14.03.1958
Neðri deild: 66. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (2672)

143. mál, verslunarviðskipti við herlið Bandaríkjanna

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Út af seinustu ummælum þess hv. þm., sem nú var að ljúka máli sínu, vil ég aðeins segja það, eins og ég sagði í upphafi, að þetta mál er í athugun enn þá í ráðuneytinu, og liggur ekki fyrir ákvörðun um það, hvað gert verður, fyrr en henni er lokið. En til þess að hafa hér nákvæmar tölur um þau verðmæti, sem hér eru á ferðinni, þykir mér rétt að láta koma fram, að verð þess varnings, sem Sameinaðir verktakar fluttu út á sínum tíma, var 611 þús. kr., tollur í ríkissjóð af því var 392 þús. kr. Verðmæti þess varnings, sem Aðalverktakar hafa flutt út, var 216 þús. kr., en tollgreiðsla í ríkissjóð af því um 200 þús. kr. Tollurinn af þessu tvennu er því um 600 þús. kr. — Þetta þykir mér rétt að láta koma greinilega fram.