19.03.1958
Sameinað þing: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (2658)

50. mál, brúar- og vegagerð

Frsm. (Ásgeir Sigurðsson):

Herra forseti. Till. á þskj. 82 um kostnaðaráætlun um brúarstæði á Tungnaá og vegagerð milli Suður- og Norðurlands frá Galtalæk um Sprengisand að Mýri í Bárðardal var tekin til afgreiðslu í allshn. Sþ. 13. þ. m.

Nefndinni hafði borizt bréf frá vegamálastjóra, dags. 7. þ. m., og bréf frá raforkumálastjóra til vegamálastjóra um sama efni. Höfðu báðir þessir aðilar verið beðnir að segja álit sitt á málinu sérstaklega, vegna þess að vitað er, að miklar vatnamælingar eiga sér nú stað og eru áframhaldandi fyrirhugaðar á vatnasvæði Þjórsár.

Eins og kunnugt er, var á Alþingi 22. marz 1956 samþykkt þál. um rannsókn vegarstæðis milli Suðurlands til Norður- og Austurlands. Með bréfi samgmrn. 16. apríl 1956 var vegamálastjóra falið að gera slíka rannsókn. Hafa síðan í samráði við raforkumálastjóra eða raforkumálastjórnina verið mæld þrjú brúarstæði á Tungnaá og eitt á Köldukvísl, eða eitt á þeim stað, er um getur í till. á þskj. 82, og hin í Þóristungum. Samkvæmt upplýsingum nefndra aðila er ráðgert að halda vatnamælingunum áfram enn um skeið, og með því að mjög er rætt um það í bréfi raforkumálastjóra til vegamálastjóra, að nauðsyn sé að byggja brýr í sambandi við þessar rannsóknir og væntanlegar raforkuframkvæmdir, brýr, er þola þungaflutninga, og með því að þar er bent á fleiri en einn stað, er komið gæti til greina, og þar eð sennilegt er talið og æskilegt að þeirra dómi, að umræddar brýr gætu leyst bæði þessi spursmál, t.d. brú í Þóristungum, þótti rétt að miða við fleiri en einn stað.

Það er ljóst mál, að vegarsamband milli Suður- og Norðurlands þessa leið er mjög æskilegt fyrir margra hluta sakir. Þar mundi opnast nýr heimur fyrir ferðafólk t.d.

Með hliðsjón af því, að allverulegar athuganir hafa farið fram á því svæði, er um ræðir í till. á þskj. 82, og í trausti þess, að endanlega verði komizt að niðurstöðu um brúarstæðin og annað í sambandi við rannsókn málsins, mælir nefndin með því, að þáltill. verði afgr. til ríkisstj. og samræmd, ef henta þykir, við þær athuganir, er þegar hafa verið gerðar.

Þá mælir n. og með því, að till. á þskj. 211 um að gera bílfæran Fjallabaksveg frá Landmannahelli austur í Skaftártungu verði afgr. á sömu leið.

Ég hef svo ekki meira um þetta mál að segja.