17.04.1958
Neðri deild: 79. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (2132)

171. mál, húsnæði fyrir félagsheimili íslenskra barnakennara

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Samband íslenzkra barnakennara eru félagssamtök, sem allir starfandi barnakennarar í landinu eiga aðild að. Þessi félagssamtök láta í té ýmiss konar þjónustu, og er óhjákvæmilegt fyrir þau að hafa skrifstofu hér í bænum. Fram að þessu hafa þessi félagssamtök ekki átt eigið húsnæði fyrir starfsemi sína. En nú nýlega hefur sambandið fest kaup á húsnæði í nýju húsi við Þingholtsstræti 30 hér í bæ. Það hús, sem stendur við Þingholtsstræti 30, er stórt og innréttað sem íbúðir, nokkuð margar íbúðir í húsinu í heild. En eignarhluti Sambands íslenzkra barnakennara er aðeins lítill hluti af húsnæðinu öllu, eða sem samsvarar einni íbúð á neðstu hæð hússins. Þar sem þetta húsnæði er nýtt, hefur sá eignarhluti, sem Samband íslenzkra barnakennara á í því, aldrei verið tekinn til íbúðar. Það er nýlega frá því gengið, svo að það sé fullgert.

Nú er það Sambandi íslenzkra barnakennara mikið nauðsynjamál að geta búið um félagsstarfsemi sína í þessu húsnæði, sem það hefur keypt í því skyni. En vegna þess að það er innréttað sem íbúð, þykir a. m. k. vafi leika á, að rétt sé eða heimilt að taka það til afnota fyrir félagsstarfsemi án þess að leita um það lagaheimildar frá Alþingi.

Á síðustu dögum, sem þingið sat fyrir páskana, komu á minn fund fulltrúar frá stjórn Sambands íslenzkra barnakennara og fóru þess á leit, að ég flytti inn í þingið till. um þetta efni. Þá var hér raunar til afgreiðslu á þingi frv., sem fór í svipaða átt, þ. e. að veita Vinnuveitendasambandi Íslands hliðstæða fyrirgreiðslu. Niðurstaðan varð sú, að ég flutti ekki brtt. við það frv., heldur gekk það breytingalaust í gegnum þingið, og er það nú orðið að lögum. En nú hef ég orðið við þessari beiðni stjórnar Sambands íslenzkra barnakennara og flutt það frv., sem hér er til umr. Vænti ég þess, að hv. þdm. líti með fullkominni sanngirni á þá málavexti, sem hér er um að ræða, og þetta frv. megi fá sem skjótastan og greiðastan gang í gegnum þessa hv. þingdeild.

Ég tel eðlilegast, að þetta frv. fari til athugunar hjá heilbr.- og félmn. að þessari umr. lokinni, og geri það að till. minni.