30.04.1958
Sameinað þing: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (2404)

173. mál, lágmark félagslegs öryggis

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Í þáltill. þeirri, er hér liggur fyrir, er lagt til, að fullgilt verði alþjóðasamþykkt um lágmark félagslegs öryggis.

Samþykkt þessi var gerð á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf 28. júní 1952 og hefur að geyma ákvæði um, hverjar skuli vera lágmarksbætur í tilgreindum níu bótaflokkum. Til þess að ríki geti gerzt aðili að samþykktinni, þarf það að fullnægja lágmarksákvæðum a.m.k. þriggja þeirra bótaflokka, sem hér er um að ræða.

Athugað hefur verið, að hve miklu leyti tryggingalöggjöf okkar fullnægi þeim lágmarksákvæðum, sem tekin eru upp í alþjóðasamþykktina, og hefur komið í ljós, að lágmarksskilyrðinu er fullnægt, þannig að formlega er hægt að staðfesta samþykktina. Koma strax til framkvæmda ákvæði, sem taka til þriggja bótaflokka, en síðar geta hinir flokkarnir einnig komið til framkvæmda án sérstakra samþykkta.

All margar þjóðir eru þegar búnar að staðfesta þessa samþykkt, og lögð er áherzla á, að sem flest ríki gerist aðilar að henni.

Tryggingastofnunin hefur haft samþykktina til athugunar og er því meðmælt, að hún verði staðfest.

Ég legg til, að málinu verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr., og vænti ég, að þar verði hægt að hraða því, þannig að það fáist afgr. á þessu þingi.