09.12.1957
Efri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

73. mál, kosningar til Alþingis

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það voru aðeins örfá orð út af því, sem hv. 6. þm. Reykv. (GTh) tók fram. Hann sagði, að Alþ. hefði setið í tvo mánuði og menn myndu ekki jafnviðburðalítið þing. Það er nú vitaskuld ekkert nýtt, að Alþ. starfi nokkuð langan tíma þannig, að ekki sé þar mjög margt til meðferðar af stærstu málum á þingfundum. Það vitum við allir, að oft hefur komið fyrir áður og er ekki nema alveg eðlilegt. Þetta er þegar verið er að undirbúa afgreiðslu stærri málanna. Þá er venjulega fátt af þeim til meðferðar á sjálfum þingfundunum. Ég hirði ekki að fara nánar út í þetta, því að það mun bera nánar á góma næstu daga að sjálfsögðu, þetta um vinnubrögð þingsins o.s.frv.

Hv. þm. talaði um, að ríkisstj. mundi hafa vaknað af þessu værðarmóki til þess að koma þessu máli á flot, sem hér er verið að tala um. Það er nú vafasamt fyrir hv. þm. og aðra, sem svipað hugsa eins og hann, að álykta sem svo, að stj. sofi, þó að hlé verði á stórmálum á Alþingi. Við höfum reynslu fyrir því, að slík hlé þurfa ekki að vera neinn vottur um svefn í stjórnarherbúðunum. En þetta skýrist náttúrlega allt á sínum tíma um meðferð stærri málanna.

Þá vék hv. þm, að nokkrum einstökum atriðum í frv., og ég skal ekki fara langt út í það. Ég skal aðeins minnast á tvennt. Hann sagðist álíta eðlilegt, að það væri hætt kjörfundi kl. 24 og lokið kosningum á kosningadaginn sjálfan, en ekki sjá rökin fyrir því að loka kjörfundi kl. 23. En þau eru rök til þessa, að það er gert ráð fyrir því, að þeir kjósendur, sem hafa gefið sig fram fyrir þennan tíma, kjósi, og ef menn ætla að ljúka sjálfum kosningunum á kosningadaginn sjálfan, verður að hafa þennan hátt á.

Þá sagði hv. þm., að það væri mjög óljóst ákvæði hér um bann við því að merkja bifreiðar, því að það væru bönnuð flokksmerki eða önnur einkenni á bifreiðum, og hélt máske, að það leiddi svo af þessu, að menn yrðu að taka einkennisbókstafina af bifreiðunum á kosningadaginn. En vitanlega er þetta fjarri öllu lagi og mun ekki valda neinum vandkvæðum, því að hér er vitanlega átt við, að það sé bannað að setja flokksmerki eða önnur sérstök einkenni. En engum hefur sjálfsagt dottið í hug, að það væri bannað að hafa á bílunum einkennisnúmerin, svo að ég held, að hann þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því.