16.12.1957
Neðri deild: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (1918)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir) :

Herra forseti.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er endurflutt á þessu þingi, og hef ég leyft mér að flytja það ásamt hv. 2. þm. Reykv. (BÓ). Efni þess er, að koma megi til skattfrádráttar gjafir, sem fólk hefur gefið einhverjum þeirra aðila, sem taldir eru í 1. gr. frv., en það eru kirkjur, enn fremur félög og stofnanir, sem vinna að vísindum og menningar- og mannúðarmálum. Frádráttinn skal binda því skilyrði, að upphæðin fari ekki fram úr 15% af nettótekjum gefanda.

Skattamál hvers þjóðfélags eru jafnan erfið viðfangs og vandi að ákveða, hverju skuli haldið og hverju skuli sleppt. En við flm. þessa frv. teljum það nauðsyn, að ákvæði sem þetta sé í íslenzkum skattalögum.

Ég mun ekki eyða dýrmætum tíma Alþingis í að fara út í málið nákvæmlega, en rifja upp helztu rökin fyrir því, að málið er flutt hér.

Eins og kunnugt er, stendur fjárskortur mjög fyrir þrifum starfsemi þeirra aðila, sem tilgreindir eru í frv., og þeir gætu þokað góðum málum lengra áleiðis, ef þessi fjárþröng kæmi ekki til. Þessir aðilar efna oft til fjáröflunar eftir ýmsum leiðum, sem eru kostnaðarsamar og hvimleiðar sjálfum þeim og öðrum. Sumir þeirra fá beinan opinberan stuðning og aðrir óbeinan. Margsinnis hefur sýnt sig, að fólk vill styðja þessa aðila, enda horfir starf þeirra almennt til almannaheilla. Þessi stuðningur yrði vafalaust meiri, ef veitt yrðu skattfríðindi, eins og fram á er farið í þessu frv., og hefur það sýnt sig víða annars staðar í heiminum, þar sem þetta hefur verið framkvæmt. Svo er t. d. í Bandaríkjunum — og einnig í Bretlandi, þó að nokkuð öðruvísi sé því komið fyrir í framkvæmd þar. Í Bandaríkjunum er fólki heimilt á þennan hátt að verja til vissra stofnana allt að 20% af brúttótekjum sínum, og ég hygg, að sú heimild hafi nýlega verið hækkuð í 80%. Það, sem þeir kalla brúttótekjur, er að vísu ekki alveg það sama og við köllum svo. Þó er það meira, en talið er nettótekjur hjá okkur.

Oft hafa hér á landi slíkar heimildir verið veittar einstökum aðilum um takmarkaðan tíma, svo hefur verið um kvenfélagið Hringinn, Samband ísl. berklasjúklinga o. fl., svo að nokkur séu nefnd. En það hefur áður komið fram og m. a. þegar eitt þessara mála var á dagskrá hér á Alþingi, að ýmsir þingmenn mundu fremur og engu síður vilja ljá slíkum málum stuðning, ef heimildin væri almenn í skattalögum, enda rísa á þessu sviði jafnan nýjar þarfir og þær gömlu hverfa úr sögunni.

Flutningsmönnum þessa frv. finnst tími til kominn, að gangskör sé gerð að því að styðja á þennan hátt þann félagsskap hér á landi, sem í frv. er um rætt, og ætti þá úr að draga ásókn þessara aðila í opinberar fjárhirzlur, en slík ásókn hlýtur að aukast, eftir því sem fólkið er krafið um stærri fúlgur í skatta til hins opinbera og verður síður aflögufært til þessara mála.

Ég vil leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umr.