30.04.1958
Sameinað þing: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (2562)

17. mál, eftirgjöf lána

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti, Hv, 1. þm. Rang. minnti á nokkur atriði, sem honum fannst ég hafa gleymt, þegar ég gat um tölur til sönnunar máli mínu. Hann sagði, að ég hefði gleymt að taka tillit til þess, þegar ég las upp samanburð á tekjum manna í Múlasýslu og hér syðra, að menn hefðu þann búskaparhátt hér syðra, að þeir þyrftu miklu til að kosta og kaupa mikið til búsins af rekstrarvörum. Ég mundi eftir þessu, því að þær tölur, sem ég nefndi, voru nettótölur, tölurnar, sem komu fram, þegar búið er að draga slíkan tilkostnað frá.

Hann sagði líka, að ég hefði gleymt því, að heyin væru ónýt eftir illt sumar, þegar ég nefndi, hvað heyskapurinn hefði rýrnað hér syðra óþurrkasumarið 1955. En ég benti á til samanburðar, hvað hann hefði rýrnað í Norður-Múlasýslu, og það var náttúrlega sams konar hey og ekki betra, sem þeir heyjuðu þar, heldur en hér syðra. Sá samanburður var þess vegna alveg réttur.

Þá sagði hann, að ég hefði gleymt því, að Sunnlendingarnir hefðu átt við fjárpestir að stríða og misst fé. Ég tók líka tillit til þess. En þeir urðu ekki eins hart úti yfirleitt eins og mennirnir fyrir norðan og austan, vegna þess að aðalbústofn bændanna þar er sauðfé, en meiri hluti hinna hefur mjólkurframleiðslu.

Þá kom eitt alveg sérstaklega eftirtektarvert fram í ræðu hv. 1. þm. Rang., og það er það, að hann vildi jafna saman því, sem hann kallar styrk til þeirra, sem veiða fisk og fá verðbætur, og hallærishjálp. Hann sagði sem sé, að hann hefði ekki heyrt þess getið, að styrkur á veiddan fisk væri talinn eftir. Hann viðurkenndi, að það gæti verið dálítið athugavert að gefa milljónera eftir lán, en hins vegar sagðist hann ekki hafa orðið þessa var, þegar í hlut ættu útgerðarmenn, sem væru ríkir eins og hinir og fengju styrk á fiskinn. Þeir, sem svona hugsa, komast náttúrlega ekki nema fyrir tilviljun að réttri niðurstöðu í máli. Við vitum það auðvitað, að verðuppbót á fisk er allt annað en hallærisstyrkur. Ég fer ekki frekar út í það.

En það þótti mér mjög mikils vert að komast að þeirri niðurstöðu, að í raun og veru var hv. 1. þm. Rang, á sömu skoðun og ég um það, að það væri fjarstæða að gefa þeim eftir lánin, sem væru vel efnum búnir. Og hann sagði, að ef ég hefði flutt t.d. brtt, á þá leið: Þó skulu þeir, sem eiga svo og svo miklar eignir, borga, — þá hefði hann verið með. En sannleikurinn er, að ráðstöfunin, eins og Alþ, gerði hana 1957, er alveg miðuð við þessa hugsun, að þeir, sem eigi svo og svo miklar eignir eftir rannsókn, sem bjargráðasjóður hefur á hendi og hreppsnefndirnar í sveitunum, borgi, en hinir, sem hjálparinnar þurfa með, fái eftirgjafirnar. Þess vegna er það svo, að við erum í raun og veru á sama máli, við hv. 1. þm. Rang., og hann ætti að greiða dagskránni atkv., en ekki sinni eigin till., því að hans till. er um það að gefa öllum allt eftir, milljónerunum líka.