16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (2307)

77. mál, rafveitulína frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Hér hafa þá komið fram raddir allra þeirra hv. þm., sem að þeim tillöguflutningi standa, sem um þetta mál fjallar sérstaklega.

Varðandi þau ummæli hv. þm. Barð., að honum þykir vanta í nál, rök fyrir því, að fella eigi breytingartillögurnar við aðaltillöguna, skal ég að vissu marki játa, að þetta er alveg rétt hjá honum, enda hefur n. ekki haldið því fram, að þær væru fráleitar á nokkurn hátt. N. hefur hins vegar gefið það út sem sitt álit, að hún telji það vera verulegum annmörkum bundið að gera fjölþættar brtt. við raforkuplanið, án þess að heildarendurskoðun á því fari fram, og ég er nú fyrir mitt leyti sannfærður um það, að bæði hv. þm. Barð. og aðrir þeir þm., sem hér hafa talað og látið í ljós vonbrigði sín, vegna þess að fjvn. hefur ekki mælt sérstaklega með brtt., mundu geta fallizt á það, ef þeir líta á málið nokkru nánar.

Ég skal taka það fram, að það mun mega ásaka fjvn. fyrir ýmsa hluti. En hitt, að hún sé sérstaklega gefin fyrir að gera hlut hinna dreifðu byggða laklegan eða lakari, en hann er, það held ég að sé ekki réttmæt ásökun á fjvn.

Varðandi það, sem hv. þm. N-Þ. sagði hér um málið, skal ég að sjálfsögðu taka það fram, að ég efast ekkert um, að það væri mjög til góðs, ef þau héruð, sem hann ber sérstaklega fyrir brjósti, gætu fengið sína raforkuveitu sem fyrst. Ég skal ekkert draga úr því áliti hans. Ég get raunar tekið undir það sem mína persónulegu skoðun, að svo væri.

En það er eitt atriði, sem hann ræddi um sérstaklega og fjallað var um í hans brtt., sem ekki er gerð nein sérstök grein fyrir í nál., og skal ég aðeins gera það að umræðuefni. Hans till. er sem sagt ekki eingöngu um það, að hraðað verði raforkuveitu frá Laxárvirkjuninni um Þingeyjarsýslu til þeirra þorpa, sem hann hér hefur nefnt, heldur einnig um, að greitt verði fyrir innflutningi og útvegun á dieselrafstöðvum til sveitabæja. Ég skal taka það fram, að um þetta segir raforkumálastjóri, — er þó rétt að taka það fram, að það er ekki raforkumálastjóri sjálfur, sem svarað hefur tilmælum n., heldur hans fulltrúi, Eiríkur Briem, — segir í bréfi sínu um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað loks dieselrafstöðvum fyrir sveitabæi viðvíkur, þá geta bændur fengið lán til þeirra úr raforkusjóði, og mun yfirleitt ekki hafa staðið á, að slík lán væru veitt. Hins vegar er miklum erfiðleikum bundið að fá nauðsynlegan gjaldeyri.“

Það er þá sem sagt gjaldeyrishlið málsins, sem getur stundum staðið á, bæði um útvegun dieselrafstöðva og sömuleiðis er það á allra vitorði, að það er gjaldeyrisframleiðsla, sem skammtar það af, eins og fleira í þessu landi, hversu ört er hægt að fara með raforkulagnirnar.

Það skyldi nú aldrei vera, að sú ráðstöfun að tengja Vestmannaeyjar inn í rafveitukerfi landsins gæti átt sinn hlut í því að greiða úr þeim gjaldeyrisskorti, sem svo margir hlutir í okkar landi vilja nú standa og falla með? Ég held þess vegna, að sú röksemd hv, þm. Barð., að það eitt, að Vestmannaeyjar eru fjölmennasta byggðarlag landsins, sem enn er ekki tengt við rafveitukerfið, sé ekki nægileg röksemd fyrir því, að n. leggi til, að lögð verði áherzla á Vestmannaeyjalínuna, sé ekki alls kostar eins einstök og hann vildi vera láta, því að hér er nefnilega í senn um það að ræða og einnig hitt, að hér á í hlut það byggðarlagið, sem hvað drýgstan skerfinn leggur til þjóðarbúsins, einmitt að því er varðar þá undirstöðu, sem flest annað í okkar efnahagsmálum byggist á, þ.e.a.s. gjaldeyrisframleiðsluna.

Að öllu þessu athuguðu vil ég nú vænta þess, að þeir hv. þm., sem flutt hafa brtt. við þá till., sem hér liggur fyrir, og ekki hafa fengið neinar sérstakar undirtektir fjvn. undir þær, sjái sér fært að láta afgreiðslu málsins fara fram án frekari tafa. Ég get nú aðeins bent á það, að það nál., sem hér er til umr., og sú afgreiðsla, sem frá fjvn. kom, er gerð 27. marz. Síðan er liðinn dálítið meira en hálfur mánuður, sem hv. þm. hefðu haft til stefnu að koma á framfæri þeim viðhorfum, sem hjá þeim kunna að hafa skapazt, þegar þeir sáu fram á það að fjvn, mælti ekki sérstaklega með þeirra brtt. Ég vil vænta þess, að þeir að athuguðu máli geti fallizt á að draga ekki afgreiðslu þeirrar till., sem hér er lagt til að sé afgreidd með sérstökum hætti og ráðgeri þá heldur flutning síns máls á öðrum grundvelli en þeim, að það þurfi endilega að vera saman knýtt.