21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (2142)

8. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þegar svipað frv. þessu var borið fram á þinginu í fyrra af sama flm. og nú, lét ég í ljós ekki ósvipaðar skoðanir og hv. 1. þm. N-M. gerði nú, a. m. k. um sum atriði. Ég lagði þá áherzlu á það, að ef vegalögunum yrði breytt á annað borð, yrði reynt að gæta samræmis og einhverrar ákveðinnar reglu um það, hvað ættu að vera þjóðvegir og hvað ekki, og ég beindi því þá, að mig minnir, til hv. samgöngumálanefnda þingsins, að þær reyndu að gera ráðstafanir til þess, að þessi mál yrðu athuguð af þeim stjórnarvöldum, sem málið heyrði undir, á milli þinganna. Niðurstaðan varð ekki sú, að Alþingi gerði neitt í þessu máli, svo að mér sé kunnugt, heldur dagaði frv. uppi, og engin ályktun var gerð um frekari undirbúning. Mönnum finnst það ef til vill koma í bága við það, sem ég hef nú sagt, að ég er einn af þeim þingmönnum, sem nú fyrir 1. umr. málsins hafa borið fram brtt. við frv. En ég get sagt það strax, að þessar brtt., sem ég hef borið fram ásamt hv. þm. Ak., eru bornar fram til þess, að mitt kjördæmi verði ekki afskipt, ef farið verður á annað borð að breyta vegalögunum með þeim hætti, sem gert hefur verið oft undanfarið.

Ég held, að það sé nú töluvert ofmælt, sem hv. þm. Barð. sagði, að það væri svo misjafnt, hvað sinnt hefði verið vegamálum í hinum einstöku héruðum, að sum héruð væru búin að fá alla vegi tekna í þjóðvegatölu, en sum ekkert (SE: Ég sagði það nú ekki.) — eða eitthvað í þá áttina sagði hann áreiðanlega, að sum héruð væru búin að fá alla vegi. Mér dettur í hug, hvort hann hafi fengið þessa fræðslu hjá fyrirrennara sínum, því að ég man, að hann sagði það einu sinni í þingræðu, að ég væri búinn að leggja þjóðveg heim á hvert heimili í Eyjafjarðarsýslu. En það er nú allt annað, en svo sé, og ég trúi því tæplega heldur, sem hv. þm. N-M. sagði, að í einhverri sýslu væri það svo, að það væri enginn sýsluvegur til nema á beitarhús á einum stað og þeir hefðu gert það að sýsluvegi vegna þess, að þeir hefðu ekki haft neinn annan veg, hitt væru þjóðvegir. Og mér þætti ákaflega fróðlegt að fá að heyra, hvaða sýsla þetta er.

Svo er það nú, eins og hv. þm. Barð. skaut hér inn í, að það er nú víst að verða lítil þörf á því að leggja vegi að beitarhúsum, því að þau eru nú víst ekki mörg orðin til í landinu.

Hv. þm. Barð. talaði um misræmi, sem væri, og misrétti á milli héraða, og mér skildist á honum, að þetta misrétti mundi verða meira, ef vegalögin væru endurskoðuð í heild og tekin einhver ákveðin og föst stefna um þau. Ég efast um þetta, því að einmitt það reiptog, sem verið hefur um vegalögin undanfarið, að þingmenn hafa hver um sig otað sínum tota, og fer dálítið eftir ýmsum atvikum, hvað hverjum verður ágengt, — ég held, að sú aðferð, sem höfð hefur verið undanfarið um setningu vegalaga eða breytingu á vegalögum, sé einmitt vel til þess fallin að auka misrétti og misræmi. Ég held, að það sé miklu minni hætta á því, ef málið er athugað í heild með auðvitað hag þjóðarinnar í heild sinni fyrir augum, því að vitanlega er það hagur allrar þjóðarinnar, að vegir komi, sæmilegir vegir komi, þar sem á þeim er sérstök þörf. Og ég er ekkert viss um, að þessi aðferð leiddi til þess, sem hv. þm. N-Ísf. bjóst við, að þannig skipuleg vinnubrögð yrðu til þess, að strjálbýlið yrði á eftir undir öllum kringumstæðum. Það færi eftir ástæðum og yrði að meta, hvað heppilegt og rétt væri í því efni.

Þetta kapphlaup um nýja þjóðvegi er auðvitað háð til þess að létta gjöldum af sýslum og hreppum, aðallega sýslum, því að það eru nú sýsluvegir aðallega, sem teknir eru í þjóðvegatölu. En fjárlagafrv., sem liggur fyrir þessu þingi, ber með sér, að það getur verið víðar þröngt í búi, en hjá sýsluvegasjóðum eða hreppssjóðum, því að það sýnist nú samkv. fjárlagafrv., að það sé ekki miklu bætandi á ríkissjóð eins og stendur, hvorki til vega né annars, nema þá með því að innheimta ný gjöld, sem þá koma niður á þjóðinni engu síður, en gjöld til sýsluvegasjóðs og önnur gjöld til sveitarsjóða.

En það er margt, sem taka þarf tillit til, ef á að setja vegalög af skynsamlegu viti. Og það er alveg rétt, sem hér var nefnt áðan, að eitt af því, sem þarf að taka tillit til, er það, hvað mikil þörf er veganna og hvað mikið þeir eru notaðir. Þetta stendur mikið í sambandi við atvinnuvegi og atvinnuhætti í viðkomandi byggðarlögum. Það er vitanlega miklu meiri þörf fyrir veg í þeim byggðarlögum, þar sem bændurnir hafa daglega mjólkursölu til bæjar, heldur en í þeim byggðarlögum, sem ekki þurfa á vegum að halda til annars, en flytja heim vörur úr kaupstað og koma haustafurðum á markað, og líka, eins og nefnt var, að sum héruð í landinu eru áreiðanlega þannig, að sjóleiðin er eðlilegasta leiðin. Og það er náttúrlega eitt af því, sem þarf að athuga um sum strandhéruð, hvort það borgar sig ekki betur að styrkja þá verulega samgöngur á sjó á þeim stöðum heldur en leggja dýra vegi yfir fjöll og firnindi. M. ö. o.: ég held, að það séu ekki heppileg vinnubrögð, að einn einstakur þm. beri fram vegalagafrumvarp um nokkra nýja þjóðvegi, síðan keppumst við hinir þingmennirnir við að bera fram brtt. við það um nýja þjóðvegi í okkar héruðum og svo ráði meira og minna tilviljun um það, hvað af þessu verður samþykkt, ef þá nokkuð af því verður samþykkt. Ég held, að hitt væri miklu heppilegri leið, eins og hv. þm. N-M. hélt fram, að þetta mál væri allt saman rannsakað frá rótum af til þess hæfum mönnum, og þar yrði auðvitað vegamálastjóri að vera einn aðalmaður í, og síðan gerð vegalög eftir þá rannsókn. Og væri þá óskandi og reyndar hægt að vona, að ef þannig væri farið að, þá þyrfti ekki að breyta þeim vegalögum, sem þannig væru sett, annað hvert ár, eins og hv. þm. N-Ísf. sagði að mundi nú vera reglan. Mig minnir, að það megi heita regla mörg undanfarin ár, að vegalögunum hafi verið breytt einu sinni á hverju kjörtímabili, en ekki eins oft og hann minnti að væri, — að það hafi verið nokkurn veginn regla.

Ég skal nú ekki orðlengja þetta frekar, en ég vildi mjög taka undir þá ósk, sem hv. þm. N-M. bar fram, að hv. n., sem málið fer til, taki málið í heild sinni og grundvöll þess og allar aðstæður til rækilegrar athugunar. Það er e. t. v. ekki hægt fyrir þingnefnd að leggja svo mikla vinnu fram sem til þess þarf, og ef n. ekki treystir sér til þess eða samvinnunefndir beggja deilda treystu sér til þess, þá held ég, að væri miklu réttara að láta málið bíða og beina því til ríkisstj. að láta slíka heildarathugun fara fram heldur en taka nú einhverja vegarspotta inn á vegalögin, svona án verulegrar athugunar, og láta að miklu leyti tilviljun ráða, hvaða vegarspottar það eru, eins og reyndar mér virðist hafa verið gert stundum, þegar vegalögum hefur verið breytt.