30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (2646)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég tel það af sanngirni mælt, sem hér hefur sagt verið, að það sé eðlilegt, að þeir, sem flytja þessa till. og bera hana fyrir brjósti, telji sig eiga rétt til að fá úrskurð Alþ. eftir 30 vikur. Og ég vil heldur ekki eiga neinn þátt í því, að vilji þingsins komi ekki fram í þessu. Mér finnst hins vegar, að æskilegt væri, að þingið, nokkurn veginn fullskipað, gæti um það greitt atkv. Ég sé t.d., að hér er hvorki viðstaddur hæstv. forsrh, né hæstv. utanrrh. Þetta eru nú þeir menn, sem fyrir hönd þjóðarinnar koma fram gagnvart bæði erlendum og innlendum gestum þjóðarinnar. Ég álít ekki rétt, að atkvgr. fari fram um málið þannig, að þeir séu ekki viðstaddir. Ég hefði þess vegna viljað mælast til þess við hæstv. forseta, að hann frestaði atkvgr., enda þótt umr, væri lokið, þar til svo stæði á, að menn vissu fyrir fram og væru öruggir um það, að málið ætti að koma undir atkv. Hér hafa verið á dagskrá í dag ein 20 mál, ef ég man rétt, og afgreiðsla gengið ágætlega. Þetta er 18. málið, er það ekki? Og menn hafa kannske ekki gert sér grein fyrir, að tími ynnist til að ræða það eða skera úr um það.

Ég hef sjálfur staðið í svipuðum sporum og þessir hæstv. ráðh., sem ég nefndi, og ég fer ekkert dult með það, að ég tel það ekki koma til neinna mála, meðan ríkið sjálft rekur heildsölu og smásölu með allar tegundir af víni, — allar, — að þá sé umboðsmönnum þjóðarinnar meinað að bjóða það erlendum gestum, sem eru vanir að hafa það um hönd á siðprúðan hátt, ekki síður en við Íslendingar, og er þó sizt að lasta okkar meðferð á áfengum drykkjum. Ég fer engan veginn dult með þá skoðun mína, segi ég, að það er að gera okkur hjákátlega í augum annarra þjóða og sennilega mikils meiri hluta okkar eigin manna, ef þessi forboðni ávöxtur, sem ríkið hefur af verulegan hluta sinna tekna og alþm. svelgja í sig eins og hundar lepja vatn úr polli, ef þeir eiga kost á því, einkum frítt, — að það sé nú bannað að bjóða það eða bera á borð, þegar menn gerast gestir okkar. Ég er á móti till., en ég vil ekki gera neitt til að tefja umr. um hana. Gefist mér skemmtilegt yrkisefni af öðrum ræðumönnum hér, þá skal ekki standa á mér að taka þátt í umr., þó að ég — eins og ég segi — vilji engum spjöllum valda um þetta, en mundi leyfa mér að biðja hæstv. forseta, ef hann telur, að málinu sé ekki stofnað í neina hættu um, að þingviljinn komi fram, að fresta atkvgr., þar til þingið yrði nokkurn veginn fullskipað.