11.12.1957
Efri deild: 36. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

73. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. forseta fyrir þá sanngirni, sem hann sýndi hér áðan að fresta fundi í nokkrar mínútur, til þess að öll þskj. gætu legið fyrir. Annars eru vinnubrögðin í sambandi við þetta frv, með eindæmum. Þegar málið er lagt hér fram, er það óðara sett á dagskrá til 1. umr., án þess að mönnum gefist tími til þess að lesa frv. og því síður að kanna innihald þess í sambandi við kosningalögin. Svo er málið knúið áfram í n. með miklum hraða, án þess að nokkur veruleg athugun væri á því gerð. Þó er frv. sjálft úr hófi flausturslega samið og ýmis ákvæði þess svo úr garði gerð, að það er nánast hlægilegt að setja slíkt í löggjöf.

Hv. meiri hl. allshn. hefur reynt að sníða verstu gallana af frv. Þetta er virðingarvert út af fyrir sig, en engan veginn fullnægjandi, því að vegna þeirrar stefnu, sem frv. markar, verður það alltaf óskapnaður.

Hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkarnir segja, að tilgangurinn með þessu frv. sé sá að reyna að skapa frið um kjördaginn. Allir, sem nokkuð þekkja til, hljóta að viðurkenna, að með frv. er einmitt stefnt í þveröfuga átt, enda vita allir, að tilgangurinn með frv. er ekki sá að skapa meiri frið um kjördaginn. Hann er allt annar. Tilgangurinn er sá að torvelda kjósendum að neyta atkvæðisréttar síns. Það er ótti við dóm kjósenda, sem hér gægist fram. Þess vegna er á allan máta reynt að torvelda mönnum að neyta atkvæðisréttar síns, m.ö.o., eins og ég gat um þegar við 1. umr., er hér stefnt í einræðisátt, og ég tel þetta gersamlega ósamboðið lýðræðisþjóðskipulagi.

Ég hef gert nokkuð ýtarlega grein fyrir afstöðu minni í nál. á þskj. 149. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara í gegnum það ýtarlega, því að það liggur frammi hjá hv. dm.

Ég hef einnig leyft mér að flytja brtt. við 2. gr., að í stað þess, að kosningu skuli slitið klukkan 23, komi kl. 24, þ.e.a.s., að kjördagurinn sé látinn renna út, þegar kosningu er slitið, sé ekki verið að klípa aftan af honum.

Hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar ræða mikið um frið í sambandi við þetta frv., og þeim friði hyggjast þeir ná með því að takmarka kosningarréttinn, takmarka rétt kjósenda, sem láta í ljós vilja sinn við almennar kosningar, Vafalaust kysi hæstv, ríkisstj, helzt að ganga skrefi lengra. Hún kysi að banna stjórnmálaflokka, hún kysi að færa sig inn í ríki kommúnistanna, þar sem allir stjórnmálaflokkar eru bannaðir og allar umr. um stjórnmál, nema það sé í anda ríkisstjórnanna. Þetta er það, sem gægist hér fram. Þá er skammt yfir í ríki kommúnistanna, en þetta er máske stefnan.

Ég mun ekki hafa þessi orð fleiri. Eins og ég gat um, tel ég ýmsar þær brtt., sem hv. meiri hl. flytur á þskj. 135, standa til bóta, en þær nægja vitaskuld ekki til þess að gera frv. þannig úr garði, að það geti talizt aðgengilegt. Ég legg því til, að frv. verði fellt.