26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (2473)

129. mál, brúargerð yfir Borgarfjörð

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki leggja neinn dóm á það, hvort sú hugmynd, sem sett er fram í þessari till., er framkvæmanleg eða ekki með þeirri getu, sem íslenzka ríkið hefur yfir að ráða. Það kann vel að vera, að svo sé, eins og hv. flm, (HS) taldi líklegt, enda er till. ekki um annað en að rannsaka þetta, fela ríkisstj, að láta fara fram rannsókn á því, hvort þetta verk sé framkvæmanlegt og hvað það kostaði o.s.frv. En tilgangurinn með þessari till. virðist ekki vera sá að koma neinu nýju vegarsambandi á, heldur er tilgangurinn sá, ef þessi brú yrði byggð yfir Borgarfjörð, að stytta leiðir. Það er talað um það í grg., að þetta mundi stytta leiðina til Vesturlands, þ.e.a.s. um Mýrar, um 30 km og eitthvað norðurlandsleiðina. Ég held að vísu, að það mundi stytta norðurlandsleiðina ákaflega lítið. Ég hef oft farið þarna, og ég get ekki vel séð, að það mundi stytta þá leið mikið. En hitt er vafalaust, að það mundi stytta leiðina út á Mýrar og svo þaðan um Snæfellsnes og vestur á land. Og vitanlega er það mikið hagsmunamál allra, sem hlut eiga að máli, að stytta leiðir.

En ég held í sambandi við þetta mál, að sú hv. n., sem fær það til meðferðar, ætti að taka fleira til athugunar í sambandi við þetta. Fyrir nokkrum árum fór fram einhver athugun á því t.d. að setja bílferju á Hvalfjörð. Ég man ekki eftir, að nokkur skýrsla hafi komið um þá athugun, en nokkuð er það, að í því máli hefur ekkert verið gert. Vitanlega, ef hægt væri að stytta sér leiðina inn fyrir Hvalfjörð, mundi það stytta leiðina bæði vestur á land frá Reykjavík og norðurlandsleiðina miklu meira, en þó að Borgarfjörðurinn eða neðsti hluti Hvítár væri brúaður þarna. Þetta er víst ætlunin að sé rétt á mörkum fjarðarins og árinnar. Ég vildi þess vegna mega mælast til þess, þó að till. sjálf gefi ekki það tilefni, að sú hv, n., sem athugar þessa till., spyrjist eitthvað fyrir um þá athugun, sem einhvern tíma fór fram um bílferju á Hvalfjörð, og jafnvel geri þá brtt. um það, ef sú athugun hefur ekki verið fullnægjandi, sem ég hygg að ekki hafi verið, að það sé athugað, því að það hygg ég að jafnvel hv, flm. þessarar till. játi, að ef hægt væri að losna við krókinn inn fyrir Hvalfjörð, þá kæmi það að miklu meiri notum, en þessi brú.