkt þessa frv., að eigendaskipti verða að skólanum og hinn nýi eigandi, þjóðkirkjan, nýtur sömu aðstöðu og ungfrú Ingibjörg Jóhannsdóttir hefur nú.

Menntmn. hefur athugað þetta frv. og mælir með, að það verði samþykkt. Einn nm., hv. 4. landsk. þm., var ekki viðstaddur á þeim fundi n., er afgreiddi málið, og hefur því ekki tekið afstöðu til þess.